Heimilin fá verðbólguna ekki „beint í fangið“

Vextir á Íslandi | 22. júní 2022

Heimilin fá verðbólguna ekki „beint í fangið“

Heimilin í landinu hafa burði til að takast á við þær vaxtahækkanir sem hafa verið undanfarið, sem og verðbólguna. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þegar stýrivaxtahækkun bankans um eina prósentu var kynnt í morgun.

Heimilin fá verðbólguna ekki „beint í fangið“

Vextir á Íslandi | 22. júní 2022

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Heimilin í landinu hafa burði til að takast á við þær vaxtahækkanir sem hafa verið undanfarið, sem og verðbólguna. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þegar stýrivaxtahækkun bankans um eina prósentu var kynnt í morgun.

Heimilin í landinu hafa burði til að takast á við þær vaxtahækkanir sem hafa verið undanfarið, sem og verðbólguna. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þegar stýrivaxtahækkun bankans um eina prósentu var kynnt í morgun.

Hann sagði heimilin enn vera í plús. Þau hafi aldrei verið betur fjármögnuð og aldrei verið með meira eigið fé. Hann nefndi að verðbólgan hafi ekki lent af fullum þunga á þeim sem tóku nafnvaxtalán.

„Verðbólguskellurinn hefur komið miklu minna fram hjá þeim heimilum sem hafa verið með nafnvexti en þeim sem hafa verið með verðtryggð lán. Þetta er í fyrsta skipti í áratugi að heimilin fá ekki verðbólguna beint í fangið,“ sagði Ásgeir, sem tók þó fram að verðbólgan kæmi fólki mjög illa og æti upp kaupmáttinn.

Mikil áhrif frá fasteignamarkaði

 Hann sagði Seðlabankann hafa þær skyldur við heimilin að halda verðbólgunni niðri og það ætli bankinn sér að gera. Hann sagði mikil læti hafa verið á fasteignamarkaði, þar sem færi saman skortur á framboði og gríðarleg fjölgun fólks á vinnumarkaði með stórum ungum kynslóðum. Þær komi einnig inn á fasteignamarkaðinn. „Þá fáum við þessa verðbólgu tiltölulega skarpt inn,“ sagði hann og benti á að fasteignamarkaðurinn legði mjög mikið til verðbólgunnar. Um leið og fasteignaverð hætti að hækka, sé grundvöllur fyrir „tiltölulega hraðri verðbólguhjöðnun“.

„Við teljum mikilvægt að bregðast fljótt við og af ákveðni þannig að við getum náð verðbólgunni niður,“ sagði hann um vaxtaákvörðun bankans og talaði um að vextirnir lækki aftur um leið og verðbólgan hjaðni.

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, á fundinum.
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, á fundinum. mbl.is/Árni Sæberg

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, bætti við að staða heimilanna væri mjög góð. „Kaupmáttur ráðstöfunartekna og kaupmáttur launa hafa verið að aukast. Það er mjög ánægjulegt og mjög gott.“

Hún sagði að sú breyting hefði orðið frá síðasta fundi peningastefnunefndar að verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja hafi hækkað. Við því hafi þurft að bregðast.

Engar launahækkanir fyrir framtíðarverðbólgu

Ásgeir sagði engar fleiri samningsbundnar launahækkanir vera út þetta árið, samkvæmt lífskjarasamningnum, sem sé gott. „En það er ekkert ólíklegt að það byrji launaskrið í þeim greinum þar sem er mikill skortur, eins og í byggingariðnaðinum.“

Bætti hann við að Seðlabankinn búi, með vaxtaákvörðun sinni, í haginn fyrir næstu kjarasamninga. Bankinn geti sýnt fram á það að hann ætli að ná niður verðbólgu „með hörðum aðgerðum til að aðilar vinnumarkaðarins sjái að það þurfi ekki að heimta launahækkanir fyrir framtíðarverðbólgu“.

Launaskrið gæti byrjað í byggingariðnaðinum, að mati seðlabankastjóra.
Launaskrið gæti byrjað í byggingariðnaðinum, að mati seðlabankastjóra. mbl.is/Golli

„Það skiptir máli þegar samið er um laun í þessu landi að aðilar vinnumarkaðarins geri sér grein fyrir því að við erum ekki að fara að láta verðbólguna halda áfram,“ sagði hann og bætti við að aðilar vinnumarkaðarins ættu að geta sest niður og „samið um krónur sem hafi raunverulegt virði. Ekki krónur sem verða étnar upp af verðbólgu“.

 Ásgeir sagði Seðlabankann starfa fyrir vinnandi fólk og að vinnumarkaðurinn kæmist í uppnám ef hann leyfði verðbólgunni að halda áfram. „Miðað við hvað fasteignaverð hefur hækkað, vorkenni ég verktökum ekki að borga hærri vexti. Miðað við hvað söluverð hefur hækkað á fasteignum.“

Fagnar skrefum bandaríska seðlabankans

Hann minntist einnig á erlend áhrif og sagði húsnæðisverð fara hækkandi alls staðar annars staðar. Einnig hafi orkuverð hækkað erlendis, sem komi Íslandi síður við. „Við fögnum mjög þeim skrefum sem bandaríski seðlabankinn hefur tekið til að takast á við verðbólgu. Við lítum svo á að við séum þátttakendur í alþjóðlegu átaki til að ná tökum á verðbólgu,“ sagði hann.

mbl.is