„Þar byrja og enda allar góðar ferðir“

Ferðumst innanlands | 24. júlí 2022

„Þar byrja og enda allar góðar ferðir“

Katrín Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Godo, ætlar að ferðast mikið um landið og miðin í sumar. Katrín hefur lagt ríka áherslu á að ferðast meira innanlands en utan þess yfir sumartímann og í ár verður engin breyting þar á. 

„Þar byrja og enda allar góðar ferðir“

Ferðumst innanlands | 24. júlí 2022

Katrín Magnúsdóttir.
Katrín Magnúsdóttir. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir

Katrín Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Godo, ætlar að ferðast mikið um landið og miðin í sumar. Katrín hefur lagt ríka áherslu á að ferðast meira innanlands en utan þess yfir sumartímann og í ár verður engin breyting þar á. 

Katrín Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Godo, ætlar að ferðast mikið um landið og miðin í sumar. Katrín hefur lagt ríka áherslu á að ferðast meira innanlands en utan þess yfir sumartímann og í ár verður engin breyting þar á. 

„Í sumar ætla ég að ferðast um landið eins mikið og ég get, ásamt því að sinna vinnunni. Sumarið er annasamur og krefjandi tími hjá okkur þar sem að við erum að þjónusta ferðaþjónustufyrirtæki um land allt. Það er mikið að gera hjá þeim öllum og spennandi sumar hafið í íslenskri ferðaþjónustu,“ útskýrir Katrín sem hefur engar utanlandsferðir fyrirhugaðar í bili. 

Katrín elskar að ferðast um Ísland.
Katrín elskar að ferðast um Ísland. Ljósmynd/Aðsend

„Miklu frekar vil ég fara til útlanda þegar hér er orðið dimmt og kalt,“ segir Katrín. „Ég var nýlega bæði í Prag og Dublin þannig ég er ekki búin að bóka næstu utanlandsferð. Hún verður vonandi í haust en áfangastaðurinn er enn óákveðinn. Mögulega verður það Portúgal þar sem að ég held að veðráttan, matur og vín séu fyrsta flokks og andrúmsloftið afslappað. Það hentar mér vel,“ segir Katrín og hefur það í hyggju að verja hluta sumarsins á Vestfjörðum og í Skagafirði. 

Jafnast ekkert á við Skagafjörðinn

Katrín segir Skagafjörðinn vera sinn uppáhaldsstað á landinu og þó víðar væri leitað. Hún segir fátt betra en að verja tíma með Rún, níu ára gamalli dóttur sinni, í sumarbústaðalandi í eigu fjölskyldu hennar sem staðsett er í Skagafirðinum. Þangað sækist hún gjarnan í afslöppun og góðar samverustundir, útiverunnar í stórkostlegri náttúru og síðast en ekki síst, afþreyinguna sem finna má á svæðinu. 

„Að öllum öðrum stöðum ólöstuðum þá er og verður Skagafjörður alltaf minn staður. Þar spila auðvitað inn tengsl mín við staðinn og mitt fólk, en líka fjölbreytileikinn sem leynist í náttúrunni og ferðaþjónustunni,“ segir Katrín og bendir á að Skagafjörðurinn hafi mörg leyndarmál að geyma.

Það jafnast ekkert á við Skagafjörðinn að mati Katrínar.
Það jafnast ekkert á við Skagafjörðinn að mati Katrínar. Ljósmynd/Aðsend

„Þar er að finna „rafting“ ár á heimsmælikvarða, náttúrufegurð sem á sér enga hliðstæðu, fallegustu hross landsins, frábært skíðasvæði, sögufrægar slóðir, náttúrulaugar, fjölbreytta afþreyingu og sérstaklega skemmtilegt og söngelskt fólk sem virðist hafa einstak lag á því að njóta augnabliksins,“ segir Katrín og hlær. „Ég get ekki hælt Skagafirðinum nóg. Skagafjörðurinn er fastur punktur í öllum mínum ferðum. Þar byrja og enda allar góðar ferðir,“ segir hún en hjá Katrínu fær veðráttan oft að ráða hvert förinni er heitið á sumrin. „Ég er eins og aðrir Íslendingar og elti auðvitað bara veðrið þannig að ég vonast eftir bongóblíðu fyrir vestan.“

Hver er uppskriftin að draumafríinu þínu?

„Þetta er erfið spurning því sú uppskrift er kaflaskipt eftir landshlutum, árstíðum, innanlands og utan. Yfirhöfuð finnst mér mjög gaman að ferðast og ferðalögin þurfa ekki alltaf að vera flókin. Hins vegar finnst mér best þegar það er blanda af smá „action-i“, skemmtun og slökun,“ lýsir Katrín og segir ferðalög með góðu fólki seint geta klikkað. 

Mæðgurnar Katrín og Rún í Víetnam.
Mæðgurnar Katrín og Rún í Víetnam. Ljósmynd/Aðsend

„Í langtímaplönum er verið að horfa í vinkonuferð til Afríku sem ég er mjög spennt fyrir og mun eflaust vera ógleymanleg ferð,“ segir Katrín.

„Ein góð uppskrift væri að keyra með mínu uppáhaldsfólki upp á hálendi, tjalda, labba um, baða sig í náttúrulaug, keyra aftur til byggða, gera vel við sig í mat og drykk og gista á hóteli. Þessi uppskrift inniheldur auðvitað góða íslenska sumarblíðu,“ segir hún og lýsir einu af draumafríunum sínum.  

Frábærir gististaðir víða um land

Katrín segist vera hvatvís að eðlisfari og slær hún sjaldan hendinni á móti ferðalögum sem ákveðin eru með stuttum sem engum fyrirvara. Hingað til hefur hún ekki lagt það fyrir sig að gista í tjaldi. Í rauninni þykir henni þrælfínt að eyða íslenskum sumarnóttum undir nánast undir berum himni. Ekkert toppi þó þá tilfinningu að leggjast til hvílu á flottum íslenskum hótelum.

Katrín segir samverustundir úti í náttúrunni í Skagafirðinum afar dýrmætar.
Katrín segir samverustundir úti í náttúrunni í Skagafirðinum afar dýrmætar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er mikill talsmaður þess að þessu verði að blanda saman. Að gista í tjaldi um íslenska sumarnótt á hálendinu á sér enga hliðstæðu. Eftir nokkrar slíkar nætur er hins vegar mjög gott að koma inn á einn af þeim fjölmörgu góðu gististöðum sem leynast hér um allt land. Ég get ekki lagt nægilega mikla áherslu á hversu flotta gististaði hér er að finna. Hér eru nefnilega auðfundnir staðir sem bjóða uppá svo miklu meira en bara góð og fallega uppábúin rúm,“ segir Katrín og hvetur Íslendinga til að halda áfram að ferðast innanlands þrátt fyrir að heimsfaraldurinn sé ekki í jafnmiklu hámæli og var.

„Mig langar til að hvetja alla sem búa hér á landi til að ferðast innanlands allan ársins hring. Hér er ótrúlegt úrval af flottum gististöðum, veitingahúsum, brugghúsum, skíðasvæðum og afþreyingu sem ég held að við séum almennt ekki nægilega meðvituð um,“ segir hún.

„Fyrir mér er Ísland eitt stykki paradísareyja sem við ættum að ferðast meira um á þann hátt sem hentar hverjum og einum - það er eitthvað fyrir alla um allt land,“ segir Katrín ákveðin að lokum.  

Mæðgurnar í fjallgöngu.
Mæðgurnar í fjallgöngu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is