Logið um samskipti við Rússa

Rússland | 23. október 2022

Logið um samskipti við Rússa

Norska eldsneytiseftirlitið, Petroleumstilsynet, fullyrti við þarlenda ríkisútvarpið NRK að það hefði ekki haft nein samskipti við rússneska systurstofnun, Rostekhnadzor, frá því í desember 2020. Annað kom í ljós við eftirgrennslan.

Logið um samskipti við Rússa

Rússland | 23. október 2022

Rör Nord Stream-leiðslunnar áttu að „þola allt“. Það reyndust þau …
Rör Nord Stream-leiðslunnar áttu að „þola allt“. Það reyndust þau ekki gera og nú er komið í ljós að eldsneytiseftirlitsstofnanir Noregs og Rússlands funduðu, meðal annars um öryggi gasleiðslanna, rétt fyrir innrás Rússa í Úkraínu en norska stofnunin kvað enga fundi hafa átt sér stað síðan í desember 2020. Ljósmynd/Wikipedia.org/Pedant01

Norska eldsneytiseftirlitið, Petroleumstilsynet, fullyrti við þarlenda ríkisútvarpið NRK að það hefði ekki haft nein samskipti við rússneska systurstofnun, Rostekhnadzor, frá því í desember 2020. Annað kom í ljós við eftirgrennslan.

Norska eldsneytiseftirlitið, Petroleumstilsynet, fullyrti við þarlenda ríkisútvarpið NRK að það hefði ekki haft nein samskipti við rússneska systurstofnun, Rostekhnadzor, frá því í desember 2020. Annað kom í ljós við eftirgrennslan.

Reyndust stofnanirnar hafa fundað í desember 2021 um aðgerðir til að tryggja öryggi gas- og annarra eldsneytisleiðslna, þar á meðal á hafsbotni, er þykir í meira lagi kaldhæðnislegt í ljósi nýliðinna atburða á botni Eystrasalts í septemberlok.

Var fundurinn 2021 haldinn þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti var tekinn að raða herafla sínum upp við úkraínsku landamærin með væntanlega innrás í nágrannalandið í huga.

„Þessi faglegi fundur [í desember 2021] hefur farið undir radarinn hjá okkur þegar við svöruðum ykkur fyrst,“ segir Eileen Brundtland, upplýsingafulltrúi eldsneytiseftirlitsins, í tölvupósti til NRK.

„Nú er ég aldeilis bit“

Hefur ríkisútvarpið fundargerð frá téðum fundi undir höndum þar sem meðal annars var rætt um lokanir olíubrunna á hafsbotni er væru að ljúka vinnslutímabili sínu. Var þar rætt að norska eftirlitsstofnunin byði fulltrúum rússnesku stofnunarinnar til norsku olíuhöfuðborgarinnar Stavanger til að ræða málin enn fremur.

„Nú er ég aldeilis bit,“ segir Åse Gilje Østensen, rannsakandi við norska sjóherskólann og bætir við: „Eldsneytiseftirlitið gat vissulega ekki vitað á þessum tíma af skemmdarverkunum sem síðar voru unnin á gasleiðslunum, en það hefði ekki þurft að fara gegnum mikið af áhættumati norsku leyniþjónustunnar til að átta sig á að við þurfum að gæta að okkur á þessum vettvangi og ekki deilda mikilvægum upplýsingum. Þetta var ekki tíminn fyrir samstarf af þessu tagi.“

Minnir hún á að Rússar hafi tekið að nota gas og flutningsleiðir þess sem kúgunartæki gagnvart Úkraínu þegar árið 2006. Þá hefði mátt vera ljóst að því sama hefði mátt beita gegn Noregi. Ekki þýði að vera með einhvern barnaskap þegar litið sé til þeirra sem hafi töglin og hagldirnar í Kreml.

Óttast afleiðingarnar

Krefst Østensen þegar allra upplýsinga um málið upp á borð. „Við getum ekki búið við að sumar ríkisstofnanir dæli út upplýsingum á meðan aðrar reyna að halda þeim leyndum. Her og lögregla búa sig undir aukið viðbúnaðarstig á meðan stofnanir á borð við þessa [eldsneytiseftirlitið] deila hverju sem er. Þessar stofnanir þurfa að hafa samráð. Þær þurfa að skilja hvað er að gerast í öryggismálum,“ segir hún enn fremur.

Kirsti Bergstø, varaformaður Sósíalíska vinstriflokksins, SV, bregst harkalega við tíðindum af desemberfundinum í fyrra. „Ég óttast afleiðingar þess sem NRK hefur afhjúpað,“ segir hún og krefst þess að þingnefnd saumi að vinnumálaráðherra og krefji hann svara um málið.

Brundtland upplýsingafulltrúi kveður eldsneytiseftirlitið hins vegar hafa farið að öllum verklagsreglum. „Áhættan á þessum vettvangi hefur um langt skeið verið mikil og við höldum árvekni okkar hvað iðnaðarnjósnir og hættuna af þeim snertir. Eins höfum við stífar reglur sem snúa að því hvaða upplýsingar eru gerðar opinberar,“ segir hún.

NRK

NRKII (fundurinn 2020)

NRKIII (hörð viðbrögð)

NRKIV (Nord Stream-leiðslan átti að „þola allt“)

mbl.is