Slysaðist inn í orkugeirann

Framakonur | 30. október 2022

Slysaðist inn í orkugeirann

Dagný Ósk Ragnarsdóttir er forstöðumaður Viðskiptagreiningar og þróunar markaða hjá Landsvirkjun. Hún segist hálfpartinn hafa slysast inn í orkugeirann en sér alls ekki eftir því enda nóg af spennandi verkefnum. 

Slysaðist inn í orkugeirann

Framakonur | 30. október 2022

Dagný Ósk Ragnarsdóttir forstöðumaður Viðskiptagreiningar og þróunar markaða hjá Landsvirkjun.
Dagný Ósk Ragnarsdóttir forstöðumaður Viðskiptagreiningar og þróunar markaða hjá Landsvirkjun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagný Ósk Ragnarsdóttir er forstöðumaður Viðskiptagreiningar og þróunar markaða hjá Landsvirkjun. Hún segist hálfpartinn hafa slysast inn í orkugeirann en sér alls ekki eftir því enda nóg af spennandi verkefnum. 

Dagný Ósk Ragnarsdóttir er forstöðumaður Viðskiptagreiningar og þróunar markaða hjá Landsvirkjun. Hún segist hálfpartinn hafa slysast inn í orkugeirann en sér alls ekki eftir því enda nóg af spennandi verkefnum. 

„Ég tók við sem forstöðumaður Viðskiptagreiningar og þróunar markaða hjá Landsvirkjun í byrjun árs en áður hafði ég verið hluti af því teymi í nokkur ár. Við erum í mjög fjölbreyttum verkefnum en teymið mitt gegnir í grunninn því hlutverki að greina viðskiptaumhverfi Landsvirkjunar og fylgjast með stöðu og þróun á orkumörkuðum og öðrum mörkuðum sem snerta fyrirtækið. Mitt hlutverk er svo ekki síst að styðja við fólkið í teyminu mínu og hjálpa því að vaxa og þróast í starfi,“ segir Dagný þegar hún útskýrir í hverju starf hennar felst.

Dagný lauk námi í hagfræði og lærði síðan tölvunarfræði. Hún segir námsvalið ekki hafa verið sérstaklega úthugsað en það hefur reynst góð blanda. „Þegar ég var í námi var ég lítið að spá í orkumál og má segja að ég hafi slysast inn í orkugeirann. Eftir að ég kláraði hagfræðina starfaði ég við rannsóknir í heilsuhagfræði og að tölvunarfræðináminu loknu vann ég sem hugbúnaðarsérfræðingur í nokkur ár. Ég hafði unnið hjá Landsvirkjun sem sumarstarfsmaður á meðan ég var í námi og þegar ég fór að líta í kringum mig á vinnumarkaði að nýju bauðst mér tímabundið starf þar. Ég ákvað því að taka smá U-beygju úr hugbúnaðargeiranum, stökkva til og prófa. Fljótlega sá ég hversu spennandi orkumálin eru og er enn á kafi í þeim, nú rúmum fimm árum síðar.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Gleði og velgengi fer saman

Orkugeirinn er spennandi vettvangur fyrir fólk af öllum kynjum að sögn Dagnýjar. „Það eru mörg og fjölbreytt spennandi störf í boði og ég gerði mér sjálf enga grein fyrir öllum þeim tækifærum og ólíku störfum sem eru til staðar áður en ég byrjaði að vinna hjá Landsvirkjun. Þetta hefur vissulega löngum verið karllægur geiri, og er enn, þrátt fyrir að miklar breytingar hafi orðið á síðustu árum. En jafnari kynjahlutföll og aukinn fjölbreytileiki er grunnur að því að ná sem mestum árangri, ekki bara í orkugeiranum, heldur alls staðar í atvinnulífinu. Ég sit í stjórn Kvenna í orkumálum og má til með að benda á félagið fyrir öll sem vilja stuðla að jafnrétti og fjölbreytileika innan orkugeirans.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Það er mér mikils virði að starfa í heimi endurnýjanlegrar orku og styðja við það að við fáum sem mest verðmæti úr þeim auðlindum okkar á sjálfbæran hátt. Að ná árangri og að sjá teymið mitt ná árangri í fjölbreyttum og krefjandi verkefnum gefur mér jafnframt mikið. Ég er svo lánsöm að vera umkringd eintómum snillingum í vinnunni og vera með frábæran yfirmann sem leggur mikla áherslu á létta og góða stemmningu. Við erum mjög dugleg að fagna litlu sigrunum og gera eitthvað skemmtilegt saman. En góður félagsskapur finnst mér lykillinn að því að njóta sín í vinnunni og ég held líka að okkur gangi best þegar við höldum í gleðina.“

