Missti son sinn og opnaði skemmtigarð í minningu hans

Ferðumst innanlands | 2. júlí 2022

Missti son sinn og opnaði skemmtigarð í minningu hans

Vilborg Arnarsdóttir átti hugmyndina að því að búa til fjölbreytta afþreyingu fyrir fjölskyldur og ferðamenn á norðanverðum Vestfjörðum. Með Raggagarði vildi hún minnast sonar síns, Ragnars Freys Vestfjörð heitins, sem lést 2001. 

Missti son sinn og opnaði skemmtigarð í minningu hans

Ferðumst innanlands | 2. júlí 2022

Vilborg Arnarsdóttir átti hugmyndina að því að búa til fjölbreytta afþreyingu fyrir fjölskyldur og ferðamenn á norðanverðum Vestfjörðum. Með Raggagarði vildi hún minnast sonar síns, Ragnars Freys Vestfjörð heitins, sem lést 2001. 

Vilborg Arnarsdóttir átti hugmyndina að því að búa til fjölbreytta afþreyingu fyrir fjölskyldur og ferðamenn á norðanverðum Vestfjörðum. Með Raggagarði vildi hún minnast sonar síns, Ragnars Freys Vestfjörð heitins, sem lést 2001. 

Vilborg, eða Bogga eins og hún er vanalega kölluð, hófst handa við verkefnið að koma upp Raggagarði eftir að sonur hennar Ragnar lést í bílslysi í Súðavík árið 2001, þá 17 ára gamall.

„Garðurinn er til minningar um hann. Ætlun mín var að eyða tíma sem ég hefði annars átt með Ragnari heitnum í þennan garð,“ segir Vilborg, sem er stöðvastjóri Olís á Akureyri í dag og hefur verið búsett þar frá árinu 2014. Hún kemur í öllum leyfum sem hún á til Súðavíkur að styðja við uppbyggingu garðsins.

„Draumurinn um garðinn rættist með aðstoð heimamanna, sumarbúa, gesta, fjölmargra velunnara á öllum aldri og fjölda styrktaraðila. Unnið hefur verið af alúð og umhyggju í sjálfboðavinnu í mörg þúsund klukkustundir hér frá árinu 2004,“ segir hún.

Tæpar 50 milljónir króna hafa farið í garðinn

Fjár hefur verið aflað með ýmsu móti. Börn hafa haldið tombólu og gefið garðinum peningana. „Ýmiss konar varningur hefur verið seldur, margt af því gjafir til garðsins. Bökuð hafa verið fjögur tonn af kleinum á þessum 11 árum og svona mætti lengi telja.

Í dag, árið 2022, er búið að framkvæma fyrir tæpar 50 milljónir króna frá upphafi,“ segir Vilborg.

Skemmtileg aðstaða

„Í Raggagarði er svið ásamt áhorfendasvæði ætlað fyrir fjölskyldusamkomur og listviðburði. Nokkur útigrill eru á leikjasvæðinu til afnota fyrir gesti. Við erum með sæti og borð eru fyrir 120 manns í öllum garðinum.“

Vilborg hefur upplifað margt skemmtilegt í tengslum við Raggagarð.

„Ég auglýsti eitt sinn eftir fólki til að hjálpa til við að klára að mála skjólvegg við salernið.

Það kom gamall maður keyrandi, einn elsti Bolvíkingurinn okkar, og spurði hvað hann ætti að mála. Hann kláraði að mála skjólvegginn og sagðist vera svo glaður að geta lagt eitthvað af mörkum. Þegar hann fór rétti hann mér umslag með 100 þúsund krónum í og sagði að þar sem hann væri gamall og vildi gera svo miklu meira þá væri það lágmark að styrkja garðinn um smá aura.

Svona sögur eru óteljandi og hljómar eins og skáldskapur og er efni í heila bók eða heimildarmynd,“ segir Vilborg.

Ein af stærri perlum Vestfjarða

Uppbygging Raggagarðs er ennþá í gangi og verður án efa um ókomna tíð.

„Í sumar er ætlunin að setja upp níu körfu frisbí völl við í samstarfi við ungmennafélagið Geisla í Súðavík og með styrk frá Olís, Hraðfrystihúsinu Gunnvör í Hnífsdal og Verk Vest.

Mitt yndi er að geta komið í gömlu heimabyggðina og haldið áfram og klárað verkefnið sem ég byrjaði á.

Það veitir mér mikla ánægju að sjá alla gleðina hjá börnum og fullorðnum sem heimsækja garðinn og njóta hans. Þannig að þá má segja að ég sé hæst launaða manneskjan á landinu.“

Hvað með litla steinasafnið í Raggagarði?

„Litla steinasafnið eru steinar sem ég sjálf safnaði meðan ég bjó í Súðavík. Þar sem ég var að flytja ákvað ég að setja steinasafnið á Boggutún sem er útivistarsvæði garðsins.“

Fjölskyldufólk, erlendir ferðalangar, eldri borgarar og fólk á öllum aldri heimsækir garðinn.

„Á Boggutúni er margt skemmtilegt að skoða varðandi sögu Súðavíkur og þar má segja að þú getir séð sérkenni Vestfjarða á einum stað. Auk þess eru nú sjö listaverk í garðinum svo hér ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.“

Vilborgu þykir einstaklega vænt um Súðavík.

„Það var dásamlegt að búa í Súðavík milli fjalls og fjöru. Maður finnur fyrir orkunni í fjallinu Kofra. Í dag vantar sumarhúsabyggð svo fleiri geti komið og dvalið í þessari paradís og notið Raggagarðs og alls umhverfisins. Í fyrstu átti ég hugmynd að garðinum en nú er eins og garðurinn hafi tekið yfir og er hann orðinn einn af stærri perlum Vestfjarða,“ segir Vilborg.

Eiginmaðurinn í „Vinnubúðum Vilborgar“

Vilborg hefur reynt ýmislegt í lífinu og er á því að garðrækt sé allra meina bót og samvera með fjölskyldunni.

Fyrrverandi eiginmaður hennar, Gunnar Bjarki Vestfjörð, lést í snjóflóði 8. mars 1989. Hún kynntist eiginmanni sínum Halldóri Má Þórssyni árið 1994 og eiga þau tvö börn saman. Með fyrri manni sínum átti hún tvö börn. Annað þeirra var Raggi sem garðurinn er reistur til minningar um.

„Það er mikilvægt að finna tilgang í lífinu og að lifa lífinu í gleði á hverjum degi. Enginn veit hvað hver og einn fær langan tíma í þessari jarðvist,“ segir hún.

Vilborg er þakklát eiginmanni sínum fyrir alla aðstoðina sem hann hefur veitt í gegnum árin.

„Raggagarður á sig sjálfur. Hvorki ég né aðrir í félaginu eru eigendur. Öll vinna mín og Halldórs er okkar gjöf til Vestfirðinga og landsmanna allra.

Maðurinn minn hefur stutt mig frá fyrstu tíð og eytt ómældum tíma í að setja saman öll leiktækin, sett upp girðingar og fleira.

Hann hefur stundum kallað garðinn „Vinnubúðir Vilborgar“ og sagt að ég stýri verkefnum með harðri hendi. Einnig er hefð fyrir því að auglýsa vinnudag í Raggagarði á hverju ári. Oftast koma allt að 15 einstaklingar að aðstoða en eitt árið kom hjónaklúbburinn Laufið til Súðavíkur og tóku þau flest þátt í vinnudeginum og taldi það 28 manns í sjálfboðavinnu. Það var mjög dýrmætt vinnuframlag til okkar.“

mbl.is