Guðrún fagnaði þrítugsafmælinu á toppi Machu Picchu

Á ferðalagi | 22. október 2022

Guðrún fagnaði þrítugsafmælinu á toppi Machu Picchu

Guðrún Lund er um þessar mundir stödd á ferðalagi um Mið- og Suður-Ameríku ásamt unnusta sínum, Max Hopkins. Þau hafa verið á ferðalagi síðan í janúar og munu ekki snúa aftur heim fyrr en í byrjun desember. Guðrún og Max hafa ferðast á stórbrotna staði, upplifað einstaka fegurð og ólíka menningarheima og hefur Guðrún verið dugleg að deila fallegum myndum úr ferð þeirra á Instagram-reikningi sínum

Guðrún fagnaði þrítugsafmælinu á toppi Machu Picchu

Á ferðalagi | 22. október 2022

Guðrún Lund fagnaði þrítugsafmæli sínu á toppi Machu Picchu í …
Guðrún Lund fagnaði þrítugsafmæli sínu á toppi Machu Picchu í Perú. Hér er hún ásamt unnusta sínum, Max Hopkins.

Guðrún Lund er um þessar mundir stödd á ferðalagi um Mið- og Suður-Ameríku ásamt unnusta sínum, Max Hopkins. Þau hafa verið á ferðalagi síðan í janúar og munu ekki snúa aftur heim fyrr en í byrjun desember. Guðrún og Max hafa ferðast á stórbrotna staði, upplifað einstaka fegurð og ólíka menningarheima og hefur Guðrún verið dugleg að deila fallegum myndum úr ferð þeirra á Instagram-reikningi sínum

Guðrún Lund er um þessar mundir stödd á ferðalagi um Mið- og Suður-Ameríku ásamt unnusta sínum, Max Hopkins. Þau hafa verið á ferðalagi síðan í janúar og munu ekki snúa aftur heim fyrr en í byrjun desember. Guðrún og Max hafa ferðast á stórbrotna staði, upplifað einstaka fegurð og ólíka menningarheima og hefur Guðrún verið dugleg að deila fallegum myndum úr ferð þeirra á Instagram-reikningi sínum

Guðrún og Max eru búsett í Englandi og kunna vel við sig þar. „Við Max vorum bæði í námi í Manchester og kunnum svo vel við okkur þar að við ákváðum að búa þar áfram eftir að náminu lauk. Það eru líka betri atvinnutækifæri fyrir mig þar, en ég er með meistaragráðu í afbrotafræði og er planið þegar við snúum aftur heim eftir reisuna að leita að vinnu í Englandi, annað hvort innan lögreglunnar eða tengt greiningu á tölfræðilegum gögnum,“ segir Guðrún. 

Max og Guðrún í Mendoza, Argentínu.
Max og Guðrún í Mendoza, Argentínu.

Forréttindi að ferðast

Guðrún og Max hafa bæði mikinn áhuga á því að ferðast og þykir fátt skemmtilegra en að upplifa öðruvísi menningarheima. „Við erum alltaf að minna hvort annað á hvað það eru mikil forréttindi að ferðast hérna og hafa tækifæri til þess að fara út í marga mánuði og upplifa svona margt í einu,“ útskýrir Guðrún. 

„Suður-Ameríka hefur upp á svo margt að bjóða. Við höfum bæði mikinn áhuga á útiveru og fjallgöngum og förum óspart í allskyns göngur hérna. Við fórum til Patagóníu sem er algjör útiveru paradís með mikið af fallegum gönguleiðum og stórbrotnum fjöllum sem eru engu lík. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa fegurðinni nema sjá hana með eigin augum,“ segir Guðrún. 

Fitz Roy-fjöllin í Patagóníu.
Fitz Roy-fjöllin í Patagóníu.

„Svo hefur Suður-Ameríka líka virkilega áhugaverða sögu, bæði hvað varðar frumbyggjana sem voru hér fyrst og síðan yfirtöku Spánverjanna,“ útskýrir Guðrún og bætir við að það sé mikið um fallegar byggingar í „nýlendustefnu-stíl“ og því finnist þeim oft eins og þau séu stödd í Evrópu. 

Guðrún talar líka um fallegar strendur og krúttlega strandbæi víða um Suður-Ameríku. „Það hefur verið dásamlegt að liggja á einhverri strönd og hlaða batteríin áður en haldið er áfram í reisunni,“ bætir hún við. 

