Segir sterk tengsl á milli magaermiaðgerða og áfengisfíknar

Líkamsvirðing | 6. júní 2022

Segir sterk tengsl á milli magaermiaðgerða og áfengisfíknar

Esther Helga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í át- og matarfíkn, segir sterk tengsl vera á milli megrunaraðgerða og áfengissýki. Esther hefur áratuga langa reynslu af málefnum matarfíknar og segir allar fíknir sprottnar upp af sama meiði.

Segir sterk tengsl á milli magaermiaðgerða og áfengisfíknar

Líkamsvirðing | 6. júní 2022

Esther Helga Guðmundsdóttir.
Esther Helga Guðmundsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Esther Helga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í át- og matarfíkn, segir sterk tengsl vera á milli megrunaraðgerða og áfengissýki. Esther hefur áratuga langa reynslu af málefnum matarfíknar og segir allar fíknir sprottnar upp af sama meiði.

Esther Helga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í át- og matarfíkn, segir sterk tengsl vera á milli megrunaraðgerða og áfengissýki. Esther hefur áratuga langa reynslu af málefnum matarfíknar og segir allar fíknir sprottnar upp af sama meiði.

„Rannsóknir bæði hér heima og erlendis hafa sýnt að allt að 60% þeirra sem fara í magaermi eða annars konar magaaðgerðir hafi tilhneigingu að þróa með sér aðra fíkn,“ segir Esther Helga, aðspurð út í tíðni tengslanna. Hún segir ástæðurnar fyrir þessu geta verið fjölþættar en stærsta ástæðan sé sú að einstaklingar sem hafa gengist undir megrunaraðgerðir eigi auðveldar með að þróa með sér áfengisfíkn þar sem ein fíkn geti leitt að annarri.

„Áfengið kemst miklu greiðar inn í blóðrásina hjá þeim sem ekki hafa innyfli til að taka á móti því. Þar með þarf miklu minna til í þróun á áfengisvanda. Þetta bendir beinlínis til að þeir sem leitast eftir því að fara í svona aðgerðir fái ekki greiningu á því áður hvort þeir séu að glíma við matarfíkn eða sykurfíkn eða ekki,“ segir Esther. „Síðan fer þetta fólk bara í aðgerð og situr svo uppi með alls kyns afleiðingar af því að ekki hafi verið tekið á fíknivandanum þeirra,“ bendir Esther á og segir fíknivanda geta verið flókið samspil margra þátta.

„Það eru krossfíknir sem eru að eiga sér stað þarna. Það eru til mörg dæmi um fólk sem hefur lokið meðferð á vegum SÁÁ sem byrjar að borða meira þegar það kemur úr meðferð, ásamt því að halda í reykingarnar og óhóflega kaffidrykkju. Þeir sem eru að koma úr vímuefnameðferð verða oftar en ekki alveg sérlega húkt á sykri,“ segir Esther Helga sem hefur víðtæka þekkingu á matarfíkn og áthegðun fólks. „Svo þegar þessir einstaklingar fara að bæta á sig er aukin hætta á að þeir leiðist aftur út í vímuefni og langi frekar til að vera mjóir heldur en feitir,“ bendir hún á.

Mikið áhyggjuefni

Esther Helga hefur áhyggjur af því hversu margar megrunaraðgerðir á borð við magaermi og magahjáveitu eru framkvæmdar hér á landi. Undirliggjandi fíknivandi fólks geti oftar en ekki verið stærsta vandamálið.

„Þetta er skelfileg þróun. Það að taka innyfli úr fólki er ekki eina úrræðið. Vitaskuld virkar þetta fyrir einhverja, en alls ekki alla.“

Málefnið snertir Esther mikið. Fyrir utan menntun hennar og sérþekkingu á málefninu þekkir hún matarfíkn vel, út frá eigin skinni. 

