Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verður formaður atvinnu- nýsköpunar og ferðaþjónusturáðs, auk þess sem hún mun sinna hlutverki forseta borgarstjórnar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verður formaður atvinnu- nýsköpunar og ferðaþjónusturáðs, auk þess sem hún mun sinna hlutverki forseta borgarstjórnar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verður formaður atvinnu- nýsköpunar og ferðaþjónusturáðs, auk þess sem hún mun sinna hlutverki forseta borgarstjórnar.
Samstarf nýs meirihluta leggst vel í hana og hún kveðst finna fyrir orku og metnaði í hópnum.
Hún mun leiða eigendastefnuna þverpólitískt í einkarekstralegum fyrirtækjum borgarinnar og boðar þar tímamótastefnu. Stjórnir Orkuveitunnar, Félagsbústaða og Faxaflóahafna, munu starfa óbreytt fram á haustið en þá verða skipaðar nýjar stjórnir í þeim fyrirtækjum.
„Við sættumst á að hluti stjórnar verði pólitískur og hluti verði óháður. Meiri- og minnihluti borgarstjórnar mun þannig velja óháða einstaklinga til stjórnarsetu í sameiningu.“
Malbikunarstöðin sem var á Höfða, en er nú komin yfir í Hafnarfjörð, verður seld. „Við erum að skoða kosti og galla við söluna, það þarf að gera þetta faglega. Við viljum auka samkeppni en ekki skapa fákeppni.“
Kraftur verður settur í uppbyggingu og Þórdís Lóa leggur áherslu á að sú uppbygging verði græn, þ.e. umhverfisvæn, enda skipti það Viðreisn miklu máli.
„Við erum að byggja upp í hverfum þar sem komin eru innviði, leggja áherslu á samgöngusáttmála og Sundabrautina.“
Hún segir Viðreisn hafa barist fyrir Sundabrautinni allt síðasta kjörtímabil. „Það er græn framkvæmd því hún styður þéttingu byggðar og atvinnuuppbyggingu á Esjumelum, ásamt því að færa Kjalarnesinga nær okkur.“
Þá segir Þórdís að rekstrarumhverfi einkarekinna skóla verði skoðað, og möguleikar þeirra á að fjármagna sig eins og borgarreknu skólarnir. „Við viljum að það sé valfrelsi, í dag er valfrelsi en það kostar.“
Til skoðunar er því að borgarsjóður greiði með þeim börnum sem kjósi einkarekna skóla, en þau framlög verði að tryggja að foreldrar þurfi ekki að greiða skólagjöld fyrir börnin þar frekar en í borgarreknum skólum.
Viðreisn fékk aðeins inn einn borgarfulltrúa, Þórdísi Lóu, en Pawel Bartoszek er varafulltrúi.
Þrátt fyrir það gekk vel að koma sjónarmiðum Viðreisnar að borðinu, að sögn Þórdísar.
„Við vissum frá byrjun að við komum inn til að styrkja fjölbreytileikann og breiddina í hópnum. Mér líður ekki eins og ég sé ein þegar ég er að vinna með þessu frábæra fólki. Þetta er mikill mannauður og við erum öll að vinna að sama markmiði.“
Átjándi punkturinn á fyrstu opnu samningsins, þar sem helstu breytingar nýs meirihluta koma fram, snýst um að efna til samtals við alla borgarfulltrúa um bættan starfsanda innan borgarstjórnar.
„Við viljum bæta ímyndina, samtalið, og skapa betri samráðsvettvang. Þarna eru tækifæri til að vinna betur saman þvert á flokka.“
Hennar fyrsta verk sem forseti borgarstjórnar verður að ræða við aðra borgarfulltrúa um leiðir til þess að bæta samstarf þvert á flokka.
„Síðasta kjörtímabil byrjaði með látum og úlfúð, en nú höfum við betra tækifæri til að byrja á betri stað.“