„Finnst óhugsandi að deyja svona“

Úkraína | 25. september 2022

„Finnst óhugsandi að deyja svona“

„Ég er pólsk-bandarískur ríkisborgari, var í úkraínsku sjálfboðaliðahersveitunum en fylgi þeim nú sem kvikmyndagerðarmaður og upprennandi blaðamaður,“ segir Christopher Michael Czechowicz í samtali við mbl.is en hann hefur haft viðdvöl í Úkraínu meira og minna frá 9. mars og er þar nú staddur í þriðja skiptið og í fyrsta sinn í fremstu víglínu þar sem hann er nú staddur í nágrenni borgarinnar Míkolajív í suðurhluta landsins sem Rússar réðust á þegar 26. febrúar.

„Finnst óhugsandi að deyja svona“

Úkraína | 25. september 2022

Christopher Michael Czechowicz er staddur með sínum mönnum, „strákunum“ eins …
Christopher Michael Czechowicz er staddur með sínum mönnum, „strákunum“ eins og hann kallar þá, nálægt borginni Míkolajív í Suður-Úkraínu og er staðráðinn í að koma heimildarmynd um Úkraínustríðið á kvikmyndahátíðir samhliða því að ljúka við meistararitgerðina sína í sagnfræði. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er pólsk-bandarískur ríkisborgari, var í úkraínsku sjálfboðaliðahersveitunum en fylgi þeim nú sem kvikmyndagerðarmaður og upprennandi blaðamaður,“ segir Christopher Michael Czechowicz í samtali við mbl.is en hann hefur haft viðdvöl í Úkraínu meira og minna frá 9. mars og er þar nú staddur í þriðja skiptið og í fyrsta sinn í fremstu víglínu þar sem hann er nú staddur í nágrenni borgarinnar Míkolajív í suðurhluta landsins sem Rússar réðust á þegar 26. febrúar.

„Ég er pólsk-bandarískur ríkisborgari, var í úkraínsku sjálfboðaliðahersveitunum en fylgi þeim nú sem kvikmyndagerðarmaður og upprennandi blaðamaður,“ segir Christopher Michael Czechowicz í samtali við mbl.is en hann hefur haft viðdvöl í Úkraínu meira og minna frá 9. mars og er þar nú staddur í þriðja skiptið og í fyrsta sinn í fremstu víglínu þar sem hann er nú staddur í nágrenni borgarinnar Míkolajív í suðurhluta landsins sem Rússar réðust á þegar 26. febrúar.

Sjálfboðaliðarnir sem hann fylgir veita opinberum her landsins stuðning, sjá um birgðaflutninga og aðföng auk þess að vera liðsauki, enda er sveitin vel vopnum búin og heyrir formlega undir stjórn varnarmálaráðuneytis landsins þótt hún sé skipuð sjálfboðaliðum.

Sveit Czechowicz er sjálfboðaliðasveit sem annast birgðaflutninga auk þess að …
Sveit Czechowicz er sjálfboðaliðasveit sem annast birgðaflutninga auk þess að vera formlegum hersveitum Úkraínu til liðveislu þegar á þarf að halda. Andinn er góður þrátt fyrir að hér berjist menn við að verja sín eigin heimili. Ljósmynd/Aðsend

„Ég játa að ég kom hingað fyrst af einhverjum rómantískum, hugsjónakenndum og kannski pínu barnalegum hvötum,“ heldur Czechowicz áfram, „mig langaði að berjast í stríði sem [Atlantshafsbandalagið] NATO getur ekki skipt sér af en einhver verður að gera,“ segir hann og bætir því við í glettnum tón að væru George Orwell eða Ernest Hemingway uppi nú á dögum hefðu þeir ekki skirrst við að gera það sama.

Langafi og -amma myrt í hreinsunum

„Nasistar og Sovétmenn sundruðu Póllandi í krafti sáttmála Molotovs og Ribbentrop [Víatsjeslafs Molotovs, utanríkisráðherra Sovétríkjanna, og þýska utanríkisráðherrans Joachims von Ribbentrop 23. ágúst 1939],“ rifjar Pólverjinn upp, „á meðan Þjóðverjar þurftu að svara fyrir [útrýmingarbúðirnar] Auschwitz-Birkenau og Bergen-Belsen þurftu Sovétmenn aldrei að svara fyrir Gúlag-kerfið [þrælkunarvinnubúðir Stalíns], fjöldamorðin í Katyn [þar sem Sovétmenn tóku um 22.000 pólska hermenn og stríðsfanga af lífi vorið 1940] eða hungursneyðina í Úkraínu á fjórða áratugnum,“ segir hann og bætir því við að Bretar og Frakkar hafi ekki lyft fingri Pólverjum til aðstoðar á ögurstundu.

