Elti útivistardrauminn og fór í skiptinám í Ölpunum

Fjallganga | 13. nóvember 2022

Elti útivistardrauminn og fór í skiptinám í Ölpunum

Hagfræðingurinn Knútur Magnús Björnsson hefur mikla ástríðu fyrir ferðalögum og útivist, enda veit hann fátt betra en að komast út í náttúruna og skíða, ganga, hjóla eða veiða. Knútur hefur verið duglegur að ferðast frá ungum aldri, en hann hefur einnig verið búsettur víðsvegar um heiminn. 

Elti útivistardrauminn og fór í skiptinám í Ölpunum

Fjallganga | 13. nóvember 2022

Knútur Magnús Björnsson hefur upplifað mörg ævintýri í ferðalögum sínum, …
Knútur Magnús Björnsson hefur upplifað mörg ævintýri í ferðalögum sínum, bæði innanlands og erlendis.

Hagfræðingurinn Knútur Magnús Björnsson hefur mikla ástríðu fyrir ferðalögum og útivist, enda veit hann fátt betra en að komast út í náttúruna og skíða, ganga, hjóla eða veiða. Knútur hefur verið duglegur að ferðast frá ungum aldri, en hann hefur einnig verið búsettur víðsvegar um heiminn. 

Hagfræðingurinn Knútur Magnús Björnsson hefur mikla ástríðu fyrir ferðalögum og útivist, enda veit hann fátt betra en að komast út í náttúruna og skíða, ganga, hjóla eða veiða. Knútur hefur verið duglegur að ferðast frá ungum aldri, en hann hefur einnig verið búsettur víðsvegar um heiminn. 

Knútur er 27 ára gamall Árbæingur og útskrifaðist sem hagfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2021, en í dag starfar hann sem rekstrarstjóri hjá Tannhjól-Mánafoss. Þegar Knútur var á sínu öðru ári í háskólanum ákvað hann að fara í skiptinám til Austurríkis þar sem hann upplifði algjöra útivistarparadís, en markmið hans var að nýta námið til að stunda áhugamál sín. 

Ævintýri Knúts stoppuðu þó ekki í Austurríki, en síðan þá hefur hann ferðast víðsvegar og stundar útivist af kappi. Á Instagram-reikningi Knúts má finna ljósmyndir frá ferðalögum hans sem eru vægast sagt stórbrotnar og ekki ólíklegt að þær kveiki upp í ævintýra- og ferðaþrá lesenda. 

Skíðað niður Ólafsfjörð með stórbrotnu útsýni.
Skíðað niður Ólafsfjörð með stórbrotnu útsýni. Ljósmynd/jonfromiceland

Frá Færeyjum til Nýja Sjálands

„Við fjölskyldan vorum svolítið á ferðalagi fyrstu árin mín. Við fluttumst til Færeyja eftir að ég fæddist og vorum búsett í Þórshöfn í rúmt ár, en fluttum síðan til Nýja Sjálands þar sem ég byrjaði í leikskóla í Auckland,“ segir Knútur. Eftir að fjölskyldan fluttist aftur heim ferðuðust þau mikið innanlands, en Knútur á ekki langt að sækja útivistaráhugann þar sem hann segir föður sinn vera mikinn útivistargarp.

„Mínar fyrstu ferðaminningar á Íslandi voru að fara í jeppaferðir með pabba og bróður mínum um hálendið. Við fórum saman í Þórsmörk, Landmannalaugar, Sprengisand, Fjallabak og útum allt hálendið í rauninni,“ útskýrir Knútur. 

Knútur á göngu á Laugahrauni í Landmannalaugum.
Knútur á göngu á Laugahrauni í Landmannalaugum.

Eftir að hafa verið búsettur lengst af í Árbænum fluttist Knútur aftur erlendis árið 2016, en í þetta sinn flutti hann til Daytona í Flórída á fótboltaskólastyrk, en Knútur hefur alla tíð stundað hreyfingu og æfði fótbolta frá 6 ára aldri og spilaði síðar með meistaraflokki Fylkis. 

