Sváfu á kaldri jörðinni til að sjá útförina

Elísabet II. Bretadrottning | 22. september 2022

Sváfu á kaldri jörðinni til að sjá útförina

Blaðamaður ferðavefs mbl.is var viðstaddur útför drottningarinnar og segir hér frá upplifun sinni:

Sváfu á kaldri jörðinni til að sjá útförina

Elísabet II. Bretadrottning | 22. september 2022

Þreyttar en sælar eftir 11 tíma viðveru við The Mall.
Þreyttar en sælar eftir 11 tíma viðveru við The Mall. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaður ferðavefs mbl.is var viðstaddur útför drottningarinnar og segir hér frá upplifun sinni:

Blaðamaður ferðavefs mbl.is var viðstaddur útför drottningarinnar og segir hér frá upplifun sinni:

Drottningin hafði alltaf verið fastur punktur í lífi manns. Ég man hversu mikið var rætt um hana á æskuheimilinu og mörgum þótti hún afar lík Margréti ömmu minni. Það kom því engum í fjölskyldunni á óvart að ég skyldi fljúga út og vera viðstödd jarðaför hennar. Sama má segja um vinkonu mína til margra áratuga, Hörpu Hrund Berndsen. Um leið og andlátið var tilkynnt vorum við farnar að skipuleggja ferðalagið.

„Barnaskipti“ upp á flugvelli

Tímasetningarnar voru með ólíkindum og einstaklega hagstæðar fyrir okkur. Fyrir tilviljun átti Harpa miða út á fimmtudeginum til London að sjá breska söngvarann Gary Barlow og átti miða heim mánudagskvöldið. Hún þurfti því ekkert að breyta flugi sínu til þess að vera viðstödd jarðarförina.

Það var aðeins meira púsluspil fyrir mig þar sem maðurinn minn hafði verið erlendis með eldra barnið og ég ein með yngra barnið. En sem betur fer átti hann bókaða fyrstu ferð heim snemma á sunnudagsmorgni og lenti því á Keflavíkurflugvelli rétt áður en ég þurfti að fara í öryggisleitina. Ég keyrði því með yngra barnið upp á flugvöll og hann gat því tekið við foreldravaktinni strax þarna á flugvellinum. 

Veðjað á rétta dagsetningu

Lengi vel var ekki vitað nákvæmlega hvenær jarðarförin yrði haldin. En í millitíðinni ákváðum við að veðja á mánudaginn sem þótti líklegastur og bókuðum hótelherbergi í Westminster sem hægt væri að afpanta. Það var einstaklega heppilegt að við gerðum þetta því öll hótel á svæðinu urðu uppbókuð eða rándýr um leið og dagsetningin var tilkynnt. Það má því með sanni segja að allt hafi gengið upp.

Sáum drottninguna fyrst fyrir 20 árum

Það var ákaflega viðeigandi að kveðja saman drottninguna því fyrir akkúrat tuttugu árum sáum við drottninguna í fyrsta skipti en þá var hún að ferðast um Bretland í konunglegu lestinni í tilefni af 50 ára valdarafmæli sínu. Nú ferðuðumst við saman til þess að sjá hana í síðasta sinn. Þarna náðum við fagna með viðeigandi hætti lífi einstakrar konu sem hafði alla tíð fylgt okkur með einum eða öðrum hætti.

Harpa og María sáu drottninguna fyrst árið 2002 þegar hún …
Harpa og María sáu drottninguna fyrst árið 2002 þegar hún fagnaði 50 ára valdarafmæli. AFP
María fyrir 20 árum í Preston að sjá drottninguna.
María fyrir 20 árum í Preston að sjá drottninguna. Ljósmynd/Aðsend

Góður undirbúningur skiptir máli

Við Harpa höfum ýmsa fjöruna sopið þegar kemur að ferðalögum sem þessum. Hún var bæði viðstödd brúðkaup Harry og Meghan sem og 70 ára valdarafmæli drottningar síðasta sumar. Þá höfðum við á yngri árum ferðast til útlanda gagngert til þess að leita uppi frægt fólk. Reynslan hefur því kennt okkur að skipulag og góður undirbúningur skiptir höfuðmáli. Strax frá andlátinu leituðum við uppi allar upplýsingar um hvar væri best að vera til þess að sjá útförina og pössuðum upp á að hafa allt til alls þegar kæmi að stóru stundinni. 

Sluppum við röð til að sjá kistu drottningar

Kvöldið fyrir útförina fengum við tækifæri til þess að kveðja drottninguna þar sem kistan var til sýnis í Westminster Hall. Við vorum svo lánsamar að fá sérstaka boðsmiða sem gerði það að verkum að við sluppum við að bíða í röð í fleiri klukkutíma. Í staðinn fengum við sérstaka fylgd að kistunni og vorum við kistuna þegar haldin var mínútuþögn hjá bresku þjóðinni. Þetta var ógleymanlegt augnablik sem mun fylgja okkur út lífið. Þegar mínútuþögnin var liðin heyrðust mikil fagnaðarlæti frá almenningi fyrir utan Westminster. Hátíðleikinn var mikill, ást og virðing almennings til drottningarinnar var áþreifanleg og það var dýrmætt að geta tekið þátt í þessu með bresku þjóðinni. 

