Ragnhildur lét drauminn rætast í Valencia

Spánn | 19. júní 2022

Ragnhildur lét drauminn rætast í Valencia

Ragnhildur Þrastardóttir blaðamaður dvaldi á Spáni allan síðasta vetur með kærasta sínum. Parið ákvað að prófa eitthvað nýtt og sinnti vinnu í fjarvinnu á meðan þau voru úti. Borgin Valencia varð fyrir valinu en lífið í borginni snýst um að borða góðan mat og njóta þess að vera til. 

Ragnhildur lét drauminn rætast í Valencia

Spánn | 19. júní 2022

Ragnhildur Þrastardóttir flutti til Valencia á Spáni.
Ragnhildur Þrastardóttir flutti til Valencia á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Ragnhildur Þrastardóttir blaðamaður dvaldi á Spáni allan síðasta vetur með kærasta sínum. Parið ákvað að prófa eitthvað nýtt og sinnti vinnu í fjarvinnu á meðan þau voru úti. Borgin Valencia varð fyrir valinu en lífið í borginni snýst um að borða góðan mat og njóta þess að vera til. 

Ragnhildur Þrastardóttir blaðamaður dvaldi á Spáni allan síðasta vetur með kærasta sínum. Parið ákvað að prófa eitthvað nýtt og sinnti vinnu í fjarvinnu á meðan þau voru úti. Borgin Valencia varð fyrir valinu en lífið í borginni snýst um að borða góðan mat og njóta þess að vera til. 

„Veturinn árið 2020 var mjög yfirþyrmandi hvað varðar veður, farsótt og álag í vinnu. Ég hef alltaf verið mjög hrifin af spænskri menningu og tungumálinu og hafði alveg síðan ég dvaldi þar í einn mánuð og var í spænskuskóla sem unglingur stefnt á að búa þar einhvern daginn í lengri tíma. Þegar fjarvinna varð eðlilegri fyrir fólki í faraldrinum og veturinn nálgaðist ákváð ég ásamt kærastanum mínum að við skyldum bara drífa okkur út í hálft ár og taka vinnuna með okkur. Ég minnkaði við mig en hann hélt áfram í fullu starfi og það var lítið mál að sinna vinnunni að utan,“ segir Ragnhildur um ástæðu þess að hún flutti til Spánar. 

Frá Kayak-ferð í nálægum bæ.
Frá Kayak-ferð í nálægum bæ.

„Við skoðuðum margar borgir á Spáni en komumst að þeirri niðurstöðu að Valencia væri hæfilega stór fyrir okkur, þar er tiltölulega milt veður allan veturinn, nóg af veitingastöðum og alls konar menningarlegri starfsemi en samt stutt að skjótast út í sveit með lest í dagsferðir, sem við þurftum alveg á að halda þegar við fengum nóg af borgarlífinu.“

Frá ráðhústorginu í Valencia.
Frá ráðhústorginu í Valencia. Ljósmynd/Aðsend

Auðmýkjandi reynsla að tala ekki tungumálið

Hvernig var að búa á Spáni yfir vetrartímann?

„Það var alveg frábært. Ég hafði aldrei áður búið erlendis og þetta var ótrúlega skemmtileg reynsla. Það var býsna kærkomið að losna við lægðirnar og þægilegt að geta alltaf farið út úr húsi án þess að dúða sig upp.“

Frá Túria-almenningsgarðinum.
Frá Túria-almenningsgarðinum. Ljósmynd/Aðsend

Ertu orðin góð í spænsku?

„Við skulum segja að ég sé orðin betri. Ég stundaði spænskunám þrisvar sinnum í viku í nokkra mánuði og lærði slatta af því en lærði eiginlega mest á því að reyna að spjalla við fólkið í kringum mig. Það heppnaðist oft vel en stundum var erfitt að geta ekki tjáð sig almennilega eða átt innihaldsríkar samræður. Það opnaði samt líka augu mín og var alveg auðmýkjandi reynsla; að prófa að vera smá öðruvísi og utangátta í samfélaginu.“

Valencia er borg fyrir matgæðinga.
Valencia er borg fyrir matgæðinga. Ljósmynd/Aðsend

Hvað einkennir borgina? 

„Þetta rólega andrúmsloft sem við erum svo langt frá á Íslandi. Fólk er ekkert að æsa sig og kann að njóta stundarinnar. Ég vona að ég hafi náð að taka svolítið af því með mér heim enda þurfti ég klárlega á því að halda.“

Ströndin er staðsett í um 10 kílómetra fjarlægð frá miðbænum.
Ströndin er staðsett í um 10 kílómetra fjarlægð frá miðbænum. Ljósmynd/Aðsend

Að borða góðan mat og njóta

Ragnhildur segir mjög gott úrval af veitingastöðum í Valencia. 

