Kjarnorkulest Pútíns vekur ugg

Úkraína | 3. október 2022

Kjarnorkulest Pútíns vekur ugg

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er sagður þess albúinn að sýna mátt og megin veldis síns með bíræfnum kjarnorkuvopnaprófunum rétt við úkraínsku landamærin og þar með senda nágrannaríkinu og umheiminum lítt dulbúna hótun þess efnis hve langt hann gangi til að ná fram vilja sínum gagnvart nágrannaríkinu.

Kjarnorkulest Pútíns vekur ugg

Úkraína | 3. október 2022

Nýjasta útspil Pútíns gætu orðið kjarnorkuvopnatilraunir rétt við úkraínsku landamærin …
Nýjasta útspil Pútíns gætu orðið kjarnorkuvopnatilraunir rétt við úkraínsku landamærin sem greinendur álíta örþrifaráð eftir því sem meira hallar undan fæti herja hans í Úkraínu. AFP/Mikhail Klimentyev

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er sagður þess albúinn að sýna mátt og megin veldis síns með bíræfnum kjarnorkuvopnaprófunum rétt við úkraínsku landamærin og þar með senda nágrannaríkinu og umheiminum lítt dulbúna hótun þess efnis hve langt hann gangi til að ná fram vilja sínum gagnvart nágrannaríkinu.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er sagður þess albúinn að sýna mátt og megin veldis síns með bíræfnum kjarnorkuvopnaprófunum rétt við úkraínsku landamærin og þar með senda nágrannaríkinu og umheiminum lítt dulbúna hótun þess efnis hve langt hann gangi til að ná fram vilja sínum gagnvart nágrannaríkinu.

Þetta segja varnarmálasérfræðingar sem breska dagblaðið The Times hefur rætt við og greina þeir enn fremur frá því að rússnesk stjórnvöld boði æ voveiflegri örþrifaráð eftir því sem halla tekur undan fæti herja þeirra á vígvöllum Úkraínu. Ekki síst sé ástæða til að gjalda varhug við því að járnbrautarlest, tengd kjarnorkumáladeild rússneska hersins, stefni nú til Úkraínu.

Konrad Muzyka, varnarmálagreinandi í Póllandi, segir Times-skrifurum að lestin, sem í dag hafi sést til í miðju Rússlandi, tengist þeirri deild varnarmálaráðuneytis landsins er hefur með höndum kjarnorkuvopn, geymslu þeirra, viðhald, flutning og birgðahald.

NATO varar aðildarríkin við

Greinendur í öðrum löndum segja hins vegar að líklegra megi teljast að kjarnorkuvopnasýning Pútíns eigi sér stað í Svartahafi. Áreiðanlegur heimildarmaður Times á vettvangi varnarmála segir Pútín taka mikla áhættu með því að leika sér með kjarnavopn svo nærri vígvöllunum. „Þarna getur allt farið úrskeiðis, vopnin gætu brugðist og hæft borg Rússlandsmegin við landamærin [...] þá yrði Pútín að færa sig upp á skaftið [e. escalate],“ segir heimildarmaðurinn.

Greina heimildarmenn The Times enn fremur frá því að Atlantshafsbandalagið NATO hafi sent aðildarlöndum sínum skýrslu um málið og þar varað við mögulegum tilraunum Rússa með flaggskip tundurskeytaflota síns, Poseidon, fjarstýrt tundurskeyti sem mun geta borið kjarnavopn og sé einkum ætlað að ráðast á hafnarborgir eða -bæi. Er talið líklegt að því skeyti verði brugðið frá Svartahafi komi til þess en Poseidon hefur 10.000 kílómetra ferðaþol.

Settur af eftir sigur Úkraínumanna

Enn fremur bendir NATO á að nýi rússneski kjarnorkukafbáturinn K-329 Belgorod, sem hleypt var af stokkunum í júlí, sé nú á leið til norðurskautsins en þaðan er hann í skotfæri við átakasvæðin.

Rússar staðfestu í dag að her Úkraínu hefði brotist gegnum varnarmúr þeirra í Kerson-héraðinu. Að sögn rússnesku fréttastofunnar RBC var Alexander Sjúravlov offursti, æðsti yfirnaður vesturherstyrks landsins, rekinn af þessu tilefni og Roman Berdníkov yfirliðþjálfi settur við stjórnvölinn í hans stað.

Talið er að þessi sigur Úkraínumanna færi skálmöldina þar í landi á nýtt og háskalegra stig sem auki enn hættuna á því að Pútín grípi til örþrifaráða með því að virkja kjarnorkuvopnabúr sitt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

The Times (læst áskriftargrein)

Daily Mail

Reuters

mbl.is