„Konur fæða börn og ættu því að geta farið upp á fjöll“

Fjallganga | 26. júní 2022

„Konur fæða börn og ættu því að geta farið upp á fjöll“

Margrét Gauja Magnúsdóttir deildarstjóri ungmennahúsa í Hafnarfirði, leiðsögumaður og athafnastjóri kallar ekki allt ömmu sína þó hún gæti án efa farið með hana upp á jökul. Eftir að hún varð fertug hefur talsvert mikið breyst hjá henni. Sérstaklega eftir að hún fór að fara meira út í náttúruna og tengjast orkunni sem finna má þar. 

„Konur fæða börn og ættu því að geta farið upp á fjöll“

Fjallganga | 26. júní 2022

Margrét Gauja Magnúsdóttir deildarstjóri ungmennahúsa í Hafnarfirði, leiðsögumaður og athafnastjóri kallar ekki allt ömmu sína þó hún gæti án efa farið með hana upp á jökul. Eftir að hún varð fertug hefur talsvert mikið breyst hjá henni. Sérstaklega eftir að hún fór að fara meira út í náttúruna og tengjast orkunni sem finna má þar. 

Margrét Gauja Magnúsdóttir deildarstjóri ungmennahúsa í Hafnarfirði, leiðsögumaður og athafnastjóri kallar ekki allt ömmu sína þó hún gæti án efa farið með hana upp á jökul. Eftir að hún varð fertug hefur talsvert mikið breyst hjá henni. Sérstaklega eftir að hún fór að fara meira út í náttúruna og tengjast orkunni sem finna má þar. 

„Ég var nýflutt heim frá Höfn í Hornafirði og bjó ein með syni mínum og vann sem bæjarfulltrúi, sem var ekki nóg til að halda mér og honum uppi.

Ég er mjög virk að eðlisfari. Var á fundum tvisvar í viku og var að bilast úr leiðindum. Ég setti því inn status á Facebook um hvernig væri best að verða leiðsögumaður. Þá fékk ég símtal frá vini mínum sem starfaði á þessum tíma hjá Tröllaferðum. Áður en ég vissi af var ég komin upp í litla rútu og byrjuð að leiðsegja um landið allt. Svo fékk ég meirapróf og var þá komin með réttindi til að keyra mína eigin rútu og þá hófust ferðalög upp á jökla.“

Hvaða eiginleika þarf leiðsögufólk að hafa?

„Við þurfum að kunna okkar mörk og að kunna okkur hóf. Það tekur á að keyra um í alls konar aðstæðum. Ég man að einu sinni fór ég til læknis í mars til að láta athuga blóðið í mér því ég var alltaf svo þreytt. Hann spurði hvað ég ynni við og sagði mér að allir leiðsögumenn landsins upplifðu það sama eftir vinnuna í desember, janúar og febrúar. Að leiðsegja á Íslandi á þessum árstíma er einfaldlega erfitt. Það er svipað því að vera alltaf þunnur. Þá er gott að kunna að hvíla sig.

Þegar maður nær tökum á þessu er það að vera leiðsögumaður algjör himnasending og það upplifði ég í mínu lífi. Ég var búin að vera í stjórnmálum svo lengi, þar sem umhverfið er mjög grimmt. Að fá svo að vera Maggý (borið fram með enskum hreim) á fjöllum með fólki í góðu skapi er æðislegt. Enda hver fer í ferðalag lífsins í vondu skapi?

Ísland er svo stórkostlegt land. Meira að segja í stormi. Maður kynnist alls konar fólki. Sumir eru smá klikkaðir eins og ég. Þetta er reynsla sem ég hefði ekki viljað missa af.“

Vill að unga fólkið læri beint af náttúrunni

Ætli þið séuð klikkuð eða við sem sitjum við tölvuna allan daginn?

„Já, það er spurning. Ég trúi því að konur séu með lægri þröskuld fyrir rugli en karlmenn. Stjórnmál eru búin til af körlum og þar ríkja karllæg gildi þar sem farið er í manninn meira en málefnin. Ég átti góðan sprett í stjórnmálum á þessum tíma en þetta var umhverfi sem mér hugnast ekki. Ég er bara allt of stuðsækin kona og vel því að vera þar sem stuðið er.

