Gjaldtaka verði í samræmi við veitta þjónustu

Umhverfisvitund | 11. nóvember 2022

Gjaldtaka verði í samræmi við veitta þjónustu

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir að ekki sé horft til gjaldtöku fyrir aðgengi að friðlýstum svæðum á Íslandi. Eingöngu sé verið að skoða að gjaldtaka sé í samræmi fyrir veitta þjónustu.

Gjaldtaka verði í samræmi við veitta þjónustu

Umhverfisvitund | 11. nóvember 2022

Guðlaugur Þór Þórðarson segir að ekki hafi verið umræða um …
Guðlaugur Þór Þórðarson segir að ekki hafi verið umræða um aukna gjald­töku fyr­ir aðgengi að friðlýstum svæðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir að ekki sé horft til gjaldtöku fyrir aðgengi að friðlýstum svæðum á Íslandi. Eingöngu sé verið að skoða að gjaldtaka sé í samræmi fyrir veitta þjónustu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir að ekki sé horft til gjaldtöku fyrir aðgengi að friðlýstum svæðum á Íslandi. Eingöngu sé verið að skoða að gjaldtaka sé í samræmi fyrir veitta þjónustu.

Í niðurstöðum könnunar starfshóps sem vann skýrslu sem varpa átti ljósi á stöðu friðlýstra svæða á Íslandi kemur fram að 66% svarenda sögðust vera fylgj­andi gjald­töku fyr­ir þjón­ustu á helstu ferðamanna­stöðum á friðlýst­um svæðum og í þjóðgörðum og 49% sögðust fylgj­andi gjald­töku að aðgengi á sömu stöðum.

Guðlaugur Þór segir í samtali við mbl.is að ekki hafi verið umræða um aukna gjaldtöku fyrir aðgengi þrátt fyrir að í könnuninni hafi komið fram að 49% svarenda séu hlynntir því.

„Við höfum aðallega verið að líta til þess að það sé samræmi á milli gjaldtöku og þjónustu og það er yfirgnæfandi meirihluti sem er fylgjandi því.“

„Annað hvort borgum við sem nýtum þjónustuna eða skattgreiðendur. Þetta verður aldrei ókeypis,“ segir Guðlaugur. 

Kemur til greina að láta greiða fyrir aðgengi þar sem ríkið er landeigandi?

„Við höfum ekki verið að velta því fyrir okkur. Það liggur fyrir að við erum að taka gjald fyrir þjónustu sem mér sýnist vera yfirgnæfandi stuðningur við. Það er ekki samræmi á milli þess. Það eru allir sammála því sem að þessu máli koma að við verðum að hafa góða innviði til að styrkja svæðin.

„Auðvitað eigum við eftir að fara í gegnum þessa umræðu en menn hafa fremur verið að líta til þess er kemur að þjónustunni. Alveg eins og við borgum fyrir bílastæðin hér á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að þau kosta en það er ekkert öðruvísi þegar kemur að þessum svæðum,“ segir Guðlaugur Þór.

Flestir vilji halda í almannaréttinn

Í skýrslunni eru taldir upp 16 lykilþættir og áskoranir sem huga þarf að varðandi friðlýst svæði hér á landi. Þar er lagt til að stjórnvöld taki upp vinnu við að yfirfara og skilgreina betur almannarétt í náttúruverndarlögum, en það felur í sér heimildir fólks til að ferðast um landið.

„Ég vil halda fast í almannaréttinn, og skynja mikla samstöðu um það,“ segir Guðlaugur Þór en segir þó að aðstæður hafi breyst mjög með mikilli ferðamennsku og meiri almennum áhuga á útivist.

Hann segir þetta vera eitt af því sem komið hafi upp í samskiptum nefndarmanna og viðmælenda þeirra við gerð skýrslunnar.

„Þetta er eitt af því sem við þurfum að líta til þegar við höldum áfram vinnunni,“ segir Guðlaugur Þór.

Málaflokkur sem þarfnast meiri athygli

Í skýrslunni kemur fram að breyting virðist vera á milli ára á því hvaða svæði séu heimsótt á landinu. Til dæmis var fjöldi heimsókna í Reynisfjöru árið 2018 um það bil 60% af þeim fjölda sem heimsóttu Þingvelli það ár. Á síðasta ári voru heimsóknirnar næstum því á pari.  

„Það sem ég tek út úr þessu er að Íslendingar eru meira að upplifa landið sitt. Ég held það hafi komið smá tími að við vildum ekki fara út á land því við töldum að það væri svo mikið af útlendingum,“ segir Guðlaugur Þór.

Fjöldi gesta, bæði innlendra og erlendra á helstu friðlýstu svæði …
Fjöldi gesta, bæði innlendra og erlendra á helstu friðlýstu svæði landsins.

„Við fundum það í Covid-faraldrinum þegar við vorum að ferðast að það er búið að vera gríðarlega mikil uppbygging í ferðaþjónustunni, og Ísland er líka valkostur fyrir Íslendinga,“ segir Guðlaugur Þór og bendir á að gistináttum hjá Íslendingum á Íslandi hafi aukist um 95% á milli ára.

„Það er mjög jákvæð þróun. Verkefnið okkar er að dreifa ferðamönnum á fleiri staði. Þar skipta þjóðgarðar og friðlýst svæði gríðarlega miklu máli því að náttúrumiðuð ferðaþjónusta er í mikilli sókn. Falleg náttúra er út um allt land og ekki síst á þessum svæðum þar sem lítið er af ferðamönnum,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann segir að þó þurfi alltaf að hafa í huga að þörf er á að vernda náttúruna og að þessi svæði beri ekki skaða af þó fólk fái að njóta þeirra.

„Það sem maður tekur út úr þessari skýrslu er það að þetta er málaflokkur sem við höfum kannski ekki verið nægilega mikið með augun á. Það að það séu 17 lykilþættir sem þarf að skoða sérstaklega það segir okkur að þarna er verkefni sem við þurfum að fara í,“ segir Guðlaugur Þór.

mbl.is