Reynir að setja skýr mörk

„Ég er metnaðarfull og hef mikla ábyrgðartilfinningu, sem eru frábærir styrkleikar sem hafa komið sér vel, en eiga sér þó þær skuggahliðar að ég er gjörn á að taka mér aðeins of mikið fyrir hendur í einu og ofkeyra mig. Það er mikilvægt að setja sér skýr mörk og gæta þess að gefa sér tíma fyrir hvíld, sem ég þarf reglulega að minna mig á. Mér tekst ekki alltaf að fara eftir þessu en maður er alltaf að læra.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ef ég skrifa það ekki niður þá gleymi ég því, þannig að mínir dagar, bæði í vinnu og einkalífi, einkennast af verkefnalistum sem ég bæti á jafnóðum og ég man eftir einhverju sem ég ætla að gera. Í vinnunni erum við teymið með sameiginlegt yfirlit yfir verkefni sem við förum yfir daglega og mér finnst gott að byrja daginn á að yfirfara það og forgangsraða hverju ég ætla að vinna í þann daginn. Dagarnir eru oft þéttskipaðir fundum en mér finnst gott að taka frá smá tíma fyrir hádegi fyrir stjórnun eða ákveðin verkefni sem krefjast einbeitingar þegar ég hef tök á og jafnvel skipta um umhverfi.“

Nafnið kemur grunsamlega oft upp í starfsmannabústöðum

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Morgunrútínan mín er hvorki mjög flókin né framandi. Vakna, vítamín, bursta, sturta og taka mig til. Ég bætti þó við hana smá snúningi í lok sumars. Þá tók ég upp á því að byrja alla morgna á að setjast út á svalir með teppi og hugleiða í smá stund. Þessi viðbót hefur haldist í rútínunni síðan og er eiginlega orðin ómissandi partur inn í daginn. Sjáum hvort mér tekst að halda þessu áfram þegar haustlægðirnar taka öll völd, ég færi mig þá vonandi í versta falli inn.“

Hvað gerir þú til þess að hlaða batteríin?

„Hreyfing og útivera eru mínar leiðir til þess að hlaða batteríin. Ég veit fátt betra en náttúruhlaup og fjallgöngur í góðum félagsskap. Það er eitthvað við hreyfingu úti í náttúrunni, það er ótrúlegt hvað það að fá púlsinn aðeins upp úti í fersku lofti og fallegu umhverfi getur gefið manni mikið. Síðan er ég að æfa í Afreki, sem er frábær líkamsræktarstöð sem ég mæli mikið með. Ég var nýverið að klára námskeið þar í kraftlyftingum sem ég hafði ekki prófað áður en mig langar klárlega að halda áfram að stunda.

„Til þess að fullhlaða batteríin fer ég svo í sund eftir góða hreyfingu. Ekki til þess að synda samt, heldur bara til þess að slappa af í pottinum án alls áreitis. Þegar vel liggur á mér kíki ég líka í kalda pottinn og finnst reyndar mjög gott að komast í sjóinn eða köld böð úti í náttúrunni, sem gerir mikið fyrir mig bæði á líkama og sál. Ég á frekar auðvelt með kuldann og alveg spurning hvort ég ætti ekki að fá að deila titlinum ísdrottning með Ásdísi Rán.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Ég hef mjög gaman af því að ferðast og nýti fríin oftast í eitthvert flakk, hvort sem það er innanlands eða erlendis. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort maður megi telja upp mat sem áhugamál, en eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að borða góðan mat. Skemmtilegustu fríin finnst mér einmitt þau sem eru blanda af hreyfingu og góðum mat. Yfir vetrartímann er ég dugleg að kíkja í bústað, svo mjög að ég er búin að heyra það frá nokkrum samstarfsfélögum að nafn mitt birtist grunsamlega oft í gestabókum í sumarbústöðum starfsmannafélagsins í vinnunni. Ég er alltaf til í einhver ævintýri og mér finnst mjög gaman að prófa eitthvað nýtt, hvort sem það er að prófa nýja hlaupaleið, læra á brimbretti eða fara í fallhlífarstökk,“ segir Dagný.

mbl.is