Ég vinn með unglingum á daginn, þá er stuð. Unglingar eru skemmtilegasta fólkið, því þau eru svo skemmtileg, gefandi, opin og klár.“

Margrét er á þeirri skoðun að með árunum komi upp kynslóðir sem geri betur en þær sem á undan fóru.

„Svei mér þá, ég er ekki viss um að hægt sé að toppa þá kynslóð sem nú eru unglingar. Það verður að minnsta kosti erfitt.“

Hvað með Suðurlandið?

„Ég bjó í Hornafirði og í Öræfum svo minn staður er Skaftafellið og Skaftafellsjökull. Ég fæ ekki nóg af þessum stað og mun aldrei gera. Ég lét meira að segja húðflúra á mig Skaftafellið!

Að mínu mati verða allir Íslendingar að prófa að fara í tjaldferð í Vatnajökulsþjóðgarðinum og á Höfn því þar er krafturinn sem margir leita að í lífinu.

Eins er ég á því að við ættum að skylda unga fólkið okkar að læra um öræfin og jöklana með því að fara þangað og skoða með eigin augum. Þá sjá þau skýrar hvaða áhrif hlýnun jarðar hefur á jöklana.

Það fer í taugarnar á mér að við kennum börnunum okkar á heiminn í gegnum glærusýningar og tölvur í lokuðum stofum.“

Hvernig upplifa ferðamenn Suðurlandið?

„Ég heyri andvörp á korters fresti í rútunni því fólk er sífellt að sjá eitthvað sem hefur mikil áhrif. Viðbrögð fólks lýsa Suðurlandinu best.

Ég er ferðaleiðsögumaður sem keyri rúturnar mínar sjálf og fer með fólkið á jökla sem er minn hamingjustaður í lífinu. Ég fer þangað til að sækja orkuna mína.“

Lífið ekki beinn og breiður vegur

Margrét gerðist jöklaleiðsögumaður þegar hún varð fertug.

„Með því starfi fæ ég útrás fyrir aðgerðarsinnann í mér og pólitíska hugsun. Þannig man ég að taka loftlagsmálin alvarlega enda sé ég breytingar á tveggja vikna fresti á jöklunum vegna hlýnunar jarðar.

Mér finnst æðislegt að fara með fólk í smá ræktargöngutúr upp á jökli og fá útrás fyrir þessari hlið á mér. Maður þarf ekki að vera kjörinn fulltrúi til að vera stjórnmálamaður og ég er það á svo margan hátt sem leiðsögumaður. Þeir sem fara upp á jökla með mér munu án efa hugsa sig tvisvar um þegar þeir fara að kaupa sér bíla. Ég veit að ég kveiki neista.“

Hvað með konur á jöklum?

„Það jafnast fátt á við að fara með konur upp á jökul. Við erum oft með fyrirframgefnar hugmyndir um hversu erfitt þetta er. Hversu erfitt það er að vera í broddum og með ísexi. Þetta er erfitt og ég femínista yfir mig í þessum ferðum en við valdeflumst við að takast á við hið óþekkta og það gerist vanalega í svona ferðum.

Ég sé konur umbreytast frá því að vera hræddar í að hugsa: Ég get þetta allt!“

Konur fæða börn og ættu því að geta farið upp á fjöll. Takmarkanirnar búa stundum í huga okkar. Það er ekki spurning.

„Ég gekk í gegnum þung og erfið ár áður en ég fór að fara upp á jöklana en svo ákvað ég bara að taka meiri ábyrgð á sjálfri mér og tók einnig ábyrgð á að vera alltaf að vaxa og dafna.

Það er besta ákvörðun sem ég hef tekið og að gera meira af því sem gerir mig hamingjusama.“

Hvað eru margir í rútunni þinni og hvert leitar fólk sem vill fá þig í að leiðsegja í ferðum sínum?

„Ég vinn mestmegnis fyrir Tröllaferðir og keyri rútur sem taka 10 til 15 manns. Ég mæli með að fyrir jöklaferðir sé fólk vel klætt og í útivistarfötum.

