Missti vinnuna og fer nú með fólk í ævintýraferðir

Fjallganga | 27. september 2022

Missti vinnuna og fer nú með fólk í ævintýraferðir

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, blaðamaður og ljósmyndari, stóð á krossgötum fyrir tveimur árum þegar henni var sagt upp. Hún ákvað að nýta uppsögnina sem tækifæri og lærði í framhaldinu að vera leiðsögumaður. Nú er hún á leiðinni til Tenerife á vegum Úrvals Útsýnar með hóp af fólki sem elskar að láta ýta við sér. 

Missti vinnuna og fer nú með fólk í ævintýraferðir

Fjallganga | 27. september 2022

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir er á leið til Tenerife með hóp af …
Ragnhildur Aðalsteinsdóttir er á leið til Tenerife með hóp af fólki á vegum Úrval Útsýn.

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, blaðamaður og ljósmyndari, stóð á krossgötum fyrir tveimur árum þegar henni var sagt upp. Hún ákvað að nýta uppsögnina sem tækifæri og lærði í framhaldinu að vera leiðsögumaður. Nú er hún á leiðinni til Tenerife á vegum Úrvals Útsýnar með hóp af fólki sem elskar að láta ýta við sér. 

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, blaðamaður og ljósmyndari, stóð á krossgötum fyrir tveimur árum þegar henni var sagt upp. Hún ákvað að nýta uppsögnina sem tækifæri og lærði í framhaldinu að vera leiðsögumaður. Nú er hún á leiðinni til Tenerife á vegum Úrvals Útsýnar með hóp af fólki sem elskar að láta ýta við sér. 

„Ég hafði unnið í ellefu ár hjá Birtíngi þegar ég missti vinnuna vegna niðurskurðar haustið 2020. Ég ákvað strax að líta á uppsögnina sem tækifæri og þar sem ég er áhugamanneskja um útivist og ferðalög fór ég strax að horfa í þá áttina. Mér var bent á leiðsögunám hjá Menntaskólanum í Kópavogi og sá að það hentaði fullkomlega. Námið er í kvöldskóla og tekur tvær annir. Fyrri önnina eru allir saman en þá síðari skiptist hópurinn í gönguleiðsögn og almenna rútuleiðsögn. Ég valdi gönguleiðsögn og útskrifaðist vorið 2021. Vorið 2022 ákvað ég síðan að bæta almennri rútuleiðsögn við og útskrifaðist aftur í vor,“ segir Ragnhildur sem nær að samtvinna þessar þrjár ólíku starfsgreinar, þannig að engir tveir dagar eru eins.

Ljósmynd/Ragnhildur

„Þar sem ég starfa sem verktaki þá passar þetta vel saman og ég raða verkefnum niður eftur því sem hentar.“

Ertu aðallega erlendis með hópa eða ferðast þú um Ísland með erlenda ferðamenn?

„Hér á Íslandi er ég aðallega með erlenda ferðamenn, að sýna þeim Ísland. Í tengslum við Fagradalselda í fyrra og núna í ágúst gekk ég með marga að gosstöðvunum. Það er magnað að upplifa glóandi hraun með fólki en einnig að skoða með þeim glænýtt hraun og gíga þó hraunið sé hætt að renna. Svo hef ég einnig farið í lengri og styttri ferðir með fólk í sumar, sem rútuleiðsögukona. Gönguferðir erlendis með Íslendinga eru spennandi viðbót. Í mars síðastliðnum fór ég fyrstu Tenerife-ferðina og sú næsta verður í byrjun nóvember,“ segir hún. 

Eyjan Tenerife, sem er við Afríkustrendur, nýtur mikilla vinsælda hjá Íslendingum. Ragnhildur segir að hún hafi valið eyjuna því þar sé jafnt hitastig allan ársins hring og það sé það sem þjóðin sækist í. 

