Vill ekki verða sendur í stríð

Úkraína | 1. október 2022

Vill ekki verða sendur í stríð

„Mér hugnast ekki stríðsátök og ég vil ekki hætta á að verða sendur í stríð, ég hef ímugust á þessum áróðri,“ segir Rússi á þrítugsaldri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hann kom í síðustu viku ásamt tugum ungra Rússa yfir landamærin til Noregs af ótta við herkvaðningu Vladimírs Pútíns forseta.

Vill ekki verða sendur í stríð

Úkraína | 1. október 2022

Tollstöðin við Storskog í Noregi við rússnesku landamærin. Umferðin frá …
Tollstöðin við Storskog í Noregi við rússnesku landamærin. Umferðin frá Rússlandi hætti fyrirvaralaust á miðvikudaginn. Ljósmynd/Clemensfranz

„Mér hugnast ekki stríðsátök og ég vil ekki hætta á að verða sendur í stríð, ég hef ímugust á þessum áróðri,“ segir Rússi á þrítugsaldri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hann kom í síðustu viku ásamt tugum ungra Rússa yfir landamærin til Noregs af ótta við herkvaðningu Vladimírs Pútíns forseta.

„Mér hugnast ekki stríðsátök og ég vil ekki hætta á að verða sendur í stríð, ég hef ímugust á þessum áróðri,“ segir Rússi á þrítugsaldri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hann kom í síðustu viku ásamt tugum ungra Rússa yfir landamærin til Noregs af ótta við herkvaðningu Vladimírs Pútíns forseta.

Fréttamenn NRK hittu og ræddu við manninn í smábænum Kirkenes í Troms og Finnmark eins og það fylki heitir eftir sameininguna forðum. Hann flúði frá Moskvu, hefur enga löngun til að láta þvinga sig í styrjöld við nágrannaríkið Úkraínu. Heima á hann konu og tvö lítil afkvæmi.

Sá böggull fylgir þó skammrifi að flóttamaðurinn rússneski er eingöngu með ferðamannaáritun til Noregs á vegabréfi sínu. Þar getur hann aðeins dvalið í 90 daga. Þess vegna hyggst hann koma sér áfram til Tyrklands og í fyllingu tímans ná fjölskyldu sinni út úr Rússlandi og hefja nýtt líf utan veldis Pútíns forseta.

Farið komið í 1.000 evrur

Viðmælandinn vill ekki láta nafns síns getið af ótta við þau örlög er þá kynnu að bíða hans sjálfs og konunnar og barnanna í Moskvu. Hann er einn nokkurra tuga flóttamanna sem NRK hefur rætt við síðustu dægur og eiga það sameiginlegt að vilja ekki fara til Úkraínu til að drepa fólk auk þess að vera verulega ósáttir við hvernig landi þeirra er stjórnað. Þessi tiltekni viðmælandi kom með 40 öðrum í einni og sömu langferðabifreiðinni yfir landamærin, hann greiddi 600 evrur, jafnvirði 84.500 íslenskra króna, fyrir farið frá Murmansk í Rússlandi.

„Við vörpuðum öndinni léttar eftir hverja eftirlitsstöðina sem við sluppum gegnum,“ segir sá rússneski og bætir því við að verðið fyrir flutninginn hafi stigið með hverjum deginum, í dag sé það komið yfir 1.000 evrur, tæpar 141.000 krónur. Honum er til efs að hann snúi aftur til fósturjarðarinnar, vinir hans hafa verið neyddir í herinn og sendir til Úkraínu. Tveir þeirra eru þegar látnir.

Nú þegar eru 17.000 Rússar á flótta undan herkvaðningu komnir til Finnlands að sögn finnskra landamæraeftirlitsvarða og fjöldi til viðbótar spyr á samfélagsmiðlum, svo sem Facebook og hinu rússneska Telegram, hvernig unnt sé að forða sér yfir til nágrannalanda, þar á meðal Noregs. Á miðvikudag greindu norskir fjölmiðlar frá því að umferðin hefði stöðvast skyndilega. Viðurkenna rússnesk stjórnvöld þó ekki að hafa lokað landamærum sínum að Noregi.

Vilja bjóða hermönnum hæli

Lögreglan í Troms og Finnmark staðfestir við NRK að umferðin yfir landamærin hafi verið mikil. „Við sjáum það sama og sést annars staðar í Evrópu, fólki sem fer yfir landamærin frá Rússlandi fjölgar og við sjáum nú annars konar fólk á ferðinni,“ segir Sølve Solheim, deildarstjóri útlendingaeftirlitsdeildar lögreglunnar í fylkinu.

Á sunnudaginn var fóru 243 yfir landamærin um landamærastöðina í Storskog, þar af höfðu 167 Schengen-vegabréfsáritun. Flestir hafi verið rússneskir karlmenn. Noregur sagði upp vegabréfsáritunarsamkomulagi sínu við Rússland daginn eftir að Rússar réðust á Úkraínu í febrúar. Þrátt fyrir það geta rússneskir borgarar enn sótt um vegabréfsáritun til Noregs og komið þangað sem flóttamenn.

Norski vinstriflokkurinn Rødt lýsti því yfir fyrir viku að hann fylgdi því að bjóða rússneskum hermönnum hæli sem flóttamönnum í Noregi. Allt að 15 ára fangelsi getur legið við því að neita herskyldu í Rússlandi.

Varnaglar slegnir

Christian Tybring-Gjedde, sem situr í utanríkis- og varnarmálanefnd norska Stórþingsins, þingmaður Framfaraflokksins Frp, kveður flokk sinn jákvæðan gagnvart móttöku rússneskra flóttamanna en slær þó þann varnagla að vissrar varúðar sé þörf við landamærin.

„Við vitum ekkert um það hverjir eru að koma og við verðum að gæta þess að þeir eigi lögmæta kröfu á að koma til Noregs,“ segir Tybring-Gjedde. Telur hann einn þátt lausnarinnar vera að koma upp einhvers konar öryggisvottun (n. sikkerhetsklarering) gagnvart þeim sem vilja koma frá Rússlandi til Noregs.

„Komi hundruð eða þúsund verður erfitt að koma slíkri vottun á. Við getum ekki stöðvað þá við landamærin þegar þeir eiga á hættu að rússnesk stjórnvöld klófesti þá. Við viljum hjálpa þeim sem flýja stríð en inn á milli getur leynst fólk sem hefur allt aðra hagsmuni af því að komast til Noregs,“ segir þingmaðurinn.

Hægriflokkur Ernu Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra, vill ekki tefla fram viðmælanda en segir NRK í tölvupósti að Noregur skuli að mati flokksins fylgja þeim línum sem önnur Evrópulönd hafi lagt þegar að því kemur að taka afstöðu til viðskiptaþvingana og allra annarra aðgerða gegn Rússlandi.

NRK

NRKII (afstaða Rødt)

NRKIII (Úkraínumenn í Noregi vilja halda Rússum úti)

Dagbladet (Rússar í Noregi uggandi um herskylduna)

VG (Rússar í Noregi gætu sætt herkvaðningu)

ABC Nyheter (umferðin gegnum Storskog hætt)

mbl.is