Geta ekki stöðvað drónaflug

Rússland | 18. október 2022

Geta ekki stöðvað drónaflug

Norska lögreglan meig heldur betur upp í vindinn, eins og það heitir á góðri íslensku, þegar hún hætti við að kaupa útbúnað til að salla niður ólöglega dróna um áramótin síðustu.

Geta ekki stöðvað drónaflug

Rússland | 18. október 2022

Drónar geta nú orðið flogið með pizzur heim til fólks …
Drónar geta nú orðið flogið með pizzur heim til fólks og fært því ýmsan varning af lýðnetinu en þessi flygildi nota einnig þeir er misgott gengur til ætlunar og hefur drónaflug yfir Noregi verið mikið til umræðu síðustu dægur. AFP

Norska lögreglan meig heldur betur upp í vindinn, eins og það heitir á góðri íslensku, þegar hún hætti við að kaupa útbúnað til að salla niður ólöglega dróna um áramótin síðustu.

Norska lögreglan meig heldur betur upp í vindinn, eins og það heitir á góðri íslensku, þegar hún hætti við að kaupa útbúnað til að salla niður ólöglega dróna um áramótin síðustu.

Þetta staðfestir norska ríkislögreglustjóraembættið við þarlenda ríkisútvarpið NRK. Fyrir þremur árum var ákveðið að leggja í kostnað og vinnu til að stöðva drónaflug er gengi á svig við norsk lög. Stóð þá til að kaupa tæknibúnað til slíkra framkvæmda auk þess að þjálfa lögreglufólk um allt land við notkun búnaðarins.

Um áramótin síðustu komust reiknimeistarar að þeirri niðurstöðu að verkefnið væri rándýrt og auk þess takmörkuð þörf á því. Var þá ákveðið að hætta við kaup á búnaði og fela lögreglunni í Ósló að gera það sem hún gæti á landsvísu til að hindra starfsemi óforskammaðra drónaflugmanna. Lögreglan í Ósló á hins vegar fullt í fangi við að hafa umsjón með öðrum brotalömum þar í borg.

Sáraeinfaldur búnaður

Með öðrum orðum getur norsk lögregla lítt aðhafst nú þegar rússneskir njósnadrónar sveima þvers og kruss um landið og við strendur þess, úti við olíuvinnslupallana, fjöregg landsins síðan um 1970.

Nils Håheim-Saers hefur marga fjöruna sopið er kemur að drónum og stýrikerfum þeirra. Auk þess er hann yfirverkfræðingur við Norce-rannsóknastöðina í Tromsø. Ætli lögreglan í Noregi að vera í stakk búin til að stöðva dróna sem ekki er vitað hver stjórnar kostar búnaðurinn líklega um 100 milljónir norskra króna, heldur verkfræðingurinn, það er um einn og hálfur milljarður íslenskra króna.

Drónar eru ekki eingöngu saklaus leiktæki tækniáhugafólks, þeir geta einnig …
Drónar eru ekki eingöngu saklaus leiktæki tækniáhugafólks, þeir geta einnig verið miskunnarlaus drápstól búin allri nýjustu tækninni til að drepa manneskjuna fljótt, örugglega og án eftirmála. Í Noregi er meint njósnaflug Rússa mjög til umræðu þessa dagana eins og mbl.is hefur fjallað um. AFP/Massoud Hossaini

„Þessi búnaður eru sáraeinfaldur, bara vara sem þú útvegar þér með músarsmelli,“ segir Håheim-Saers. „Sá sem ræður yfir þessum búnaði getur fundið ólöglegan dróna og rakið sig til eiganda hans strax,“ heldur hann áfram.

Auðsótt mál sé að stöðva dróna á flugi, fjarstýringarsamskipti megi trufla auk þess sem hægt sé að skjóta hvaða dróna sem er niður með leysigeislum.

Mörg ríki íhugi kaup

Stig Nyvold, framkvæmdastjóri Squarehead Technology AS, tekur undir með síðasta ræðumanni. „Mörg ríki íhuga nú að kaupa þennan búnað,“ segir Nyvold en fyrirtæki hans selur útbúnað sem fundið getur óæskilega dróna. „Þetta snýst bara um að velja rétta verkfærið úr verkfærakassanum,“ segir framkvæmdastjórinn enn fremur.

Lögreglan telur hins vegar að tækninni fleygi svo ört fram að tíma taki að byggja upp þekkingu og aðferðafræði.

„Við þurfum aðallega að átta okkur á hvaða útbúnaðar við þörfnumst, þar liggur kostnaðurinn,“ segir Elisabeth Rise, sviðsstjóri aðgerðasviðs norska ríkislögreglustjórans. Segir hún lögregluna hafa tekið búnað á leigu til að byrja með, en vill ekki ljóstra upp hve margir lögregluþjónar hafi hlotið þjálfun til að nota hann.

„Mörg kerfi eru í notkun og tæknin þróast hratt, þess vegna höfum við tekið okkur tíma til að meta stöðuna,“ segir Rise, „við þurfum að koma okkur upp áætlun um hvernig þetta verði notað, hvaða hæfni við getum byggt upp og hver viðbragðstími okkar verði. Það er það sem við erum að skoða núna,“ segir hún enn fremur.

Hún er ekki sammála því að lögreglan sé eftir á í tæknimálum. „Við verðum að forgangsraða eftir því hvaða ógn er okkur næst. Það mat getur breyst mjög hratt, núna horfum við á málin miðað við þá stöðu sem nú er uppi,“ segir Rise að lokum við NRK.

NRK

NRKII (svona hefði mátt stöðva dróna)

Aftenposten (Rússi gripinn með dróna)

TV2 (sjálfsmorðsdrónaárásir í Úkraínu)

mbl.is