Drauma skiptinám í „höfuðborg Alpanna“

Þegar Knútur var á sínu öðru ári í háskólanum ákvað hann að halda á vit ævintýranna enn á ný og fór í skiptinám til Austurríkis. „Ég hafði verið á ferðalagi um Ungverjaland, Króatíu og Slóveníu árið 2018 og sá þar Alpana í fyrsta sinn þegar ég var staddur við Bled-vatnið í Slóveníu. Ég man að ég ákvað þá á staðnum að ég myndi nýta námið mitt til að flytja út og upplifa Alpana betur,“ útskýrir hann. 

„Hálfu ári síðar varð Innsbruck í Austurríki fyrir valinu, en borgin er oft kölluð „höfuðborg Alpanna“ enda tæpum 500 metrum yfir sjávarmáli. Til að gera langa sögu stutta þá var þetta eitthvað mesta ævintýri sem ég hef upplifað. Ég var í skóla þar sem flestir nemendur voru skiptinemar og margir hverjir í sömu hugleiðingum og ég, að nýta námið til að stunda áhugamálin,“ segir Knútur. 

Hér skíðaði Knútur í 3200 metra hæð yfir sjávarmáli á …
Hér skíðaði Knútur í 3200 metra hæð yfir sjávarmáli á skíðasvæðinu Stubai í góðra vina hópi.

„Þarna fór maður í kennslustund og aftar í stofunni voru skíði og snjóbretti, en fólk fór beint eftir skóla upp í fjall enda var kláfur frá bænum beint upp á skíðasvæðið Nordkette í Innsbruck. Ég fór á öll helstu skíðasvæði Austurríkis þennan veturinn, þar á meðal voru Ischgl, St Anton, Sölden, Stubai Gletcher, Kuthai og Axemer Lizum svo einhver þeirra séu nefnd, en öll svæðin voru í 50 mínútna radíus frá Innsbruck,“ bætir hann við. 

Fjallaskíðatíminn á Tröllaskaga í uppáhaldi

Aðspurður segir Knútur skíðasvæðin í Austurríki klárlega standa upp úr, enda bjó hann nánast á skíðasvæðunum í skiptinámi sínu. „Ég fór örugglega á skíði 60 daga þennan vetur, en svo hef ég líka skíðað nokkrum sinnum í Kanada,“ segir Knútur. 

Góður hópur á toppi Kaldbaks í Eyjafirði.
Góður hópur á toppi Kaldbaks í Eyjafirði. Ljósmynd/jonfromiceland

Á Íslandi er Tröllaskaginn í mestu uppáhaldi hjá Knúti. „Ég hef verið duglegur að fara síðustu ár og toppað flesta tinda þar. Það er svo gaman að vera á Tröllaskaganum þegar fjallaskíðatíminn er - það eru bílar út í öllum köntum, þyrlur á sveimi og allir að skíða,“ segir Knútur og bætir við að uppáhaldsskíðasvæðin á Íslandi séu Oddsskarð og Hlíðarfjall.

Gengið upp á Múlakollu í Tröllaskaganum.
Gengið upp á Múlakollu í Tröllaskaganum.

Finnur hugarró í útivist

Knútur segist upplifa mikla hugarró í náttúrunni, en hann hefur verið duglegur að fara í fallegar fjallgöngur víðsvegar um Ísland. „Móskarðshnjúkar og Vífilsfell hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér, enda stutt að fara frá Reykjavík. Ég skaust oft þangað í lærdómspásum í háskólanum til að hvíla hausinn,“ segir hann. 

„Ég mæli eindregið með útsýninu frá toppi Brennisteinsöldu í Landmannalaugum,“ …
„Ég mæli eindregið með útsýninu frá toppi Brennisteinsöldu í Landmannalaugum,“ segir Knútur.

Knútur hefur lengi stundað hjólreiðar, en í dag er hann aðallega á fjallahjóli. „Ég hef verið að hjóla síðan ég var krakki, en ég var mikið í fótbolta og hjólaði á æfingar en fór líka út í það að vera á fjallahjóli. Seinna meir þurfti ég hins vegar að hætta í hjólamennskunni þar sem fótboltinn tók yfir, en þegar ég fluttist til Austurríkis tók ég fjallahjólið upp aftur,“ segir Knútur. 

„Ég fjárfesti í nýju fulldempuðu fjallahjóli þegar vorið nálgaðist og eftir skíðavertíðina þá bjó ég enn þá upp í fjalli, nema þá á hjóli. Það var frábært að upplifa Alpana á fjallahjóli, en ég vil meina að sumrin í Ölpunum séu svolítið falin fyrir okkur Íslendingum. Við erum sífellt að fara þangað til að skíða, en á sumrin eru öll skíðasvæðin opin og fólk fer í göngur eða eins og ég, með fjallahjólin upp í kláfinum,“ útskýrir hann. 

