Vilja dreifa F-35-þotunum vegna árásarhættu

Rússland | 31. október 2022

Vilja dreifa F-35-þotunum vegna árásarhættu

„Markmiðið er að torvelda óvininum að granda þotunum okkar“ segir Rolf Folland, yfirmaður norska flughersins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en flugherinn vinnur nú að áætlun um að dreifa nýju F-35-orrustuþotunum um herflugvelli landsins til að verja þær hugsanlegum eldflaugaárásum.

Vilja dreifa F-35-þotunum vegna árásarhættu

Rússland | 31. október 2022

Ein af nýju F-35-þotunum á flugi yfir Noregi. Norðmenn hafa …
Ein af nýju F-35-þotunum á flugi yfir Noregi. Norðmenn hafa nýverið keypt 52 slíkar vélar af Lockheed Martin-verksmiðjunum í Texas og kostar hver vél 1,74 milljarða norskra króna, eða 24 milljarða íslenskra króna. Ljósmynd/SSGT Kyle van der Wagen/USAF

„Markmiðið er að torvelda óvininum að granda þotunum okkar“ segir Rolf Folland, yfirmaður norska flughersins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en flugherinn vinnur nú að áætlun um að dreifa nýju F-35-orrustuþotunum um herflugvelli landsins til að verja þær hugsanlegum eldflaugaárásum.

„Markmiðið er að torvelda óvininum að granda þotunum okkar“ segir Rolf Folland, yfirmaður norska flughersins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en flugherinn vinnur nú að áætlun um að dreifa nýju F-35-orrustuþotunum um herflugvelli landsins til að verja þær hugsanlegum eldflaugaárásum.

Af 52 slíkum þotum, sem Noregur hefur samið um kaup á af Lockheed Martin-verksmiðjunum í Bandaríkjunum, hafa nú 37 verið afhentar en vélarnar leysa af hólmi 40 ára gamlan F-16-flota norska flughersins og eru flestar staðsettar á Ørland-herflugvellinum í Þrændalögum.

Frá sameiginlegri loftvarnaæfingu Norðmanna og Þjóðverja á Krít í byrjun …
Frá sameiginlegri loftvarnaæfingu Norðmanna og Þjóðverja á Krít í byrjun október. Ljósmynd/Norski herinn

Norski herinn býr ekki yfir öðrum vörnum gegn flugskeytaárás en NASAMS-loftvarnakerfinu sem verið hefur í notkun frá 1998 og er raunar norsk hönnun að hluta. NASAMS ræður hins vegar ekki við að skjóta niður nýjasta flaggskip Rússa, Kinzhal-flugskeytin sem ná allt að tíföldum hraða hljóðsins og hafa 2.000 kílómetra drægi. Kæmi til árásar á Ørland-flugvöllinn með slíkum flaugum yrði fátt um varnir.

Gefur takmarkaðri höggstað

„Dreifing vélanna er gerð í varnarskyni. Hættustigið hefur tekið breytingum síðasta árið. Við viljum vera í stakk búin til að dreifa flugflotanum þegar aðstæður gefa til kynna, hvort tveggja hér um nágrennið, allan landshlutann eða jafnvel alþjóðlega,“ heldur Folland áfram.

Bendir hann á að Finnar og Svíar séu langt komnir með sams konar áætlanir komi til árásar og nú bretti Norðmenn upp ermarnar og hraði sínum áætlunum. „F-35-vélarnar geta starfað frá mörgum flugvöllum og stöðum hér. Takmarkandi þátturinn í þessu er hve lengi hver vél er nothæf án nýrra vopnabirgða, eldsneytisáfyllingar og tæknilegs viðhalds,“ útskýrir Folland.

Bifreið með eldflaugaskotpalli frá norska hernum. Frá æfingunni í Grikklandi …
Bifreið með eldflaugaskotpalli frá norska hernum. Frá æfingunni í Grikklandi í byrjun mánaðarins. Ljósmynd/Ole Andreas Vekve/Norski herinn

Gildi dreifingaráætlunin ekki aðeins um F-35-vélarnar heldur öll norsk herflugför. „Þetta gefur takmarkaðri höggstað á okkur komi til neyðarástands eða stríðs. Eigi aðferðin að virka verðum við að kortleggja möguleika okkar og uppfæra áætlanirnar,“ segir hann að lokum.

Loftvarnir þarfar og nauðsynlegar

Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra segir umræðuna um öflugra og langdrægara loftvarnakerfi í Noregi verða mikilvæga næstu ár. Noregur styður en tekur ekki beinan þátt í samstarfi 15 Evrópulanda undir forystu Þýskalands um sameiginlegt öflugt loftvarnakerfi, verkefni sem gengur undir heitinu ESSI, European Sky Shield Initiative.

Sænskar JAS Gripen- og norskar F-35-orrustuþotur fylgja bandarískri B-52-sprengjuflugvél yfir …
Sænskar JAS Gripen- og norskar F-35-orrustuþotur fylgja bandarískri B-52-sprengjuflugvél yfir Andøya í ágústlok. Ljósmynd/Norski herinn

Gram bendir hins vegar á að um þessar mundir sé unnið að því að styrkja norska NASAMS-kerfið. „Vinnan við að efla varnir landsins gegn langdrægum nákvæmnisvopnum stendur yfir og við erum að byggja okkar loftvarnir upp. Stríðið í Úkraínu hefur sýnt okkur fram á að loftvarnir eru þarfar og nauðsynlegar,“ segir ráðherra.

NRK

NRKII (skortir bolmagn til loftvarna)

NRKIII (vilja að Norðurlöndin hafi fælingarmátt)

Dagsavisen (samevrópska loftvarnaverkefnið)

mbl.is