„Flíkin sjálf heillar mig meira en miðinn inni í henni“

Fatastíllinn | 5. nóvember 2022

„Flíkin sjálf heillar mig meira en miðinn inni í henni“

Hin 23 ára gamla Kristín Auður Sophusardóttir er búsett í Kaupmannahöfn ásamt kærasta sínum til sjö ára, Tómasi Urbancic, og eins og hálfs árs gömlum syni þeirra, Theó. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á tísku og hönnun en hún finnur fegurðina í einfaldleikanum og fær mikinn innblástur á götum Kaupmannahafnar, enda mikil tísku- og hönnunarborg.

„Flíkin sjálf heillar mig meira en miðinn inni í henni“

Fatastíllinn | 5. nóvember 2022

Kristín Auður Sophusardóttir er með einstakt auga fyrir tísku og …
Kristín Auður Sophusardóttir er með einstakt auga fyrir tísku og hönnun.

Hin 23 ára gamla Kristín Auður Sophusardóttir er búsett í Kaupmannahöfn ásamt kærasta sínum til sjö ára, Tómasi Urbancic, og eins og hálfs árs gömlum syni þeirra, Theó. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á tísku og hönnun en hún finnur fegurðina í einfaldleikanum og fær mikinn innblástur á götum Kaupmannahafnar, enda mikil tísku- og hönnunarborg.

Hin 23 ára gamla Kristín Auður Sophusardóttir er búsett í Kaupmannahöfn ásamt kærasta sínum til sjö ára, Tómasi Urbancic, og eins og hálfs árs gömlum syni þeirra, Theó. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á tísku og hönnun en hún finnur fegurðina í einfaldleikanum og fær mikinn innblástur á götum Kaupmannahafnar, enda mikil tísku- og hönnunarborg.

Við fengum að skyggnast inn í fataskáp Kristínar sem sagði okkur meðal annars frá tískuáhuganum, uppáhaldsflíkinni og lífinu með ungt barn í Kaupmannahöfn. 

Kristín og sonur hennar, Theó í Kaupmannahöfn.
Kristín og sonur hennar, Theó í Kaupmannahöfn.

Hentu sér í djúpu laugina og fluttu út

Kristín og Tómas fluttu til Danmerkur árið 2018 til að stunda nám við Københavns Erhvervsakademi, umhverfis- og tækniskóla Kaupmannahafnar (KEA) á Nørrebro. Þar lauk Kristín AP gráðu í markaðsfræðum og hönnun og er um þessar mundir að klára BA gráðu í vöruhönnun við sama skóla. 

„Ég hafði lengi verið heilluð af Kaupmannahöfn og hafði dreymt um að flytja út. Ég ákvað því á síðustu önninni minni í Verslunarskólanum að sækja um námið í KEA. Þegar ég frétti að ég hefði fengið inngöngu í skólann var ekkert annað í stöðunni en að henda okkur í djúpu laugina og flytja út saman,“ segir Kristín. 

„Mér fannst ég þroskast gífurlega mikið við það að flytja hingað. Við vorum allt í einu alein í nýrri borg þar sem við þekktum engan, komin úr foreldrahúsum og farin að reka eigin heimili saman, en þá var ég aðeins 19 ára og Tómas 21 árs. Það var mjög krefjandi en á sama tíma gaman og lærdómsríkt,“ bætir hún við. 

Kristín og Tómas eru afar lukkuleg í Kaupmannahöfn og kunna vel við sig þar. „Við erum ótrúlega heppin að eiga marga yndislega vini hér. Eftir að Theó fæddist er samt stundum erfitt að vera ekki með það bakland sem nánasta fjölskyldan okkar er, en þau eru sem betur fer dugleg að koma í heimsókn,“ segir Kristín. 

Kristín á fallegum sumardegi í Kaupmannahöfn.
Kristín á fallegum sumardegi í Kaupmannahöfn.

Óhrædd við að prófa eitthvað nýtt

Samhliða náminu starfar Kristín við markaðssetningu og efnissköpun á samfélagsmiðlum hjá danska vörumerkinu Liewood, en hún segir áhuga sinn á tísku og hönnun hafa breikkað enn meira eftir að sonur hennar kom í heiminn. „Eftir að við eignuðumst Theó opnaðist nýr heimur af barnafötum fyrir mér og nú þykir mér mjög gaman að klæða hann í falleg og vönduð föt. Við Tómas deilum því áhugamáli sem er virkilega skemmtilegt,“ segir Kristín. 

Kristín segir fatastíl sinn stöðugt vera að þróast og taka breytingum. „Ég hef síðan ég man eftir mér aldrei verið hrædd við að prófa eitthvað nýtt þegar kemur að fötum, en ég myndi samt segja að heilt yfir væri fatastíll minn frekar einfaldur,“ segir Kristín og bætir við að henni þyki mikilvægast að líða vel í fötunum sínum og leggur því mikið upp úr því að eiga falleg og þægileg föt úr góðum efnum.

Kristín leggur mikla áherslu á gæði og þægindi, en hér …
Kristín leggur mikla áherslu á gæði og þægindi, en hér er hún í hinum fullkomnu stígvélum fyrir hastið.

„Ég reyni oftast að kaupa mér færri og vandaðri flíkur. Ég held mikið upp á danska merkið GANNI og hef safnað mörgum fallegum flíkum frá þeim í gegnum árin, en í dag hugsa ég mun minna um merki en ég gerði áður. Flíkin sjálf heillar mig meira en miðinn sem er inn í henni,“ útskýrir Kristín. 