Ekki ganga allir liðsmenn sveitarinnar á tveimur fótum, hér er …
Ekki ganga allir liðsmenn sveitarinnar á tveimur fótum, hér er einn ferfættur sem lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir ærandi sprengingar, vopnabrak og gný. Ljósmynd/Aðsend

Hann skilgreinir hersveitina sem hann fylgir sem úkraínska þjóðernissinna, „sem er nú kannski dálítið kaldhæðnislegt þar sem úkraínski uppreisnarherinn [UPA] myrti langafa minn og -ömmu í þjóðernishreinsununum í Worokomle og Austur-Galisíu [nú sögulegu landsvæði í austurhluta Mið-Evrópu] árin 1943 til '45. Þau voru pólsk og bjuggu í því sem þá var Pólland en er nú landsvæði í Vestur-Úkraínu. Pólverjar voru sallaðir niður kerfisbundið,“ segir Czechowicz af örlögum fjölskyldu sinnar. „Að koma Úkraínumönnum til aðstoðar nú er kannski einhvers konar uppgjör af minni hálfu við Úkraínu Sovéttímans,“ bætir hann við.

Starfaði á Reykjavik Grapevine

Í ljós kemur að kvikmyndagerðarmaðurinn er Íslandsvinur, nokkuð sjóaður meira að segja. „Ég kom til Úkraínu 9. mars frá Newark og dvaldi nokkra daga í Reykjavík á leiðinni. Eftir að ég var kominn hingað og búinn að skoða rússnesku skotgrafirnar í Bucha, Irpin og Tsjernóbyl með eigin augum ákvað ég að reyna að koma mér inn í blaðamennsku gegnum íslenska fjölmiðla, það var á Íslandi sem ég fór gegnum mitt fyrsta starfsnám við fjölmiðla árið 2011 og starfaði síðar sem tónlistarblaðamaður,“ segir Czechowicz og er spurður nánar út í þær athafnir.

„Starfsnámið [e. internship] var á Reykjavik Grapevine en tónlistarblaðamaður var ég á skammlífu tímariti sem hét ROK Musik/Icelandic Music Review. Þetta með Reykjavik Grapevine var nú hálfsorglegt. Ritstjórinn þar sagði mér að blaðið hefði áhuga á sumu af því efni sem ég skrifaði en við fundum samt aldrei almennilega rétt aðflugshorn. Ég hefði vel getað hugsað mér að vera þar einhvern tíma, mér hefur alltaf gengið vel að tala við fólk,“ segir Czechowicz af Íslandsdvöl fyrir rúmum áratug en í dag heldur hann úti vefdagbókinni, eða blogginu, Ukraine Diaries, sem meðal annars er aðgengileg á Instagram undir Ukrainediaries.

Sjáfboðaliðasveitin er grá fyrir járnum enda gert ráð fyrir að …
Sjáfboðaliðasveitin er grá fyrir járnum enda gert ráð fyrir að hún komi opinberum her landsins til aðstoðar er í nauðirnar rekur. Ljósmynd/Aðsend

„En ég ætti nú kannski að nota tækifærið og nefna fólkið sem var mér innan handar á Íslandi áður en ég hélt áfram til Úkraínu. Þar verð ég til dæmis að nefna Ólaf hjá Army.is í Kolaportinu sem útvegaði mér hnéhlífar, ljós og föt. Þá voru Anna María Ładowska, Björk Lárusdóttir og fleiri úr samfélögum Úkraínumanna, Pólverja og auðvitað Íslendinga mér ómetanlegir, þar efst á blaði Karen Róbertsdóttir vinkona mín sem hefur veitt mér ómetanlega aðstoð,“ segir Czechowicz og nefnir að lokum Elínu Báru Cooper sem fór með hann á Bifröst þar sem hann tók viðtöl við úkraínska flóttamenn.

„Við erum ekki hetjur, við erum Úkraínumenn“

Czechowicz er fljótlega á förum frá Úkraínu og er næsti áfangastaður hans Árósar í Danmörku þar sem hann er að ljúka meistaranámi í sagnfræði við Háskólann í Árósum. Vinnur hann nú að lokaritgerð sinni um innmúrun og íslenska nasistaflokkinn á fjórða áratug síðustu aldar (e. Esotericism and the Icelandic Nazi Party of the 1930s) og vill fara að koma henni frá sér.

„Ég reikna þó með að snúa aftur hingað í vetur til að sjá hvernig gengur hjá strákunum [herdeildinni sem hann hefur fylgt], svo mun ég reyna að skipta tíma mínum niður milli þess að ganga frá myndinni fyrir kvikmyndahátíðir, heimsækja fjölskyldu mína í Bandaríkjunum og vini á Íslandi og í Danmörku,“ segir Czechowicz af næstu mánuðum.

