Biðin eftir IKEA gæti skipt máli

Úkraína | 8. nóvember 2022

Biðin eftir IKEA gæti skipt máli

„Ég held að engin rannsókn geti leyft okkur að segja fyrir um útkomu stríðsins því það er verið að skera úr um hana í rauntíma einmitt núna. Og hún byggist ekki á gögnum, hún er í hausnum á sturluðu fólki í Kreml.“

Biðin eftir IKEA gæti skipt máli

Úkraína | 8. nóvember 2022

Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi í Kreml fyrr í mánuðinum.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi í Kreml fyrr í mánuðinum. AFP

„Ég held að engin rannsókn geti leyft okkur að segja fyrir um útkomu stríðsins því það er verið að skera úr um hana í rauntíma einmitt núna. Og hún byggist ekki á gögnum, hún er í hausnum á sturluðu fólki í Kreml.“

„Ég held að engin rannsókn geti leyft okkur að segja fyrir um útkomu stríðsins því það er verið að skera úr um hana í rauntíma einmitt núna. Og hún byggist ekki á gögnum, hún er í hausnum á sturluðu fólki í Kreml.“

Þetta segir Christo Grozev, sem leitt hefur rannsóknir miðilsins Bellingcat í málefnum Rússlands og varpað ljósi á ýmis ódæðisverk rússnesku ríkisstjórnarinnar, er hann er spurður hvernig hann meti gang stríðsins í Úkraínu.

Christo Grozev ræddi við blaðamann mbl.is í Helsinki í lok …
Christo Grozev ræddi við blaðamann mbl.is í Helsinki í lok síðasta mánaðar. AFP

Mislukkaðar áætlanir Pútíns

„Áður en ég hóf alvörublaðamennsku starfaði ég í útvarpi. Fyrsta útvarpsleyfið sem ég fékk í Rússlandi fyrir bandaríska fyrirtækið sem ég starfaði fyrir var undirritað af Pútín sjálfum í Sankti Pétursborg árið 1995. Þannig að ég hitti hann 1995,“ segir búlgarski blaðamaðurinn.

„Ég tel að Pútín líti á stríðið núna eins og eitthvað sem sé að koma fyrir hann án þess að hann fái nokkru ráðið um hvert það stefni.

Hann hafði áætlun, hún mistókst. Honum bauðst önnur áætlun, hún mistókst sömuleiðis. Þannig að núna er hann bara að bregðast við í raun frá viku til viku. Það gerir þetta allt saman mjög óvíst,“ bætir hann við og bendir á að þetta geri öðrum kleift að brjótast til frekari valda í rússneska stjórnkerfinu.

Nefnir hann þá sem dæmi Jevgení Prígosjín, náinn bandamann Pútíns og stjórnanda Wagner-hópsins, en greint var frá því í gær að hann hefði viðurkennt að Rússar hefðu haft áhrif á kosningar í Bandaríkjunum.

Gæti orðið til góðs

„Þetta býr til aðra valdahópa, á borð við Prígosjín, sem hafa árum saman byrgt inni reiði yfir því að hafa verið notaðir bara sem fjármagn og sem peð í hernum,“ segir Grozev.

„Svo að skyndilega núna er hann [Prígosjín] með sitt eigið vald, sitt eigið egó, fólk sem virkilega trúir á hann. Þannig að ég sé nýja leikmenn koma á pólitíska sjónarsviðið í Rússlandi. Og þetta eru slæmir leikmenn, því miður.“

Hann segir þetta þó geta leitt til góðs.

„Það gætu skapast til skamms tíma enn verri aðstæður, sem almenningur í Rússlandi mun ekki þola. Einn gagnapunktur sem ég get nefnt hér er sá að við höfum fylgst með algengustu spurningunum á Yandex, það er rússneska Google, frá upphafi innrásarinnar.

Til þessa hefur ein af topp-tíu-spurningunum verið: „Hvenær kemur IKEA aftur til Rússlands?“ Og þetta gefur mér von um að þetta samfélag, sem búið er að markaðsvæða mjög, muni ekki þola til lengdar aðstæður á borð við þær sem eru í Norður-Kóreu.“

Horft í átt að Kremlinni. Grozev segir rússnesku stjórnina í …
Horft í átt að Kremlinni. Grozev segir rússnesku stjórnina í raun vera markað. AFP

Hefði mátt stöðva stríðið fyrr

Er eitthvað sem þér finnst Vesturlönd, hvort sem það eru ríkisstjórnir eða almenningur, ekki skilja þegar Rússland er annars vegar, og hvernig það virkar?