„Við bjuggum í hverfinu Ruzafa sem er eiginlega nýi miðbærinn þó að húsin séu flest gömul. Bara í götunni okkar, Carrer de Cadiz, voru örugglega nálægt 40 veitingastöðum og börum. Sangrían er býsna vinsæl þarna úti og svo eru þeir snillingar í Paellu. Við erum grænmetisætur og það var almennt mjög lítið mál að finna góðan grænmetismat á veitingastöðum borgarinnar.

Frá Mercat Central.
Frá Mercat Central. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhálds veitingastaðurinn minn í borginni er framúrstefnulegur sushi-staður sem heitir Kawori, hann er mjög lítill og það er smá skemmtistaðastemmning þar inni. Þeir bjóða upp á mjög frumlegt sushi og úrvalið af grænmetis-sushi var eitt það besta sem ég hef séð. Við mættum alltaf bara og báðum um eitthvað grænmetis og þá báru þjónarnir í okkur þvílíkar kræsingar þar til við sögðum stopp.“

Það er auðvelt að skreppa út úr borginni og í …
Það er auðvelt að skreppa út úr borginni og í nærliggjandi bæi þar sem er fjöldi skemmtilegra gönguleiða. Þessi mynd er tekin í Buñol. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi að sjá og gera í Valencia?

„Valencia er fullkomin borg til þess að rölta um, borða eitthvað gott og versla. Þar er mjög stór almenningsgarður sem áður var árfarvegur. Hann heitir Túria og ég fór þangað nánast daglega þegar mig vantaði aðeins meira pláss en boðið er upp á á götum Ruzafa sem eru oftar en ekki fullar af glaðlyndu fólki. Svo eru í gamla bænum, hverfinu El Carmen, margar fallegar gamlar byggingar og magnaðar kaþólskar kirkjur fyrir þau sem hafa áhuga á slíku.

Churros og heitt súkkulaði.
Churros og heitt súkkulaði. Ljósmynd/Aðsend

Svo er ómögulegt að heimsækja Valencia án þess að fara í Listaborgina, stórt svæði með byggingum sem eru hannaðar í takt við líkamsbyggingu fiska (sjón er sögu ríkari). Við hjóluðum líka nokkrum sinnum í hverfi sem kallað er Litlu Feneyjar og er um átta kílómetra frá borginni sjálfri. Þar eru litrík hús, bátar við bryggju og notaleg strönd.“

Geitaostasalat er vinsæll réttur í borginni.
Geitaostasalat er vinsæll réttur í borginni. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er fullkominn dagur í Valencia?

„Bestu dagarnir okkar í Valencia fólust í rólegu rölti yfir í gamla bæinn þar sem Mercat Central er staðsettur. Þar er kjörið að kaupa sér fersk kirsuber, líta svo við í einni af fjölmörgum bókabúðum borgarinnar, og rölta niður í Túría og eyða deginum þar í bóklestri og sól. Ef svengdin er mikil þá verð ég að fá að mæla með besta falafelstaðnum í bænum, líbanska staðnum Pasteleria de Libanes, en þar er hægt að grípa með sér alls konar vefjur og sætindi. Staðurinn er í eigu líbanskrar fjölskyldu og er fólkið þar sérstaklega gestrisið,“ segir Ragnhildur. 

„Ef við vorum í skapi fyrir eitthvað aktívara þá leigðum við okkur gjarnan hjól og hjóluðum upp í litlu þorpin í kringum Valencia sem eru mjög skemmtileg eða leigðum okkur tennisvöll en tennis er mjög vinsæl íþrótt í Valencia.

Skroppið til Xàbia á hjólum.
Skroppið til Xàbia á hjólum. Ljósmynd/Aðsend

Svo er auðvitað nauðsynlegt að fara út í mat og drykk um kvöldið og get ég líka mælt með veitingastaðnum Balí hvað það varðar. Þar er mjög sérstök stemmning en eigendurnir hafa hannað staðinn þannig að gestum líði eins og þeir séu raunverulega staddir í Indónesíu. Það er þó nauðsynlegt að bóka borð þar með góðum fyrirvara.

Sem sagt. Fullkominn dagur í Valencia snýst aðallega um að borða góðan mat og tileinka sér hugarfar heimamanna: Að njóta hverrar mínútu,“ segir Ragnhildur. 

mbl.is