„Þetta er gríðarlega stórt og dýrt verkefni“

„Þetta er gríðarlega stórt og dýrt verkefni“

Verkefnastjóri almannavarna hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi setur spurningu við hvort það eigi að koma í hlut lögreglu að framfylgja lokunum í Reynisfjöru eða á öðrum hættulegum ferðamannastöðum, komi til lokana slíkra svæða.

„Þetta er gríðarlega stórt og dýrt verkefni“

Banaslys í Reynisfjöru 10. júní | 15. júní 2022

Ferðamenn fara stundum óvarlega í Reynisfjöru.
Ferðamenn fara stundum óvarlega í Reynisfjöru. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Verkefnastjóri almannavarna hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi setur spurningu við hvort það eigi að koma í hlut lögreglu að framfylgja lokunum í Reynisfjöru eða á öðrum hættulegum ferðamannastöðum, komi til lokana slíkra svæða.

Verkefnastjóri almannavarna hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi setur spurningu við hvort það eigi að koma í hlut lögreglu að framfylgja lokunum í Reynisfjöru eða á öðrum hættulegum ferðamannastöðum, komi til lokana slíkra svæða.

Það sé gerlegt að loka Reynisfjöru en til þess þurfi mikið fjármagn og mannskap eigi að fylgja lokunum eftir. Þá þurfi einnig að líta til annarra varhugaverðra staða og hvort þeir falli þá ekki undir sama fyrirkomulag.

Banaslys varð í Reynisfjöru í síðustu viku þegar alda hreif með sér ferðamann á átt­ræðis­aldri. Var það annað bana­slysið á inn­an við ári í fjör­unni.

Alltaf einn og einn sem þráast við

Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, hefur sagt að það komi til greina að nýta lagaheimildir sem eru til staðar til að loka hættulegum ferðamannastöðum eins og Reynisfjöru. Ýmsir aðilar hafa bent á að það sé hægara sagt en gert að loka svæðinu, bæði vegna þess að erfitt sé að framfylgja lokunum og vegna þess að ferðamenn virða þær gjarnan að vettugi.

Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri almannvarna hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi, segir hins vegar að flestir ferðamenn virði lokanir lögreglu þegar á reyni.

„Við höfum alveg framfylgt tímabundnum lokunum þarna, eins og þegar skriðan féll árið 2019, þá settum við upp borða og vorum á svæðinu og fylgdumst með og leiðbeindum fólki. Upp til hópa þá gengur það alveg en það er alltaf einn og einn sem þráast við,“ segir Björn Ingi í samtali við mbl.is.

Björn Ingi segir gerlegt að loka Reynisfjöru en það sé …
Björn Ingi segir gerlegt að loka Reynisfjöru en það sé dýrt og mannfrekt verkefni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ef loka á einum stað, af hverju ekki öðrum?

„Það er alveg hægt að halda uppi eftirliti en það er kannski spurningin hver á að gera það og hvað með fjármagnið. Þarna er fólk að koma nánast á öllum tímum sólarhringsins og allt árið um kring, þannig þetta er mikið umfang.“

Einnig bendir Björn Ingi á að margir hættulegir ferðamannastaðir séu á Suðurlandi og á Íslandi öllu. Ef loka eigi einum stað af hverju ekki öðrum þar sem hætta geti verið mikil. „Þetta er gríðarlega stórt og dýrt verkefni.“ bætir hann við.

Þá hafi lokanir úti í náttúrinni, þar sem fleiri en ein aðkoma er að svæði, ákveðinn erfiðleikastuðul. „Þó þú lokir einni gönguleið þá er hægt að ganga í 50 til 100 metra fjarlægð niður í fjöru.“

Komið til tals að senda sms-skilaboð 

Komið hefur til tals að senda öllum ferðamönnum sem koma inn á svæðið í kringum Reynisfjöru sms-skilaboð og greina frá mögulegri hættu, líkt og gert er þegar fólk kemur inn á Heklusvæðið. Sama tækni var notuð þegar eldgosið var í Fagradalsfjalli.

Björn Ingi segir þó ákveðna hnökra á kerfinu. Fólk hafi til að mynda verið að fá „draugaskilaboð“ þegar það er ekki staðsett nálægt hættusvæðum.

„Þetta er vissulega ákveðin leið sem við bindum vonir við að gæti inn í framtíðina verið mjög áhugaverð aðferð til að vara fólk við. Örugglega helmingur gesta í Reynisfjöru er á eigin vegum og eru ekki hluti af skipulagðri leiðsögn. Við þurfum að ná til þeirra og þetta er eitt af þeim tólum sem við erum að þróa.“

Þá þurfi líka að huga að útfærslu skilaboðanna og hvenær á að senda þau. „Eiga að koma skilaboð þegar þú kemur í Reynisfjöru um að þetta sé hættulegur staður, eða eiga þau bara að koma þegar það er vont veður eða slæmar aðstæður. Það eru mörg sjónarmið og vangaveltur í gangi.“

Engin viðmið um ásættanlega hættu 

Björn Ingi segir unnið sé að gerð hættumats en lögum samkvæmt falli það undir Veðurstofu Íslands. „Við þurfum að finna vísindalegar forsendur fyrir því við hvaða aðstæður hætta skapast. Sú vinna hefur verið í gangi.“

Hann bendir hins vegar á að einu hættuviðmiðin sem bundin eru í lög og reglur á Íslandi snúi að hættu vegna ofanflóða og snjóflóða. „Það er engin samþykkt eða lögfest viðmið um hvað sé ásættanleg áhætta á ferðamannastöðum. Það er eitt af því sem við höfum verið að ýta eftir að þyrfti að gera. Ferðaþjónustan og þeir sem koma að þessu, ásamt löggjafarvaldinu þyrftu að setjast niður og skoða með hvaða hætti við gætum komið okkur saman um hvað er ásættanleg áhætta.“

mbl.is