Grozev er fljótur til svars:

„Einn stærsti misskilningurinn er sá, þegar gert er ráð fyrir að rússneska stjórnin sé einn sameiginlegur hópur fólks. Þetta er markaður. Þetta er markaður þar sem allir keppa á móti öllum öðrum. Og það er nokkuð sem hefði verið hægt að nota til að jafnvel stöðva stríðið fyrr.

Til dæmis með því að ræða við ólígarka sem misstu allt sitt við upphaf stríðsins. Bjóða þeim leið út úr sínum persónulegu aðstæðum. En vestrið gerði það ekki og jafnvel í tilfelli [Rómans] Abramóvítsj, þá sá ég að viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar voru þau að hann hefði haft sitt tækifæri áður: „Hann valdi Pútín og nú ætlum við ekki að gefa honum leið út.“

Ég held að það hafi verið rangt að gera, því það hefði verið hægt að stöðva stríðið með því að tala við marga þeirra á sama tíma.“

Reyndu að afsanna tylliástæður

Blaðamaður mbl.is spyr Grozev hver séu mestu áhrifin sem hann hafi séð, af umfjöllun Bellingcat í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.

„Ég myndi segja að jafnvel áður en innrásin hófst, þá höfðum við smávegis áhrif. Ég vissi í desembermánuði að stríð væri í undirbúningi. Og það mátti einnig sjá í opinberum gögnum, með því að skoða staðsetningu herliða og svo framvegis. Það var líka skýrt að rússneska ríkisstjórnin var að leita að „casus belli“, einhverri tylliástæðu til að heyja stríð.

Við vörðum fyrstu mánuðunum í að afsanna slíkar mögulegar tylliástæður, því það hefði verið miklu auðveldara fyrir Pútín að hefja stríð ef gerð hefði verið árás undir fölsku flaggi eða fjöldagröf fundist eða álíka. Við einbeittum okkur þess vegna að því að hrekja þess slags málflutning áður en hann gat orðið trúverðugur,“ segir Grozev.

Alls hafa 450 lík fundist í fjöldagröf við úkraínska bæinn …
Alls hafa 450 lík fundist í fjöldagröf við úkraínska bæinn Ísjúm. AFP

Sönnunargögn hrannast upp 

„Eftir að stríðið hófst felast mestu áhrifin ef til vill í því að vita að það er að hrannast upp stafli sönnunargagna, sem við erum að safna, og margar löggæslustofnanir, þar á meðal alþjóðadómstólar, hafa samið um not á. Þannig að við vitum að við erum þegar að veita þeim sönnunargögn.“

Grozev segir Bellingcat hafa fundið og skrásett fleiri en 1.600 tilfelli þar sem óbreyttir borgarar í Úkraínu hafa orðið fyrir skaða.

„Við köllum það ekki stríðsglæpi, því það er ekki fyrir okkur til að bera kennsl á, en þetta eru tilvik þar sem að minnsta kosti einn borgari deyr eða verður fyrir alvarlegum skaða. Og við komum þessum upplýsingum beint, á hráu formi, eftir staðfestingu og staðarákvörðun, til löggæsluyfirvalda. En upp úr þessu birtum við ekki greinar, við gerum þessar upplýsingar einungis aðgengilegar á vefnum okkar, sem aðrir miðlar geta svo nýtt.“

Hann tekur einnig fram að blaðamenn Bellingcat leggi sig fram við að gefa sjálfstæðum rússneskum miðlum fjölda viðtala, til að reyna að halda rússnesku þjóðinni upplýstri.

„Þú heldur þeim ekki öllum upplýstum. Þú nærð kannski að tala til 20% þeirra. En þú ert þá að gefa þeim sannleik sem þau geta svo notað til að ræða við ættingja sína og vini, sem munu aldrei fylgjast með erlendum fjölmiðlum. Mestu áhrifin felast kannski í því.“

mbl.is