Komnar í jarðarfararfötin á leið til Westminster Hall að sjá …
Komnar í jarðarfararfötin á leið til Westminster Hall að sjá líkkistu drottningar. Ljósmynd/Aðsend

Vöknuðum um miðja nótt

Eftir þetta fórum við upp á hótel og píndum okkur til þess að sofna snemma sem var erfitt því stressið var mikið. Undanfarin ár hef ég fylgst með fólki í svipuðum erindagjörðum og vissi að til þess að ná góðu útsýni þyrfti maður að vakna um miðja nótt og taka frá pláss. Það kom einfaldlega aldrei til greina að leggja þetta ferðalag á sig bara til þess að horfa á þetta á einhverjum skjá í almenningsgarði. Þá gæti maður allt eins setið heima. 

Við náðum að sofa í þrjá klukkutíma, vöknuðum klukkan 3 og héldum út í nóttina. Við vorum vel búnar, með nesti, húfu, vettlinga, trefil og teppi til að liggja á. Sem betur fer var jarðarförin ekki að vetri til!

María og Harpa að bíða eftir að nóttin liði.
María og Harpa að bíða eftir að nóttin liði. Ljósmynd/Aðsend

Sváfum á kaldri jörðinni

Við ákváðum að best væri að koma sér fyrir á The Mall og fengum pláss beint fyrir aftan fólkið sem hafði tjaldað þarna yfir nóttina eða jafnvel lengur. Við vissum að um leið og fólk tæki saman dótið sitt þá þjappast röðin og maður færist nær. Nóttin var lengi að líða og við reyndum að sofna liggjandi á kaldri stéttinni. Maður reyndi að stytta sér stundir með að teygja reglulega úr sér, borða nesti eða fylgjast með fólkinu í kring. Sumir höfðu tjaldað þarna með ung börn með sér sem okkur fannst ekki endilega til fyrirmyndar þar sem það var kalt svona árla morguns og börnin illa klædd. Þá sló netið út hjá okkur (eflaust vegna álags) þannig að maður gat ekki stytt sér stundir skrollandi á samfélagsmiðlum eins og maður er vanur. Því miður. En tíminn leið.

Stundum var nauðsynlegt að fá sér kríu á meðan beðið …
Stundum var nauðsynlegt að fá sér kríu á meðan beðið var eftir að útförin hæfist. Ljósmynd/Aðsend

Allt skipulag til fyrirmyndar

Bretar eru ákaflega vel skipulagðir og allt var til fyrirmyndar. Maður fann aldrei áberandi fyrir mannmergðinni. Við vorum aldrei í miklum troðningi og þarna var allt til alls. Fjölmargir útikamrar við öll helstu svæði, staðir sem seldu kaffi og alls staðar voru öryggisverðir og lögregluþjónar sem voru alltaf tilbúnir til þess að vísa manni réttu leiðina en það gat reynst þrautin þyngri að ganga um svæðið þar sem önnur hver gata var lokuð. Oftar en ekki þurfti maður að ganga mjög langt yfir skammt.

London var mjög frábrugðin því sem hún venjulega er. Það var allt meira og minna lokað og mjög erfitt að komast á milli staða en þrátt fyrir mikinn mannfjölda þá var stemmingin afar róleg og lágstemmd. Það voru aldrei nein læti, allir sýndu tillitsemi enda allir þarna í sömu erindagjörðum.

Þarna má sjá glitta í konungsmeðlimi á borð við Vilhjálm …
Þarna má sjá glitta í konungsmeðlimi á borð við Vilhjálm prins, Harry prins, Peter Phillips og Játvarð prins. Ljósmynd/Aðsend

Sáum alla konungsfjölskylduna

Loks hófst útförin og henni var útvarpað í hátölurunum þarna þannig að við misstum ekki af neinu. Eftir athöfnina í Westminster Abbey var kistan dregin niður The Mall. Það var mögnuð upplifun að sjá. Stressið var svo mikið að maður þurfti stöðugt að minna sig á að líka sleppa símanum og horfa á þetta með eigin augum. Um leið og maður lagði frá sér símann þá varð þetta allt miklu áhrifaríkara. Þarna sáum við kistuna, konungsfjölskylduna og alla hermennina. Það var mikið sjónarspil og öllu tjaldað til.

Harpa mætti með góða myndavél.
Harpa mætti með góða myndavél. Ljósmynd/Aðsend

Ólíklegt að upplifa aftur eitthvað sambærilegt

Það var gaman að vera í kringum alla Bretana sem voru að kveðja sína drottningu og maður fann hvað þetta var þeim mikilvæg stund.  Mér finnst ólíklegt að maður eigi eftir að upplifa aftur eitthvað sambærilegt á lífsleiðinni. 

Eftir sólarhring sem einkenndist af stressi, svefnleysi og því að liggja á harðri og kaldri götunni þá leið manni eins og keyrt hafði verið yfir mann. En þetta var allt þess virði og ég myndi gera þetta aftur og ekki breyta neinu.

Anna prinsessa og Andrés prins.
Anna prinsessa og Andrés prins. Ljósmynd/Aðsend
Skjáskot af sjónvarpsútsendingu sem náðist af Maríu og Hörpu við …
Skjáskot af sjónvarpsútsendingu sem náðist af Maríu og Hörpu við líkkistu drottningar í Westminster Hall. Ljósmynd/Aðsend
Það var mínútuþögn til heiðurs drottningarinnar kl 20 sunnudagskvöldið fyrir …
Það var mínútuþögn til heiðurs drottningarinnar kl 20 sunnudagskvöldið fyrir jarðarförina. Það sést glitta í Hörpu og Maríu þarna aftarlega fyrir miðju. AFP
Árið 2002 lögðu Harpa og María leið sína til Kensington …
Árið 2002 lögðu Harpa og María leið sína til Kensington hallar og heiðruðu minningu Díönu prinsessu en þá voru fimm ár liðin frá dauða hennar. AFP
mbl.is