„Mér leiðist að vera í lélegu formi“

Heilsurækt | 30. ágúst 2022

„Mér leiðist að vera í lélegu formi“

Unnsteinn Ingi Júlíusson, heimilislæknir á Húsavík, notar áfengi í hófi til þess að hugsa sem best um heilsuna. 

„Mér leiðist að vera í lélegu formi“

Heilsurækt | 30. ágúst 2022

Unnsteinn Ingi Jónsson læknir.
Unnsteinn Ingi Jónsson læknir.

Unnsteinn Ingi Júlíusson, heimilislæknir á Húsavík, notar áfengi í hófi til þess að hugsa sem best um heilsuna. 

Unnsteinn Ingi Júlíusson, heimilislæknir á Húsavík, notar áfengi í hófi til þess að hugsa sem best um heilsuna. 

„Til að passa upp á mína heilsu reyni ég að fá nægan svefn, nærast skynsamlega, reglulega og sleppa óþarfa óhollustu í mat. Ég reyni að vera meðvitaður um að halda áfengisneyslu í hófi. Ég sinni mínum áhugamálum og þar er tónlist efst á lista. Þar næ ég algerri slökun og gleymi öllu því sem viðkemur vinnu og álagi. Ég gríp í hljóðfæri flesta daga, þó ekki sé nema rétt á meðan ég horfi á fréttirnar. Tónlistin hefur smám saman orðið meiri og markvissari leið til að slaka á og til að verða betri hljóðfæraleikari. Mér er alltaf að verða betur ljóst hve mikilvæg hún er til að kúpla mig frá starfsálaginu. Auk þess syng ég í kirkjukór, sem er hollt fyrir sál og líkama og ágætur félagsskapur. Svo er það samfélagslega gagnlegt, sem mér finnst vera mikilvægt, leggja sitt á vogarskálarnar í samfélaginu. Önnur áhugamál svo sem vélsleðaakstur, hjólreiðar, gönguferðir, kajakróður stunda ég í lotum og minna markvisst. Helst háð ytri aðstæðum og tækifærum. Þá deili ég kjörum, áhyggjum og álagi með maka mínum, sem er reyndar starfsfélagi líka, hún er hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni minni, og reyni að hitta fjölskyldu og vini nokkuð reglulega. Í vinnunni hef ég náið samband við kollega mína og annað samstarfsfólk um málefni skjólstæðinga, sem ég held að sé mjög gagnlegt til að halda sönsum í daglegu lífi og starfi,“ segir Unnsteinn aðspurður um hvernig hann hugsi um heilsuna.

Hvað værir þú til í að bæta varðandi eigin heilsu?

„Hreyfing er á to-do-listanum, en því miður hef ég ekki haft nægilegan tíma, eða tekið nægilegan, til að sinna henni en þegar best lætur er ég að hlaupa mér til heilsubótar tvisvar til þrisvar í viku. Hlaupin vel ég vegna þess að það er hægt að skella sér í það þegar mér hentar, þau krefjast lágmarksbúnaðar og aðstaðan byrjar við þröskuldinn heima hjá mér. Jafnvel hægt að hlaupa á meðan ég er á bakvakt, en vaktin takmarkar auðvitað hvaða hlaupaleiðir ég get valið.

Til að bæta heilsu mína þarf ég að hreyfa mig markvissara og taka mér tíma í hreyfingu. Því miður eru vinnudagarnir allt of oft of langir og nennan stundum ekki næg. Markmiðin mín eru sem sagt að komast í betra form og svo vil ég líka gjarnan losna við ögn af belgnum sem ég er búinn að koma mér upp. Hreyfingu hef ég stundað markvisst í um það bil áratug, verið misduglegur, fyrst til að ná ákveðnum hlaupamarkmiðum eins og að skrá mig í utanvegahlaup sem neyða mig til að æfa. Síðan meira af skyldurækni og til að halda forminu góðu og heilsunni. Mér leiðist að vera í lélegu formi.“

Telur þú að læknar hugsi almennt betur um heilsuna en aðrir?

„Ég er ekki viss um að læknar séu meira vakandi fyrir eigin heilsu en aðrir, jafnvel síður að mörgu leyti. Við erum sennilega ekki að nýta tækifærin, aðstöðuna og þekkinguna okkar að þessu leyti nógu vel.“

mbl.is