„Maður fer eiginlega í vellíðunarástand“

Áhugavert fólk | 28. júní 2022

„Maður fer eiginlega í vellíðunarástand“

Anna Þórunn Hauksdóttir, eigandi hönnunarfyrirtækisins ANNA THORUNN, segir athöfnina að róla sér svo einstaka. Fólk gleymi stund og stað í rólunni. 

„Maður fer eiginlega í vellíðunarástand“

Áhugavert fólk | 28. júní 2022

Anna Þórunn Hauksdóttir.
Anna Þórunn Hauksdóttir.

Anna Þórunn Hauksdóttir, eigandi hönnunarfyrirtækisins ANNA THORUNN, segir athöfnina að róla sér svo einstaka. Fólk gleymi stund og stað í rólunni. 

Anna Þórunn Hauksdóttir, eigandi hönnunarfyrirtækisins ANNA THORUNN, segir athöfnina að róla sér svo einstaka. Fólk gleymi stund og stað í rólunni. 

Hvaðan kemur áhugi þinn á heimili og hönnun?

„Síðan ég man eftir mér hef ég alltaf haft áhuga og miklar skoðanir á innanhússhönnun og fallegum hlutum. Ég er alin upp af móður sem er mikill fagurkeri og áhugasöm um heimilið sitt þannig að ég hef ekki langt að sækja það. Þegar við systur rifjum upp gamlar minningar úr æsku þá eigum við alltaf sameiginleg hugrif af heimilum fólks sem við heimsóttum sem börn.“

Hvernig lýsir þú vinnunni þinni?

„Ég er svo heppin að vinna við það sem ég elska og það er að hanna og reka fyrirtækið mitt ANNA THORUNN. Ég hanna vörur, læt framleiða þær fyrir mig erlendis og kem þeim í sölu. Það helsta á döfinni er að nýjar vörur eru að koma á markað ásamt áframhaldandi vinnu að koma vörunum enn frekar á erlendan markað. Flauelspúðinn Three Seasons sem unninn er út frá árstíðum kemur í þremur litum, ljósbleikum, brúnum og ferskjugulum. Keramikvasinn Dolce kemur í tveimur litaútfærslum, brúnum og kremuðum, en form hans kemur af kleinuhring. Bliss-glervasinn og skálin er einnig væntanleg í nýjum lit, í koníaksbrúnum.“

Hver er uppáhaldshlutur sem þú hefur hannað?

„Núna er það án efa rólan Freedom sem ég hannaði fyrir HönnunarMars í tilefni fimmtán ára útskriftarafmælis míns sem vöruhönnuðar. Þetta er gjöf frá mér til mín en mig langaði ótrúlega mikið í rólu á nýju vinnustofuna mína sem einnig er sýningarrými mitt í Garðabæ. Athöfnin að róla er svo róandi, maður fer eiginlega í vellíðunarástand og gleymir stund og stað. Ég mun gera róluna eftir pöntunum. Annars er erfitt að gera upp á milli hlutanna sinna en blaðagrindin Rúdolf er mér alltaf kær þar sem hún var fyrsti hluturinn til að fara í framleiðslu eftir að ég útskrifaðist.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Eftir að hafa tekið inn góðgerla og hafþyrnisolíu þá finnst mér allra best að fá mér kaffi og ristað brauð með íslensku smjöri, osti og sultu á hnífsoddi. Ég meira að segja hlakka til að vakna og fá mér þessa samsetningu ár eftir ár!“

Hver er uppáhaldsveitingastaðurinn þinn?

„Heima hjá mér! Maðurinn minn Franco eldar dýrindismat handa okkur fjölskyldunni oft í viku. Heppin ég!“

Hvað er draumahúsgagnið?

„Þetta er mjög erfið spurning en sófinn Camaleonda eftir ítalska hönnuðinn Mario Bellini hannaður árið 1970 er mjög ofarlega á lista um draumahúsgagnið.“

Hvaða hús er það fegursta sem þú hefur komið inn í?

„Ég kom inn í svokallað „Mid Century modern“-hús í Reykjavík á dögunum. Mig hefur lengi langað til að eignast slíkt hús. Tilfinningin var þannig að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta en síðan ákvað ég bara að njóta augnabliksins.“

Hvernig heldurðu þér í formi?

„Ég hef iðkað kundalini-jóga í 13 ár og ég hreinlega elska það. Ég hlakka ávallt til að mæta í tíma hjá frábærum en ólíkum kennurum í Jógasetrinu. Ég fer mjög oft í göngutúra og þá einna helst í náttúrunni sem mér finnst afar nærandi. Við hjónin erum nýfarin að iðka aftur tangó sem gerir manni gott bæði á líkama og sál.“

Hver er uppáhaldsborgin þín og af hverju?

„Mér finnst erfitt að gera upp á milli Rómar og Parísar. Ég bjó í Róm þegar ég var í skartgripahönnun í IED og fannst hún dásamleg en París á líka stað í hjarta mér rétt eins og ég hafi verið þar í fyrra lífi.“

Ef þú værir að mála allt hjá þér, í hvernig litum væri það?

„Virkilega erfið spurning! Þar sem ég bý ekki í stóru húsnæði þá held ég að þyrfti alltaf að hafa ljósa veggi í alrými en svefnherbergi og baðherbergi mættu vera í dekkri tónum.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn heima og af hverju?

„Stofan er mitt uppáhaldsrými. Í enda hennar er risastór gluggi en undir honum er sófi sem ég dýrka að leggjast í og fylgjast með himninum. Í stofunni eru vel valdir hlutir í hverju horni þar sem hún er ekki stór. Ég elska að gleyma mér með þessum hlutum sem umvefja mig og vekja hjá mér yndislegar tilfinningar og minningar.“

Áttu þér uppáhaldsskartgripamerki?

„Ég kaupi mér sjaldan skartgripi en ég á hins vegar allskonar fallegt glingur sem ég hef safnað mér í gegnum árin. Ég var virkilega hamingjusöm um daginn þegar ég fékk loksins tækifæri til að bera eyrnalokka sem ég hafði erft eftir föðurömmu mína Önnu Þórunni fyrir fjörutíu árum. Þetta eru mjög sérstakir bleikir semalíu-smellueyrnalokkar sem pössuðu svona vel við dragt sem ég klæddist.“

Hvaða snjallforrit notar þú mest?

„Ég hef mjög gaman af Instagram og nota það mest en einungis fyrir vinnuna. Mér finnst sögurnar þar algjör snilld því þar getur maður leikið sér aðeins meira og verið óformlegri.“

mbl.is