Segja ómaklega vegið að starfsfólki flokksins

Segja ómaklega vegið að starfsfólki flokksins

Kjörbréfanefnd Sjálfstæðisflokksins segir formann Sjálfstæðisfélags Kópavogs vega ómaklega að starfsfólki flokksins.

Segja ómaklega vegið að starfsfólki flokksins

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2022 | 3. nóvember 2022

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Arnþór

Kjörbréfanefnd Sjálfstæðisflokksins segir formann Sjálfstæðisfélags Kópavogs vega ómaklega að starfsfólki flokksins.

Kjörbréfanefnd Sjálfstæðisflokksins segir formann Sjálfstæðisfélags Kópavogs vega ómaklega að starfsfólki flokksins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni þar sem tekin er fyrir færsla formannsins, Unnar Berglindar Friðriksdóttur, á Facebook fyrr í dag.

Þar segir Unnur að vinnubrögð sem viðhöfð hafi verið innan flokksins hafi gengið fram af sér.

„Þarna er ég að vísa til vinnubragða stuðningsmanna annars frambjóðandans og starfsmanna Valhallar sem koma mér fyrir sjónir sem strengjabrúður þess frambjóðanda,“ skrifaði hún og átti þar við þá sem styðja Bjarna Benediktsson, núverandi formann, til áframhaldandi formennsku.

„Talað niður til mín og ég lítilsvirt“

Kveðst hún sömuleiðis hafa fengið „hótunar“-símtöl frá „jakkafataklæddum mönnum innan flokksins þar af einum háttsettum sem fór langt út fyrir sitt umboð í ljósi embætti síns“.

Auk þessa hafi hún verið boðuð í yfirheyrslur í bakherbergi í Valhöll í fyrrakvöld.

„Þar var talað niður til mín og ég lítilsvirt. Það var farið með mig eins og sakamenn í sakamáli þá er ég að vísa einnig í ítrekuð yfirheyrslusímtöl,“ segir hún meðal annars í færslunni.

Í tilkynningu frá kjörbréfanefnd í kjölfar þessa er tekið fram að hún hafi verið að störfum síðan á mánudag.

„Henni hafa borist ýmsar ábendingar sem leyst hefur verið úr. Meðal annars bárust ábendingar varðandi kjör fulltrúa í Kópavogi sem vert væri að athuga. Af því tilefni boðaði nefndin m.a. formann Sjálfstæðisfélags Kópavogs til fundar til að skýra nokkur atriði varðandi framkvæmd fulltrúakjörs,“ segir þar.

Ber ekki ábyrgð á fulltrúakjöri

„Í færslu formanns Sjálfstæðisfélags Kópavogs er vegið ómaklega að starfsfólki Sjálfstæðisflokksins og látið í veðri vaka að það vinni fyrir einn frambjóðanda umfram annan. Kjörbréfanefnd vísar þessum fullyrðingum formannsins á bug.

Starfsfólk Sjálfstæðisflokksins vinnur með þau gögn sem stjórnir sjálfstæðisfélaga og fulltrúaráða senda til skrifstofu flokksins. Starfsfólk er ekki úrskurðaraðili í álitamálum og ber ekki ábyrgð á fulltrúakjöri á landsfund. Starfsfólk Sjálfstæðisflokksins ber enga ábyrgð á því að nefndin hafi talið þörf á að kalla formann Sjálfstæðisfélags í Kópavogs til fundar.

Ekkert hefur komið fram við yfirferð kjörbréfanefndar á kjörbréfum sem bendir til annars en að starfsfólk Sjálfstæðisflokksins hafi unnið sín verk af ábyrgð og einurð við undirbúning fundarins.

Kjörbréfanefnd ber fulla ábyrgð á sinni vinnu og niðurstöðum nefndarinnar. Nefndin harmar að formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs hafi séð tilefni til að vega að starfsfólki Sjálfstæðisflokksins.“

Undir þetta rita þeir Brynjar Níelsson, formaður kjörbréfanefndar, Arnar Þór Stefánsson og Davíð Þorláksson.

mbl.is