Eyðileggingin blasir alls staðar við eftir sjö mánaða skálmöld og …
Eyðileggingin blasir alls staðar við eftir sjö mánaða skálmöld og er þá ekki gerður greinarmunur á guðshúsum og veraldlegri byggingum. Ljósmynd/Aðsend

Myndin sem hann segir frá er heimildarmyndin Við erum ekki hetjur (e. We are not Heroes) sem fjallar um stríðið í Úkraínu og daglegt líf hópsins hans. „Ég var búinn að velja titilinn Dýrð sé hetjunum [e. Glory to the Heroes] en einn af strákunum, Pug [í herdeild Czechowicz ganga allir undir viðurnefnum, hans er Jersey], sagði þá þessa fleygu setningu: „Við erum ekki hetjur, við erum Úkraínumenn,“ og það small strax sem titill á myndina,“ segir leikstjórinn og framleiðandinn frá. „Nú er ég að leita að einhverjum til að hjálpa mér að klippa þetta allt, ég er kominn með 60 gígabæti af efni.“

Ekkert annað en galin slátrun

Czechowicz hefur orðið vitni að ýmsu síðustu mánuði. „Ég hef séð einn deyja og endalausar dróna- og stórskotaliðsárásir. Ég er með myndefni af vælandi loftvarnaflautum, ónýtum rússneskum skriðdrekum í röðum og bardögum sjálfboðaliðshermanna. Oft hefur hurð skollið nærri hælum, fallbyssukúlur hafa sprungið í tíu metra fjarlægð frá okkur en flestar fljúga þær fram hjá okkur með hvin,“ segir Czechowicz og veltir fyrir sér hvernig það sé að þurrkast út í einu vetfangi í sprengingu.

„Pug“, vélbyssuskytta hópsins, er höfundur setningar sem verður ódauðleg í …
„Pug“, vélbyssuskytta hópsins, er höfundur setningar sem verður ódauðleg í titli heimildarmyndar Czechowicz er þar að kemur, „Við erum ekki hetjur, við erum Úkraínumenn.“ Ljósmynd/Aðsend

„Frá mínum bæjardyrum séð er þetta ekkert annað en galin slátrun. Ég get ekki lýst því fyrir þér hvernig það er að verða fyrir sífelldri sprengikúlnahríð. Mér finnst óhugsandi að deyja svona, hugsaðu þér allt sem foreldrar þínir hafa lagt á sig við uppeldi þitt gegnum lífið. Skyndilega er allt horfið á braut í einum hvelli,“ veltir Czechowicz fyrir sér. Tilvistarheimspeki stríðsmannsins.

Hann játar að auðvitað hafi hann ekki hugmynd um hvernig honum reiði af í þessari dvöl með úkraínskri sjálfboðaliðaherdeild á vígstöðvunum. „Ég hef hugleitt þann möguleika að ég deyi hérna. Dráp svipta óvininn möguleikanum á að breytast, sjá að sér eða biðjast afsökunar á gjörðum sínum. Þetta er nokkuð sem ég vildi óska að Rússar skildu en það gera þeir ekki,“ segir Czechowicz og tekur það sérstaklega fram að hans hlutverk sé ekki að koma neins konar áróðri á framfæri þrátt fyrir kvikmyndagerðina.

Pútín leggur ekki árar í bát

„Hér er fíngerð lína sem gæta þarf að. Ég þarf að geta spurt spurninga samhliða því að ljá ekki rödd fordómanna eyra. Hér er venjulegt fólk að reyna að verja heimili sín árásum. Ég reyni að gæta þess hlutleysis sem mér er unnt en get auðvitað ekki neitað því að ég styð Úkraínu í þessu stríði og muni ég neyðast til að verja hendur mínar mun ég gera það,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn og sagnfræðineminn og bætir því við að ef til vill sé hann bara að gera örvæntingarfulla tilraun til að smíða einhverja skapandi afurð upp úr öllum hörmungunum.

Mörgum beittum skeytum hefur verið brugðið í hildinni sem hófst …
Mörgum beittum skeytum hefur verið brugðið í hildinni sem hófst 24. febrúar og hér liggja slík drápstól í stöflum. Ljósmynd/Aðsend

Senn líður að lokum spjalls sem farið hefur fram í mörgum lotum þar sem Czechowicz hefur ítrekað þurft að spara rafmagnsbirgðir sínar og slökkva á síma og tölvu auk þess sem netsamband er ekki alls staðar stöðugt í stríðshrjáðri Úkraínu.

„Ég er mjög ánægður með það efni sem ég er kominn með, ég hef fylgst með þessum drengjum og þeir gefa ekkert eftir, standa sig gríðarlega vel. Í raun eru Rússar að komast á vonarvöl hér á þessu svæði sem við dveljum nú á, mannfall í þeirra röðum hefur verið mikið. Liggur við að ég vorkenni þeim. En Pútín mun auðvitað bregðast við af hörku. Hann er ekki sú manngerð sem leggur bara árar í bát,“ segir Christopher Michael Czechowicz, hlaðinn myndavélabúnaði, 60 gígabætum af upptökum og viljanum til að sýna heiminum frá fyrstu hendi hvernig í pottinn er búið á úkraínsku vígstöðvunum.

mbl.is