Guðrún í góðum málum í Baltinache-lóninu í Chile.
Guðrún í góðum málum í Baltinache-lóninu í Chile.

Ótrúlegt dýralíf á Galápagoseyjum

„Eitt það skemmtilegasta sem við höfum gert hér var að heimsækja Galápagoseyjar sem eru staðsettar í Ekvador. Þar er mjög mikið af áhugaverðu dýralífi og þar köfuðum við með skjaldbökum, sæljónum og hákörlum. Dýrin þarna eru búin að vera einangruð í svo langan tíma að þegar fólk settist þarna að fyrst þá voru dýrin ekkert hrædd við mannfólkið. Enn þann dag í dag eru þau óhrædd og því gat maður verið í mikilli nálægð við dýrin,“ útskýrir Guðrún. 

„Við lentum í fyndnu atviki þegar við vorum í sólbaði …
„Við lentum í fyndnu atviki þegar við vorum í sólbaði á ströndinni, en þá fórum við og sóttum okkur drykk og þegar við komum til baka voru tvö sæljón búin að koma sér vel fyrir á handklæðunum okkar. Það vantaði bara sólgleraugu á þau,“ segir Guðrún og hlær.

Ríó í mestu uppáhaldi

Þó Guðrún heillist mest að rómantískum borgum eins og París og Venice segir hún uppáhaldsborg sína þó vera Ríó í Brasilíu. „Ríó er stútfull af lífi, lit og menningu. Þar er hægt að sjá einstaklega fallegt útsýni yfir borgina frá hinum ýmsu sjónarhornum, þá helst hjá Cristo Redentor styttunni og Sugarloaf-fjöllunum. Einnig er hægt að finna góðar strendur og veitingahús þar, en það er bara bókstaflega allt í einni borg. Svo skemmir ekki fyrir hvað Brasilíumenn eru vinalegir og bjóða ferðamenn velkomna í borgina,“ segir hún. 

Frábært útsýni yfir Ríó.
Frábært útsýni yfir Ríó.

Stórbrotnir staðir leynast víða

Guðrún segir hvert land hafa sína geimsteina, enda hafa þau Max upplifað mikið á ferðalagi sínu. „Í Chile var skemmtilegast að leigja bíl og keyra um alla Atacama-eyðimörkina, en þar er hægt að ská einstakt landsvæði, heitar laugar og geysi,“ útskýrir Guðrún. 

Lagunas Baltinache í Chile.
Lagunas Baltinache í Chile.
Valle de Luna í Chile.
Valle de Luna í Chile.

„Svo var það Uyuni salt-eyðimörkin sem stóð upp úr í Bólivíu, en eyðimörkin er yfir 10.000 ferkílómetrar að stærð og á þeim árstíma sem við komum var regnvatn yfir saltinu sem myndaði speglun í vatninu og ólýsanlega fegurð,“ segir Guðrún. 

Uyuni salt-eyðimörkin í Bólivíu.
Uyuni salt-eyðimörkin í Bólivíu.
Uyuni salt-eyðimörkin í Bólivíu.
Uyuni salt-eyðimörkin í Bólivíu.

Bökuðu köku í potti í 2.430 metra hæð

Guðrún fagnaði 30 ára afmælisdeginum sínum á toppi Machu Picchu í Perú eftir fjögurra daga göngu sem kallast Inca Trail. „Það var stórfenglegt að upplifa þessa borg og kynnast sögu Machu Picchu. Við vorum búin að ganga þarna frekar erfiða leið í fjóra daga og vorum alveg búin á því þegar loks blasti við okkur þessi stórfenglega borg. Það var frekar skýjað en dró frá skýjunum og borgin birtist, þetta var eiginlega eins og í bíómynd,“ segir hún. 

Kólumbía.
Kólumbía.

„Það skemmdi ekki fyrir að fylgdarlið okkar var búið að baka fyrir mig afmælisköku í potti í 2.430 metra hæð. Ég skil ekki enn hvernig þeir gátu galdrað fram þessa köku með þau fáu áhöld og hráefni sem þeir voru með, en hún var mjög bragðgóð og mun þessi minning lifa með mér til æviloka,“ bætir Guðrún við. 

Kólumbía heillaði Guðrúnu og Max, en hún segir fólkið þar sérstaklega vinalegt. „Hvert sem þú ferð safnast fólk saman úti á torgin að selja mat á básum, spila tónlist, dansa og spjalla saman. Það er svo æðislegt að upplifa svona menningu sem gerir svona mikið úr því að koma saman og hafa gaman þrátt fyrir að lífið geti verið erfitt,“ segir Guðrún. 

