Jónas von Kattakaffihús vekur Júlíu á morgnana

Áhugavert fólk | 29. október 2022

Jónas von Kattakaffihús vekur Júlíu á morgnana

Júlía Margrét Einarsdóttir rithöfundur elskar dimmar nætur og segist alls ekki vera sumarmanneskja. Hún fer stresslaus inn í veturinn, ætlar að lesa bækur eftir aðra og skreppa í stelpuferð til Tenerife. 

Jónas von Kattakaffihús vekur Júlíu á morgnana

Áhugavert fólk | 29. október 2022

Júlía Margrét Einarsdóttir.
Júlía Margrét Einarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Júlía Margrét Einarsdóttir rithöfundur elskar dimmar nætur og segist alls ekki vera sumarmanneskja. Hún fer stresslaus inn í veturinn, ætlar að lesa bækur eftir aðra og skreppa í stelpuferð til Tenerife. 

Júlía Margrét Einarsdóttir rithöfundur elskar dimmar nætur og segist alls ekki vera sumarmanneskja. Hún fer stresslaus inn í veturinn, ætlar að lesa bækur eftir aðra og skreppa í stelpuferð til Tenerife. 

Hvað gerir þú til þess að hafa það notalegt á veturna?

„Ég er orðin spennt fyrir jólabókaflóðinu sem er að skella á, sérstaklega því ég þarf ekki að vera með í stressinu sem fylgir því að vera með bók sjálf heldur verð bara í klappstýruliðinu á kantinum. Ég elska að koma heim úr vinnunni á dimmum eftirmiðdögum, hjúfra mig uppi í sófa með nýja skáldsögu eða ljóðabók og njóta hæfileika kollega minna. Nú er ég sérstaklega spennt fyrir nýrri ljóðabók Arndísar Lóu, sagnfræðiriti Kristínar Svövu og skáldsögu Dags Hjartarsonar sem allar bíða mín á stofuborðinu tilbúnar fyrir samveru í vetur.“

Hvernig rífurðu þig fram úr rúminu í skammdeginu?

„Það er aðallega kötturinn minn, Jónas von Kattakaffihús, sem sér um það. Þegar honum finnst tímabært að hann fái nýjan skammt af Royal canin light á diskinn sinn stekkur hann með offorsi upp í rúm, hossar sér almennilega, lemur mig í framan, malar hátt og sleikir út um þar til ég hlýði og dröslast fram úr til að sinna honum. Mér finnst það þreytandi fyrst en átta mig svo á því að hann hefur margt til síns máls. Það er best að fara fram úr nógu snemma til að ég nái að laga mér kaffi í mokkakönnunni og hlusta á vini mína í morgunútvarpinu á Rás 2 áður en ég legg af stað í strætó.“

Hvað finnst þér gaman að gera yfir vetrartímann?

„Ég er alls ekki mikil sumarmanneskja, uppáhaldstíminn minn er frekar haustið og vorin, aðdragandinn. Ég elska nýtt upphaf, þegar laufin verða rauð og næturnar verða dimmar. Lyktin af hreinni stílabók, glænýtt boxy-strokleður og skólinn að byrja aftur eða eins og í mínu tilviki er rútínan að komast á í vinnunni og það verður tímabært að kaupa jólapeysur, nú er ég til dæmis búin að kaupa eina Turtles-jólapeysu og eina Biggie Smalls og er alls ekki hætt.

Ég held rosalega mikið upp á aðventuna, að smakka allan jólabjórinn, fara í útgáfuhóf, á ljóðakvöld, horfa á hryllingsmyndir fyrir hrekkjavökuna og þegar desember nálgast byrja ég tímanlega að hlusta á öll myrku sorglegu jólalögin sem við Kamilla systir höfum safnað saman og höldum mikið upp á, lög eins og Did I Make You Cry on Christmas Day (well you deserved it), Don't Shoot Me Santa Clause og Please Daddy (don't get drunk this christmas) og fleiri góð.“

Hvað ætlar þú að elda í vetur?

„Ég kann ekkert að elda nema klemmusamlokur og frosnar pítsur en kærastinn minn er besti kokkur í heimi. Við erum vegan og hann er snillingur í að gera sjúklega góðar haustsúpur og rótsterkt chili sin carne sem er svo gott þegar það er kalt úti og maður kemur heim blautur í tærnar eftir langan dag og getur borðað á meðan horft er á fréttirnar og áður en það þarf aftur að bursta kisa.“

Ertu að fara að gera eitthvað skemmtilegt í vetur?

„Ég ætla bara að jólast með mínum nánustu en er svo reyndar í lok nóvember og byrjun desember að fara í jógaferð með Herdísi vinkonu minni og fullt af stelpum beint í sólina. Við verðum á Tenerife með hengirúm, sundlaug, fallegar gönguleiðir og glás af veganmat í heila viku að slappa af og njóta veðurs og félagsskapar. Þar langar mig að koma nýju bókinni minni, sem kemur út á næsta ári, á almennilegt skrið. Svo kem ég bara tönuð og zenuð heim í tryllinginn; sorglegu jólalögin, leynivinaleik í vinnunni, jólaglögg, tónleika og möndlur.“

mbl.is