„Ég ætla að ganga um Langanesið í sumar“

Ferðumst innanlands | 26. júlí 2022

„Ég ætla að ganga um Langanesið í sumar“

Tinna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Skógarbaðanna, er viss um að Norðurlandið laði nú fleiri til sín en vanalega og að Skógarböðin muni hitta í mark hjá landsmönnum í sumar sem og komandi ár. Þegar hún á frí gengur hún á fjöll og nýtur þess að vera úti í náttúrunni. 

„Ég ætla að ganga um Langanesið í sumar“

Ferðumst innanlands | 26. júlí 2022

Tinna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Skógarbaðanna, er viss um að Norðurlandið laði nú fleiri til sín en vanalega og að Skógarböðin muni hitta í mark hjá landsmönnum í sumar sem og komandi ár. Þegar hún á frí gengur hún á fjöll og nýtur þess að vera úti í náttúrunni. 

Tinna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Skógarbaðanna, er viss um að Norðurlandið laði nú fleiri til sín en vanalega og að Skógarböðin muni hitta í mark hjá landsmönnum í sumar sem og komandi ár. Þegar hún á frí gengur hún á fjöll og nýtur þess að vera úti í náttúrunni. 

Útsýnið er engu öðru líkt frá Skógarböðunum, sem opnuðu með pompi og prakt 22. maí síðastliðinn. Á svæðinu er er einstök orka og böðin virka eins og falinn fjársjóður í fallegu umhverfi, þar sem byggingin er hönnuð með það í huga að varpa ekki skugga á stórbrotnu náttúruna allt í kring.

Tinna Jóhannsdóttir stýrir Skógarböðunum, sem eru einungis steinsnar frá Akureyri. Hún er ekki í nokkrum vafa um að böðin verði fastur viðkomustaður margra sem ætla að leggja Norðurland undir fótí sumar.

Sjálf á Tinna ættir að rekja norður þótt hún sé fædd og uppalin í Reykjavík.

„Ég hef búið í miðborginni næstum alla mína ævi en ég elska hins vegar Akureyri og hef alltaf gert það. Það er því spennandi kafli í lífi mínu núna og ég er einstaklega þakklát fyrir að fá tækifæri til að starfa hér,“ segir Tinna.

Skógarböðin er hugarfóstur hjónanna Finns Aðalbjörnssonar og Sigríðar Maríu Hammer. Öll þrjú hafa unnð hörðum höndum að því að láta þennan draum verða að veruleika.

„Skógarböðin eru náttúrulaugar í dásamlegu skógarumhverfi þar sem finnsk þurrsauna, kaldur pottur og tveir sundlaugarbarir auka á upplifun gesta í umhverfinu. Við rekum hér einnig Skóg Bistro sem er veitingastaður með frábæru útiveitingasvæði,“ segir Tinna.

Nýta vatnið úr Vaðlaheiðargöngum

Skógarböðin eru staðsett beint á móti Akureyri, við þjóðveginn sem liggur í áttina að Vaðlaheiðargöngunum.

„Í böðunum er vatnið, sem runnið hefur úr Vaðlaheiðargöngunum síðan þau voru grafin og hefur hingað til runnið út í sjó, nýtt. Lagnir voru lagðar í jörðina og vatninu er nú, að mestu leyti, beint til okkar í gegnum þær. Vatnið sem kemur til okkar er um 48 gráðu heitt. Það er kælt niður og notað í laugarnar. Vatnið er 38 til 39 gráðu heitt á einum stað og 41 gráðu heitt á öðrum.“

Akureyri stendur á ótrúlegum tímamótum að mati Tinnu og er hún spennt fyrir komandi tímum.

„Á dögunum fór fyrsta flugvél Niceair héðan í loftið og nú þegar Skógarböðin hafa opnað og fleira skemmtilegt er að gerast á svæðinu, sem styrkir Akureyri og nærumhverfið, þá trúi ég að við verðum áningarstaður framtíðarinnar. Bæði fyrir Íslendinga og erlendaferðamenn.

Vonandi mun fólk dvelja lengur hér á svæðinu og styðja þannig við þann rekstur sem hér er með fjölgun gistinátta og nýtingu alls þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða.“

Hótel Sigló í uppáhaldi

Þegar kemur að góðum mat er hún einstaklega mikið fyrir mat úr héraði og staðhæfir hún að silungurinn í Mývatnssveit sé engum öðrum líkur.

„Uppáhaldsmaturinn minn er allur matur sem Heimir maðurinn minn býr til en hann er svo mikill snillingur í eldhúsinu að það hálfa væri nóg. Ég fæ hins vegar ekki nóg af silungi og það er hvergi betri silungur fáanlegur en í Mývatnssveitinni. Hvort heldur sem hann er ferskur, reyktur eða grafinn.“

Hvar er gaman að gista á þessum slóðum?

„Mér finnst dásamlegt að hlaða batteríin á Siglufirði og Hótel Sigló er eitt af mínum uppáhaldshótelum. Svo höfum við mikið gist við Mývatn og leigjum okkur þá gjarnan lítil sumarhús í Dimmuborgum,“ segir hún.

Hvað með aðra fallega staði á Norðurlandi?

„Ásbyrgi og Hljóðaklettar eru stórkostlegir staðir. Það er einstakt að ganga þar um. Ég kann vel við að gista í tjaldi þar og fara í göngutúra um svæðið,“ segir hún.

Verið draumur að ganga um Langanesið

Tinna er náttúrubarn og hefur gaman af því að ganga úti í náttúrunni.

„Já, ég er svo mikill náttúruunnandi. Ég geng mikið á fjöll og kýs að vera úti ef ég get, helst allt sumarið. Að ferðast erlendis heillar mig ekki neitt á sumrin, því það er ekkert fallegra en

Ísland yfir sumarmánuðina. Skemmtilegast af öllu finnst mér að ferðast um í tjaldi. Vera í lopapeysu og hita mér kaffi á prímus. Ég ferðast vanalega með ferðagasgrill í skottinu til að geta grillað öllum stundum. Í raun hvar sem ég er á ferðalögum.“

Hvað ætlar þú að gera í sumarleyfinu?

„Ég veit að þetta verður annasamt sumar hjá okkur í Skógarböðunum en ég mun nýta hvert einasta tækifæri til að skjótast úr fyrir bæjarmörkin, þar sem ég get gengið á fjöll og firnindi.

Ég ætla að grilla á pallinum með fjölskyldunni og gista á flestum stöðum Norðurlands.

Eina sem er ákveðið er að ég ætla að ganga um Langanesið í sumar. Það er búinn að vera draumurinn minn í nokkur ár og eiginlega eini staðurinn sem ég hef ekki mikið ferðast um hingað til,“ segir Tinna.

mbl.is