Huacachina í Perú.
Huacachina í Perú.

Hræðslan má ekki taka yfir

Guðrún var frekar efins um ferðalag til Suður-Ameríku til að byrja með þar sem hún hafði heyrt allskyns sögur um að það væri hættulegt og mikið af glæpagengjum. „En það hefur komið mér á óvart hvað það er öruggt hérna. Það er evrópskur fílingur yfir mörgum borgum og bæjum hérna, fólkið er svo vinalegt og hjálpsamt. Ég held að eftir heimsfaraldurinn séu þau fegin að fá loksins ferðamenn aftur, svo flest þeirra gera allt til þess að ferðamönnum líði vel hérna og upplifi sig öruggt,“ segir Guðrún.

Í Súkre sem er önnur tveggja höfuðborga Bólivíu.
Í Súkre sem er önnur tveggja höfuðborga Bólivíu.

Aðspurð segist Guðrún ekki hafa lent í neinu hættulegu á ferðalögum sínum, en þrátt fyrir það vakni oft allskyns spurningar þegar hún er á ferðalagi til lengri tíma í ókunnugu landi. „Við erum með ráðstafanir í huga og pössum okkur til dæmis að fara ekki út seint á kvöldin, fara ekki í einhver hverfi sem eru hættuleg og höldum okkur alveg á túristasvæðunum þar sem þau eru mjög örugg. En það er ekkert hægt að koma í veg fyrir allt, ef eitthvað gerist þá bara gerist það. Það er ekki hægt að vera hræddur öllum stundum því þá nýtur maður ekki ferðalagsins,“ segir Guðrún. 

Guðrúnu dreymir um að ferðast til allra heimsálfanna og á …
Guðrúnu dreymir um að ferðast til allra heimsálfanna og á eftir að heimsækja mörg lönd sem henni þykir virkilega spennandi. „Sem betur fer hef ég vonandi nægan tíma framundan til þess að tikka í öll boxin, en það sem er efst á lista er líklegast Ástralía og Nýja-Sjáland,“ segir Guðrún.

Mesta menningarsjokkið á Norður-Indlandi

Suður-Ameríku reisan er ekki fyrsta langa ferðalag Guðrúnar og Max, en árið 2017 ferðuðumst þau til Suðaustur-Asíu og heimsóttu Dubaí, Tæland, Laos, Kambódíu, Víetnam og Malasíu. „Árið 2018 fórum við til Indlands þar sem við eyddum mánuði á ferðalagi um Rajasthan-héraðið. Það var virkilega áhugavert að koma þangað en Norður-Indland er líklega mesta menningarsjokkið fyrir vestræna ferðamenn. Þar er mikil fátækt og sannarlega erfitt að horfa upp á hana og stéttaskiptinguna,“ segir Guðrún.

Guðrún og Max hafa einnig ferðast víða um Evrópu, en uppáhaldsborgir Guðrúnar eru París, Víenna, Berlín og Venice sem hún lýsir sem afar rómantískri borg. „Við eigum svo alveg eftir að skoða Ameríku almennilega og er það ofarlega á lista hjá okkur. Við höfum hingað til bara komið til New York og Washington,“ segir hún.

Mismunandi matarmenning heillandi

Guðrún og Max hafa mikið dálæti á góðum mat og þykir gaman að prófa nýjan og framandi mat, en þau hafa verið dugleg að fara á matreiðslunámskeið á ferðalögum sínum. „Við elskum að prófa nýja rétti frá mismunandi löndum og sumar af okkur bestu minningum af mat eru frá svokölluðum matarbásum eða matarvögnum þar sem heimamenn elda hina ýmsu rétti beint af götunni,“ segir Guðrún.

Hún segir besta götumatinn hafa verið í Tælandi og Víetnam, en þar að auki hafi þau verið yfir sig hrifin af alvöru indverskum mat á ferðalagi sínu um Indland. „Maturinn hér í Suður-Ameríku er líka æðislegur, þá sérstaklega grillaður fiskur á ströndinni með svokölluðum „patacones“ sem eru bananar sem eru stappaðir og síðan djúpsteiktir, algjört lostæti.“

View this post on Instagram

A post shared by Guðrún Lund (@gudrunlund)

mbl.is