„Pólitík þvælist ekki fyrir“ fleiri íbúðum

Vextir á Íslandi | 24. júní 2022

„Pólitík þvælist ekki fyrir“ fleiri íbúðum

Eitt af fyrstu verkefnum Einars Þorsteinssonar í starfi formanns borgarráðs er að stofna þverpólitískan stýrihóp sem er ætlað að „bora sig ofan í“ húsnæðismálin og mun hópurinn heyra undir borgarráð.

„Pólitík þvælist ekki fyrir“ fleiri íbúðum

Vextir á Íslandi | 24. júní 2022

Einar Þorsteinsson.
Einar Þorsteinsson. mbl.is/Óttar

Eitt af fyrstu verkefnum Einars Þorsteinssonar í starfi formanns borgarráðs er að stofna þverpólitískan stýrihóp sem er ætlað að „bora sig ofan í“ húsnæðismálin og mun hópurinn heyra undir borgarráð.

Eitt af fyrstu verkefnum Einars Þorsteinssonar í starfi formanns borgarráðs er að stofna þverpólitískan stýrihóp sem er ætlað að „bora sig ofan í“ húsnæðismálin og mun hópurinn heyra undir borgarráð.

„Við ætlum ekki að láta stranda á borginni þegar kemur að því að gefa verktökum og iðnaðinum svigrúm til að byggja í borginni,“ segir Einar í samtali við mbl.is. „Við viljum greiða fyrir öllum ákvörðunum og það er verkefnið núna.“

Sveitarfélög flýti framkvæmdum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi þar sem ákvörðun peningastefnunefndar bankans var kynnt um hækkun stýrivaxta um eina prósentu að fasteignamarkaðurinn hafi lagt mikið til verðbólgunnar. Hann talaði um að stórir árgangar ungs fólk streymdu inn á fasteignamarkaðinn og að byggja verði meira af húsnæði. Einkennilegt sé að horfa á ónýtt byggingarland víða í borginni.

Einar segir ummæli Ásgeirs um framboðshliðina á húsnæðismarkaðnum ekki vera ný af nálinni. Hann hafi lengi talað um að fleiri íbúðir vanti á markaðinn til að anna eftirspurninni. „Hann er að beita þeim stýritækjum sem hann telur best að nota og það er augljóst að það þarf að bregðast við verðbólgunni,“ segir Einar.

Hann kveðst sammála seðlabankastjóra um að besta leiðin til að koma á jafnvægi á húsnæðismarkaði er að öll sveitarfélög, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, geri sitt allra besta til að flýta framkvæmdum, auka lóðaframboð og liðka fyrir öllum skipulagsmálum. Þessi vegna verði stýrihópurinn stofnaður.

Einar bendir á áhersluatriði meirihlutans í borginni um að úthluta lóðum austar, bæði í Úlfarsárdal og á Kjalarnesi. Hefja þurfi strax vinnu við Keldnaland og Keldnaholt. „Þetta eru verkefnin sem eru komin strax í vinnslu en ég legg áherslu á að meiri- og minnihluti vinni vel saman vegna þess að það þurfa allir að leggjast á eitt til þess að ná árangri í þessu.“

„Það þarf bara fleiri íbúðir“

Einar nefnir að borgin vill hefja samtal við ríkið um það hvernig það og sveitarfélög geta staðið saman í að tryggja lóðaframboð og flýta fyrir uppbyggingu. Það sé dýrt fyrir sveitarfélög að ryðja land, byggja skólahverfi og aðra innviði. „Við sjáum að uppsöfnuð þörf er gríðarlega mikil og það er ekkert í kortunum sem gefur til kynna að það fari að hægjast eitthvað á eftirspurnarhliðinni. Það þarf bara fleiri íbúðir,“ greinir hann frá og bendir á nýja skýrslu húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stöðu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu í þessu samhengi.

Spurður hvort byggingar séu væntanlegar fljótlega til að takast á við vandann sem nú er uppi svarar Einar að mikil uppbygging sé í gangi í Reykjavík. „Það er verið að byggja. Við sjáum þegar við keyrum um allt höfuðborgarsvæðið að það er verið að byggja eitthvað í hverju sveitarfélagi. Það kemur inn á markaðinn eftir því sem verkunum vindur fram,“ segir hann.

Einar talar um að með starfi húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga og fleiri aðila sé betri yfirsýn að nást yfir húsnæðismarkaðinn. Hana hafi skort þegar kemur að því að vita hvar ákveðin byggingarverkefni séu stödd í ferlinu. Uppfærð mannfjöldaspá frá því í vor hafi jafnfamt vakið fólk til umhugsunar um talsvert meiri þörf fyrir húsnæði en áður var talið.

Einar, lengst til vinstri, á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar Reykjavíkur …
Einar, lengst til vinstri, á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar Reykjavíkur fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vandamál af ýmsum toga

Aðspurður segir hann að samstarf borgarinnar við ríki og önnur sveitarfélög hefði átt að hefjast fyrr. Hann tekur þó fram að Framsóknarflokkurinn hafi leitt vinnu við að tryggja stofnframlög til byggingar hagkvæms húsnæðis. 30 milljörðum króna hafi verið veitt til þess frá árinu 2016, sem hafi skipt miklu máli til að mæta þörfum efnaminna fólks. Borgin hafi tekið þátt í því að fjármagna hluta þessara stofnframlaga.

Í kosningabaráttu Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar var kveðið á um byggingu 3.000 íbúða á ári á kjörtímabilinu. Einar segir verkefnið framundan snúast um þetta. „Hækkun húsnæðisverðs er að auka verðbólgu í landinu. Þetta setur þrýsting á kjaraviðræður því þar er húsnæðisliðurinn gríðarlega mikilvægur. Þetta skiptir heimilin í landinu gríðarlega miklu máli og aðalatriðið er að það standi ekki á sveitarfélögunum. Þau geri allt sem þau geta til að auka framboð,“ segir hann en tekur fram að iðnaðarmenn skorti í þennan geira. „Það þarf að finna lausn á ýmsum vandamálum sem þessu tengjast en það er bara verkefnið.“

Hann kveðst finna pólitíska samstöðu um þetta bæði hjá meiri- og minnihlutanum í borginni. Hvetur hann önnur sveitarfélög til að vinna einnig að málunum „þannig að pólitík þvælist ekki fyrir“.

mbl.is