Mér finnst gaman að fara með hópa og þá sér í lagi hressar píur í smá óþægilegar aðstæður. Það er alltaf gaman að skoða Gljúfrabúa, Nauthúsagil og Kvernufoss. Það eru margir skemmtilegir aðgengilegar fossar við þjóðveg 1 sem gaman er að skoða.“

Beint upp á jökul þegar hún er reið

Hvað með nesti og mat á ferðalögum um Suðurlandið?

„Mér finnst gott að vera bara með nesti. Stoppa í Krónunni á Hvolsvelli og kaupa eitthvað gott þar. Svo er Bistró á Hótel Skógafossi góður staður og svo má ekki gleyma veitingahúsinu Svörtu fjörunni við Reynisfjöru sem ekki er vinsælt að tala um núna.“

Hvað er málið með Reynisfjöru?

„Það eru viðvörunarmerki þar alls staðar og þegar ég fer þangað sem leiðsögumaður þá læt ég alla kalla mig mömmu og tek loforð af fólki að halda sig 10 metrum frá sjónum. Ég hleyp á undan hópunum og veit að allir leiðsögumenn fylgja reglunum um að gera það. Þeir sem lenda í háska á Reynisfjöru fara vanalega ekki eftir fyrirmælum eða með leiðsögumenn sem kunna allir að fara um staðinn.

Ég trúi því að allir Íslendingar geti farið á jökul. Það hefur enginn látist á jökli á undanförnum tíu árum og ef þú ferð á jökul með leiðsögumanni verður upplifunin einstök. Ég hef sem dæmi farið upp á jökul með 83 ára gamalli konu.“

Hvernig gekk það?

„Það gekk stórkostlega vel. Ég studdi hana meira en ég geri við aðra og þegar við vorum komnar á áfangastað þá sátum við saman tvær að lifa drauminn sem hún hafði átt lengi. Það er hægt að sigrast á daglegum athöfnum með ferðum á jökla. Hver gerir það sem honum hentar og á sínum hraða.

Ég sem dæmi nota jöklana stundum þegar ég er reið. Þá læt ég mig hverfa í nokkra tíma og þegar heim er komið aftur þá sé ég hlutina í skýrara ljósi og hjartað mitt verður aftur fullt af gleði og hamingju. Þannig tek ég betri ákvarðanir í lífinu.“

Margrét er ekki hissa á því að læknar í Kanada ávísi íbúum landsins ókeypis aðgang í þjóðgarðana.

„Það er alveg hreint frábær hugmynd. Það er frítt inn í okkar þjóðgarða en ég held að við þurfum að skoða þessa leið betur og kannski er uppsveifla í útivist því við finnum hversu gott þetta er fyrir sálina. Að sanna sig í náttúrunni er engu lagi líkt.“

Fer með unga fólkið út í náttúruna

Vinna Margrétar tengist á margan hátt. Vinnan með unglingana, leiðsögumannsstarfið og svo störfin hennar hjá Siðmennt.

„Ég er ekki mikið að gifta unglinga en fer með þá eins mikið út í náttúruna og ég get. Um daginn fór ég með ungar flóttastúlkur upp á jökul. Það var stórkostleg upplifun að sjá þær valdeflast við þetta. Þær höfðu aldrei gert sér í hugarlund að standa á jökli og urðu uppfullar af sjálfstrausti á meðan ég hugsa um hugrekkið sem það hlýtur að krefjast að koma einar til Íslands landlausar. Það minnir okkur á að við getum meira en við höldum.“

Það tekur ekki svo langan tíma að fara á jökul. Þrjá tíma eða svo að sögn Margrétar.

„Þetta á hvorki að vera erfitt né flókið og getur verið gaman að fíflast að taka myndir að drekka jökulvatn. Ég hef farið með börn allt niður í tíu ára og hvet alla til að fara með góðri leiðsögn fyrst. Það kostar ekki svo mikið heldur. Kannski í kringum 13.000 krónur og stundum er hægt að fá tveir-fyrir-einn í svona ferðir. Það er einstakt að standa í bláum sprungum og virða fyrir sér öskuna úr Kötlu frá því hún gaus 1918.“

mbl.is