„Ég glímdi sjálf við matarfíkn og var mjög illa haldin. Í 19 og hálft ár hef ég verið í svokölluðu fráhaldi frá þeim matvælum sem ég get ekki notað,“ segir Esther sem stundar enn 12 spora kerfið til að halda sér í bata frá matarfíkn.

„Fráhald verður lífstíll, og með réttri meðferð verður hann áreynslulaus. Viðkomandi öðlast frelsi frá stöðugri löngun í át og ákveðnar matartegundir. Matarfíkn er krónískur líffræðilegur heilasjúkdómur. Ekki ósvipað sykursýki, getum við lært að halda sjúkdómnum niðri, en ef við bregðum útaf þá tekur hann sig upp aftur.  Slæmu fréttirnar eru þær að það hafa orðið óafturkræfar heilabreytingar hjá þeim sem glímir við þennan vanda, góðu fréttirnar eru þær að með réttri meðferð getur líkaminn myndað nýjar og heilbrigðar heilabrautir, en það getur tekið allt að 14 mánuðum fyrir heilann að ná heilbrigði.” segir Esther.

„Ég og mínir kollegar höfum lagt mikla vinnu í fræðslu fyrir fagfólk bæði hér heima og erlendis um þessi málefni. Það eru ýmsar tengingar á milli þyngdarvanda, átvanda og fíknivanda,“ segir Esther sem setti á laggirnar alþjóðlegu menntastofnunina The INFACT School, sem sérhæfir sig í að fræða og útskrifa vottaða matarfíknifræðinga í át- og matarfíkn víðs vegar um heim. 

Hér má sjá Esther ásamt Önnu Maríu Sigurðardóttur, aðstoðarkonu sinni, …
Hér má sjá Esther ásamt Önnu Maríu Sigurðardóttur, aðstoðarkonu sinni, (lengst til vinstri), Raquel Delgado og Evu Clemente þar sem þær sóttu ráðstefnu um Food Addiction í Bristol á dögunum. Ljósmynd/Aðsend

„Yfirvöld hérlendis hafa hingað til ekki verið tilbúin til að skoða þann möguleika að greina matar- og sykurfíkn og vinna með þann fíknivanda fólks,“ segir Esther sem er eini fagaðilinn hér á landi sem býður upp á einstaklingsmiðuð meðferðarúrræði fyrir þá sem glíma við át- og matarfíkn á vegum Matarfíknarmiðstöðvarinnar, MFM. 

„Við vorum ekki að byrja á þessu bara í gær. Þetta spannar heil 16 ár og það hafa yfir 3000 einstaklingar komið í meðferð til okkar. Við höfum gert fjöldann allan af rannsóknum sem hafa síðan verið settar fram á ráðstefnum og þar höfum við séð að það er 70% meðferðarheldni á fyrsta ári og 30% eftir fimm ár,“ vísar hún til. „Það er mjög góður árangur. En þeir sem eru að vinna hér í offitumeðferðum mega þakka fyrir að ná 5% árangri á eins til þriggja ára tímabili,“ segir Esther.

„Vissulega grennist fólk þegar það getur ekki borðað í marga mánuði eftir megrunaraðgerðir. Fólk er að þröngva líkamann í megrun, það getur ekki borðað og getur auðvitað ekki þyngst á meðan, það segir sig sjálft.“

Aukin lífsgæði?

Esther segir marga matar- og sykurfíkla vera illa á sig komna. Hún telur þó leiðina í átt að batanum ekki einvörðungu liggja í megrunaraðgerðum því fíknilöngunin hverfi síður en svo með slíkum aðgerðum. Matarfíkn jafnt sem önnur fíkn segir hún geta verið genatengda hjá mörgum, en er gjarnan áunnin þar sem matvælin sem nútíma fólk innbyrðir geti verið ávanabindandi á sama hátt og nikótín, áfengi og önnur vímuefni.