„Landslagið og veðurfarið heilla mig við Tenerife. Einnig að þar er allt svo aðgengilegt og einfalt. Hótelið sem við verðum á er virkilega flott og nýuppgert og við verðum í hálfu fæði. Morgunmat og kvöldmat. Þannig að eina máltíðin sem þarf að hugsa um er smá hádegissnarl yfir daginn. Á hótelinu er einnig geggjaður þakbar og sér sundlaugarsvæði fyrir fjölskyldur og annað án barna. Þar eru margar dásamlegar gönguleiðir og því tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi; njóta þess að hreyfa sig og skoða fallegt umhverfi fyrri partinn og slaka síðan á við sundlaugarbakkann seinni partinn.“

Hvað gerir þú í ferðinni sem gerir hana ógleymanlega?

„Ferðin er fyrst og fremst hugsuð til að hafa gaman af. Leiðirnar sem ég vel eru stutt frá bænum, ekki mjög erfiðar en taka samt alveg í og á leiðinni er frábært útsýni. Það er farið rólega, enginn asi. Fyrst og síðast er verið að njóta, taka fullt af myndum, spjalla saman og hlæja saman,“ segir hún. 

Ljósmynd/Ragnhildur

Ragnhildur segir að ferðin sé hugsuð fyrir fólk sem hafi gaman af hreyfingu og því að umgangast jákvætt og skemmtilegt fólk. 

„Ferðin er fyrir fólk sem finnst gott að láta leiða sig áfram, láta kynna sig fyrir nýjum stöðum og lenda í smá ævintýrum.“

Verður fólk að vera í mjög góðu formi? 

„Það er ágætt að vera í svolitlu formi, til dæmis geta gengið á Úlfarsfellið, en það þarf ekki að vera í einhverju ofurformi,“ segir hún.  

Hvað finnst þér fjallgöngur gefa þér?

„Fjallgöngur gefa mér fyrst og fremst andlega næringu. Stundum er erfitt að koma sér af stað, ekki síst hér á Íslandi þegar veðrið er ekki upp á sitt besta, en ég hef aldrei komið ósátt heim eftir fjallgöngu. Það er eitthvað við það að vera úti í náttúrunni, ná markmiði sínu og koma endurnærð til baka.“ 

Ljósmynd/Ragnhildur

Hvernig ferðalagatýpa ert þú?

„Ég er týpan sem þyrstir í tengingu við náttúruna. Ég verð að sjá og skoða í kringum mig - labba um og taka myndir. Þess vegna er svona ferð fullkomin fyrir mig. Vakna snemma, fara í gönguferð í 3-5 tíma, með viðkomu á kaffihúsi eða litlum veitingastað ef við á. Koma síðan upp á hótel og slaka á í sólinni. Fara síðan í matinn á hótelinu, setjast og spjalla við vini og vera komin upp í rúm kl. 21. Mér finnst það fullkomið,“ segir hún. 

Hvernig pakkar þú fyrir ferðalög?

„Ég reyni alltaf að komast af með sem minnst og ef mögulegt er fer ég bara með handfarangur.“ 

Hvernig er þín flugrútína?

„Ég reyni að mæta frekar fyrr en seinna á flugvöllinn til að geta notið þess að fá mér góðan kaffibolla og smurða samloku á vellinum. Yfirleitt kíki ég aðeins í fríhöfnina og kaupi eitthvað smotterí, oft maskara, bb-krem eða þess háttar ef vantar. Fyrir flugtak er ég búin að hala niður einhverju góðu hlaðvarpi eða hljóðbók sem ég nýt þess að hlusta á, fer í leiki í símanum mínum og spjalla við ferðafélagana. Ég kaupi mér oftast einhvern flugvélamat, það er bara eitthvað við það, og flugvélakaffi, besta kaffi í heimi, þegar þú ert í flugi. Ef ég flýg með Icelandair og það eru skjáir í boði þá hef ég stundum náð að horfa á íslenskar bíómyndir sem ég var ekki búin að sjá og það er alveg extra trít.“

mbl.is