Knútur stundaði fjallabrun en fór einnig oft í dagsferðir. „Þá kleif ég oft um 3000 metra á dag og fór á milli skála þar sem maður borðaði og jafnvel gisti,“ segir hann. 

Knútur í hjólaferð í Austurríki.
Knútur í hjólaferð í Austurríki.

„Veiðin er hugleiðslan mín“

Á Íslandi þykir Knúti skemmtilegt að hjóla Svínaskarðið sem liggur á milli Móskarðshnjúka og Skálafells. „Ég hef reynt að hafa það fyrir reglu að fara að minnsta kosti einu sinni á sumrin frá Reykjavík yfir í sumarbústaðinn okkar í Kjósinni á fjallahjóli. Þá fer ég í gegnum Svínaskarðið og yfir í Svínadal sem leiðir mig svo inn í Kjósina. Þetta er frekar tæknileg leið svo ég mæli ekki með henni nema fyrir vant fjallahjólafólk,“ segir Knútur. 

Slakað á í sumarbústaðnum eftir hjólatúr frá Reykjavík.
Slakað á í sumarbústaðnum eftir hjólatúr frá Reykjavík.

„Annars er Hengils-svæðið frábært til að fjallahjóla og ekki slæmt að henda sér í laugina í Reykjadalnum í leiðinni,“ bætir hann við. 

Til móts við hasarinn á fjallahjólinu þykir Knúti gott að ná sér niður í veiði. „Ég hef stundað stangaveiði frá því ég man eftir mér og hef veitt um allt land. Ég nýt þess mikið að fara í veiði í svolítið krefjandi aðstæðum þar sem er mikið um labb og maður þarf að hafa fyrir því. En að sama skapi er veiðin hugleiðslan mín og þar gleymi ég mér alveg oft rétt eins og þegar maður er í fjallgöngu eða á fjallabretti,“ segir hann. 

Nýtur sín mest uppi í sumarbústað

Uppáhaldsstaður Knúts er Meðalfellsvatn í Kjós, en þar er fjölskylda hans sumarbústað. „Pabbi minn býr þar núna og ég er mjög duglegur að fara í Kjósina. Þarna á maður sínar fyrstu minningar, enda er þetta eini staðurinn sem hefur haft ákveðna festu í mínu lífi síðan ég fæddist,“ segir Knútur. 

„Ég hef klifið öll fjöll þar í kring og nýt þess mikið að fara þangað til þess að slaka á og veiða í vatninu,“ bætir hann við. 

Á göngu um Landmannalaugar.
Á göngu um Landmannalaugar.

Skagafjörðurinn er einnig í miklu uppáhaldi hjá Knúti. „Ég hef verið leiðsögðumaður þar í stangaveiði, fjallgöngu, á fjallahjóli og fleira,“ segir hann. „Annar staður sem ég held mikið upp á er Mjóifjörður á Austfjörðunum, en hann á sérstakan stað hjá mér. Það er klikkuð upplifun að keyra niður brattann veginn og sjá Klifbrekkufossana,“ bætir Knútur við. 

„Mjóifjörður er bara aðgengulegur á bíl á sumrin. Annars lokast fjörðurinn á veturna og þá er bara hægt að fara snjóleiðina,“ útskýrir Knútur. 

Sundsprettur á Sigluferði eftir langan dag á fjallaskíðum á Tröllaskaganum.
Sundsprettur á Sigluferði eftir langan dag á fjallaskíðum á Tröllaskaganum.

Styttri ferðir framundan

Framundan eru spennandi tímar hjá Knúti. „Fjölskyldan er að stækka núna á næstu vikum þannig það eru ekki mörg ferðalög á dagskrá. Líklega mun ég halda fjallaskíðunum nálægt bænum þennan veturinn og skreppa í dagstúra á Hengils-svæðið, Skálafell og Bláfjöll,“ segir Knútur. 

Skíðað niður Snæfellsjökul í fallegu veðri snemma í janúarmánuði.
Skíðað niður Snæfellsjökul í fallegu veðri snemma í janúarmánuði.
mbl.is