„Þeir sem eru komnir á slæman stað ættu að geta fengið viðeigandi hjálp strax. Þetta er heilasjúkdómur. Meðferðarúrræði sambærileg við vímuefnavanda, ætti að vera möguleg öllum þeim sem eiga við þennan vanda. Átvandi getur oft verið miklu flóknari því matur og efni, eins og sykur, er mun viðurkenndari í hversdagslífinu,“ segir Esther.

„Það sem gerist eftir svona aðgerðir er að fólk fer að borða í og á sig nýjan maga. Mjög stór hópur fer aldrei alveg niður í heilbrigða þyngd og á það til að þyngjast aftur. Þessi hópur stendur því í sömu sporum nema það vantar hluta af innyflunum,“ segir Esther Helga.

„Það tekur langan tíma fyrir heila þeirra sem glíma við einhvers konar fíkn að ná heilsu aftur. Það eru til heilasneiðmyndir sem sýna heila þeirra sem eiga við matarfíkn, kókaínfíkn og áfengisfíkn og þær sýna sambærilegar heilabreytingar, samanbornar við heilbrigðan heila,“ segir Esther og bætir við að það sé mörgum mikið áfall að sjá líkindin.

Esther Helga Guðmundsdóttir.
Esther Helga Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar við borðum, hreyfum okkur og eigum heilbrigð samskipti, stuðla dópamín móttakarnir í framheilanum að eðlilegri framtakssemi og vellíðan. Hins vegar þegar ofneysla á sér stað, það er að segja, neysla á stórum skömmtum af sykri, sterkju og ýmis konar ofur unninni matvöru, yfirfyllast þessir móttakarar af hvötum sem valda þá vímutilfinningu. Þessar vellíðunarstöðvar eru hinsvegar ekki færar um að viðhalda stöðugu vímuástandi, móttakararnir fara að bila og það verður þolmyndun í heila sem lýsir sér í því að viðkomandi hættir að upplifa eðlilega vellíðan. Afleiðingarnar eru framtaksleysi, vanlíðan, þunglyndi og kvíði,“ segir Esther.

„Eðlilega fer fólk því að leita leiða til að líða betur og fellur inn í vítahring fíknar,“ segir hún jafnframt. 

Esther Helga er í forsvari fyrir Food Addiction Institute. Samtökin eru stór og fer starfið fram á heimsvísu en hún gegnir nú starfi formanns samtakanna.

„Markmið okkar er að auka vitundarvakningu gagnvart sykur- og matarofneyslu sem efnalegri ánetjun eða fíknivanda sambærilegum við aðrar inntökufíknir,“ útskýrir Esther.

„Stærsta verkefnið okkar til þessa eru umsóknir til Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Amerísku Geðlæknasamtakanna (APA), en þessi samtök setja mælikvarða fyrir meðal annars fíknisjúkdóma. Í þeirri undirbúningsvinnu sem við höfum verið að vinna með rannsakendum og vísindafólki í fremstu röð, hafa vísindin staðfest það sem klínískar meðferðir sem við meðferðaraðilar sem höfum starfað í yfir 40 ár höfum séð,“ segir Esther.

„Það þarf að sjúkdómavæða matar- og sykurfíkn og koma því inn í kerfið. Alveg eins og með áfengis- og vímuefnafíkn,“ bætir Esther Helga við og leggur áherslu á orð sín. 

Esther segir mikilvægt að matarfíklar fái lausn á vanda sínum. Þeir þurfi greiningu á vandann og viðeigandi meðferð við honum, áður en gripið sé til stórkostlegs inngrips eins og magaminnkunaraðgerða. Mælikvarðar og greiningartól á borð við Yale-skalann séu verkfæri sem hægt sé að nýta þegar rekja eigi vandann.

„Mér finnst áríðandi í allri þessari umræðu að megrunaraðgerðir eru ekki einu úrræðin. Ég vil að fyrirskipan landlæknis fari í aðra átt. Fagfólk í þessari stétt ætti að fara að bretta upp ermar, skoða rannsóknir og opna fyrir breyttu meðferðarformi við át- og þyngdarvanda,“ bendir Esther Helga á.

mbl.is