BA.5-bylgjunni gæti verið að ljúka

Kórónuveiran COVID-19 | 8. ágúst 2022

BA.5-bylgjunni gæti verið að ljúka

Útlit er fyrir að bylgja BA.5-afbrigðis kórónuveirunnar gæti verið að líða undir lok. Þó er ekki loku fyrir það skotið að nýtt veiruafbrigði sendi af stað nýja bylgju. Starfandi sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af haustinu og þeim smitvænu aðstæðum sem það hefur í för með sér.

BA.5-bylgjunni gæti verið að ljúka

Kórónuveiran COVID-19 | 8. ágúst 2022

„Þetta er sennilega ekki búið,“ segir Guðrún sem hvetur fólk …
„Þetta er sennilega ekki búið,“ segir Guðrún sem hvetur fólk til þess að passa upp á persónubundnar sóttvarnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir að bylgja BA.5-afbrigðis kórónuveirunnar gæti verið að líða undir lok. Þó er ekki loku fyrir það skotið að nýtt veiruafbrigði sendi af stað nýja bylgju. Starfandi sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af haustinu og þeim smitvænu aðstæðum sem það hefur í för með sér.

Útlit er fyrir að bylgja BA.5-afbrigðis kórónuveirunnar gæti verið að líða undir lok. Þó er ekki loku fyrir það skotið að nýtt veiruafbrigði sendi af stað nýja bylgju. Starfandi sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af haustinu og þeim smitvænu aðstæðum sem það hefur í för með sér.

„Ég held að þetta sé raunverulega á niðurleið,“ segir Guðrún Aspelund, starfandi sóttvarnalæknir um fjölda kórónuveirusmita undanfarið.

„Það gæti verið að við séum að komast yfir þessa BA.5-bylgju hér á landi en Sóttvarnastofnun Evrópu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa spáð því að við getum átt von á nýrri bylgju í haust og vetur. Ég held að það sé alveg líklegt. Það gætu auðvitað komið fram ný afbrigði því veiran er áfram í samfélaginu og þetta er ekki alltaf á sama tíma alls staðar.“

Aðspurð segir Guðrún ekki að nein ný afbrigði hafi greinst nýlega sem talið er að geti valdið usla en aftur á móti þurfi að gera ráð fyrir því að  slík ný afbrigði geti greinst. 

„Þetta er sennilega ekki búið enn en hversu lengi þetta verði áfram – eða hvort þetta verði eitthvað sem haldi áfram að einhverju leyti og verði svo upp og niður – við vitum það ekki alveg.“

Um 10% þeirra sem greinst hafa smituð af kórónuveirunni hafa greinst í tvígang. Þá hafa nokkrir greinst þrisvar en Guðrúnu er ekki kunnugt um að einhverjir hafi greinst oftar á opinberum prófum hér á landi. Til þess að smit teljist endursmit þurfa að minnsta kosti 60 dagar að líða á milli greininga. 

„Smá áhyggjur“ af haustinu

Guðrún segir að þau hjá embætti landlæknis hafi „smá áhyggjur“ af haustinu. 

„Skólarnir fara að byrja, fólk fer að koma úr fríum, fólk fer að safnast saman innanhúss. Þannig er smitleiðin og það mun halda áfram. Bólusetningin stoppar auðvitað ekki smitin í sjálfu sér, þó að hún dragi auðvitað úr veikindum. Við þurfum aðeins að minna fólk á að það má alveg hafa grímur, fyrir þá sem þurfa á því að halda, og sinna þessum sóttvörnum. Við höfum smá áhyggjur af því að fólk fari að hætta þessu alveg,“ segir Guðrún sem hvetur fólk til þess að rifja upp fyrirmæli um sóttvarnir, m.a. þá ráðleggingu að fólk haldi sig heima ef það er veikt eða noti að öðrum kosti grímu þegar það fer út á meðal annarra.

mbl.is