Þegar Kristín vill finna sér ódýrari flíkur verslar hún aðallega í COS eða Arket. „Trendsales er einnig frábært app hér í Danmörku, en þar getur maður selt og keypt notuð föt og aðra muni. Svo er ég afskaplega heppin að eiga ömmu sem er algjör saumasnillingur og ef ég er með eitthvað sérstakt í huga getur hún oft búið það til fyrir mig,“ segir hún. 

Notagildið heillar mest

Óhætt er að segja að Kristín sé með einstakt auga fyrir fallegum fatnaði, en hún segir flíkur með mikið notagildi heilla sig mest. „Mér finnst ótrúlega þægilegt að eiga flíkur sem passa vel saman, en þá er hægt að nota fötin lengi og við alls konar tilefni og veðurfar,“ segir hún.

Dagsdaglega segist Kristín klæða sig eftir líðan en einnig eftir veðurfari þar sem hún notar reiðhjól til að komast á milli staða. „Hefðbundið dress hjá mér eru víðar buxur, þröngur toppur og skyrta eða „crewneck“ peysa yfir. Ég er oftast í strigaskóm, en Boston-skórnir frá Birkenstock eru í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og passa að mínu mati við allt,“ segir hún. 

Kristín í Boston-skónum frá Birkenstock.
Kristín í Boston-skónum frá Birkenstock.

„Þegar ég fer eitthvað fínt reyni ég oftast að dressa flíkurnar mínar upp eða niður með því að fara í hæla við buxur eða gróf stígvél við pils eða kjóla. Ég er líka dugleg að breyta um hárgreiðslur, en hárspöng, snúður eða tagl fullkomnar oft heildarútlitið,“ segir Kristín. 

Hér notar Kristín klossa til að dressa upp sig upp.
Hér notar Kristín klossa til að dressa upp sig upp.
Kristín í pilsi og grófum stígvélum.
Kristín í pilsi og grófum stígvélum.

Einfaldar flíkur í bland við óhefðbundin snið

Í fataskáp Kristínar má finna margar fallegar flíkur. „Ég á margar mismunandi skyrtur, peysur, víðar buxur og strigaskó. Síðan er ein og ein flík sem er meira sérstök, en þar mætti til dæmis nefna Margiela Tabi skóna mína sem eru svo sannarlega óhefðbundnir í sniði,“ útskýrir Kristín.

Aðspurð segir Kristín brúna tösku frá COS vera í mestu uppáhaldi þessa dagana. „Hún er algjör Mary Poppins taska sem hægt er að setja allt í. Það kemur sér einstaklega vel þegar þú átt lítið barn,“ segir Kristín. 

„Bestu fatakaup síðustu ára hafa verið GANNI bomber-jakkinn minn og Salmon XT-4 strigaskórnir mínir. Þeir eru upprunalega útivistarskór en urðu mjög vinsælir innan tískuheimsins á síðustu árum enda ótrúlega flottir og praktískir,“ bætir hún við. 

Taskan, bomber-jakkinn og skórnir sem Kristín heldur mest upp á.
Taskan, bomber-jakkinn og skórnir sem Kristín heldur mest upp á.

Kristínu dreymir um að finna fallegan gamaldags leðurjakka fyrir haustið og veturinn, en hún er einnig með augastað á strigaskóm frá Asics eftir hönnuðinn Kiko Kostadinov. Ef peningar væru ekki vandamál myndi Kristín þó fara efst á óskalista sinn og kaupa sér brúnan shearling-jakka frá Miu Miu eða kjól frá Cecile Bahnsen. 

Góð stígvél og leðurbuxur ómissandi fyrir veturinn

„Á haustin og veturna finnst mér ómissandi að eiga góð chelsea-stígvél og leðurbuxur. Ég held einnig mikið upp á buxurnar mínar frá TEKLA sem eru seldar sem náttbuxur, en ég nota þær bara venjulega. Þær eru bæði flottar og þægilegar og ég veit að ég verð mikið í þeim í haust,“ segir Kristín. 

Kristín í leðurbuxum sem hún segir vera ómissandi fyrir haustið …
Kristín í leðurbuxum sem hún segir vera ómissandi fyrir haustið og veturinn.

Þegar kemur að litavali segist Kristín oftast heillast af svörtu, brúnu eða öðrum jarðlitum. „Ég elska svo að poppa dressin mín upp með sterkum litum eins og skærgrænum, bleikum eða appelsínugulum,“ segir hún. 

Hér notar Kristín græna skó til að poppa upp lúkkið.
Hér notar Kristín græna skó til að poppa upp lúkkið.

Kristín sækir mikinn innblástur á götum Kaupmannahafnar og nefnir þar sérstaklega hverfi þeirra Tómasar, Nørrebro, sem hún segir vera stútfullt af ungu og flottu fólki. „Ég fæ líka hugmyndir að því hvernig ég get sett saman dress í gegnum fólk sem ég fylgi á Instagram. Þar má til dæmis nefna Idu Sjunnesson, Mathildu Djerf, Pernillu Teisbæk, Hönnu Schönberg og Melissu Bon,“ útskýrir Kristín og bætir við að Bella Hadid og Zoe Kraviz séu ofarlega á lista hjá sér yfir best klæddu konur heims í dag. 

Hversdagslegt sumardress á götum Kaupmannahafnar.
Hversdagslegt sumardress á götum Kaupmannahafnar.
mbl.is