Ferð í fremstu víglínu

Úkraína | 17. nóvember 2022

Ferð í fremstu víglínu

Því fylgir uggur og eftirvænting að vera á ferð með hermönnum í fremstu víglínu í Úkraínu og veitir innsýn sem er í senn sérkennileg og ógnvekjandi. Við blasir eyðilegging og ummerki um óskipulagt undanhald á meðan sprengjum rignir yfir. Jón Gauti Jóhannesson, fréttaritari fyrir Morgunblaðið í Úkraínu, var á ferð í norðurhluta Donetsk-héraðs á dögunum ásamt eiginkonu sinni Oksönu Jóhannesson. 

Ferð í fremstu víglínu

Úkraína | 17. nóvember 2022

Því fylgir uggur og eftirvænting að vera á ferð með hermönnum í fremstu víglínu í Úkraínu og veitir innsýn sem er í senn sérkennileg og ógnvekjandi. Við blasir eyðilegging og ummerki um óskipulagt undanhald á meðan sprengjum rignir yfir. Jón Gauti Jóhannesson, fréttaritari fyrir Morgunblaðið í Úkraínu, var á ferð í norðurhluta Donetsk-héraðs á dögunum ásamt eiginkonu sinni Oksönu Jóhannesson. 

Því fylgir uggur og eftirvænting að vera á ferð með hermönnum í fremstu víglínu í Úkraínu og veitir innsýn sem er í senn sérkennileg og ógnvekjandi. Við blasir eyðilegging og ummerki um óskipulagt undanhald á meðan sprengjum rignir yfir. Jón Gauti Jóhannesson, fréttaritari fyrir Morgunblaðið í Úkraínu, var á ferð í norðurhluta Donetsk-héraðs á dögunum ásamt eiginkonu sinni Oksönu Jóhannesson. 

Hér birtist hluti greinar sem fyrst birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins auk mynda og myndskeiðs sem tekin eru á vettvangi. Rétt er að vara við sumum myndunum og efni myndskeiðsins, en þau sýna m.a. hinn hræðilega raunveruleika stríðs. Myndbandið er ekki textað, en segir sína sögu. Lengri útgáfu þessarar frásagnar er að finna í Sunnudagsblaðinu.

Lík rússnesks hermanns við fáfarin sveitaveg. Hann féll í bardögum …
Lík rússnesks hermanns við fáfarin sveitaveg. Hann féll í bardögum um þorpið fyrir fáeinum dögum. mbl.is/Oksana Jóhannesson

 

Svat, yfirmaður hersveitarinnar Karpatska Sítsj, talar í talstöð við hermenn …
Svat, yfirmaður hersveitarinnar Karpatska Sítsj, talar í talstöð við hermenn til að kanna aðstæður áður en við leggjum af stað þangað mbl.is/Oksana Jóhannesson

 

Þegar við ætlum að leggja af stað til þorps í grennd við bæinn Lýman með úkraínskri hersveit gerir rússneski flugherinn árás. Tvær Sukhoi-34 orrustusprengjuþotur fljúga yfir okkur. Þotugnýrinn er yfirgnæfandi og eldský rísa upp frá útjaðri þorpsins og síðan heyrast háværar sprengingar. Við fylgjumst agndofa með þessu sjónarspili, enda ekki séð flughersárás í svona lítilli fjarlægð áður. Svat, yfirmaður hersveitarinnar, spyr hvort við viljum enn fara til þorpsins. Svarið er já, enda sjaldan sem gefst færi á að fara með hersveit í fremstu víglínu. Ríkjandi tilfinning er blanda af uggi og eftirvæntingu. Þetta eru tilfinningar sem við þekkjum vel eftir að hafa verið í borgum í Donbas-héraði, sem sættu linnulausum skotárásum, borgum á borð við Síversk, Soledar og Bakhmút, borgum sem enn er barist um.

Rússneskur skriðdreki, sem skilinn var eftir á flótta rússneska hersins, …
Rússneskur skriðdreki, sem skilinn var eftir á flótta rússneska hersins, er nú notaður af úkraínska hernum. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Þegar þú ferð í fremstu víglínu með hermönnum þá færðu einstaka innsýn í heim sem er í senn sérkennilegur og ógnvekjandi – og markmið þitt er að sýna lesendum hvernig hann lítur út í máli og myndum.

Lík rússnesks hermann skammt frá þorpinu sem Jón heimsótti. Hermaðurinn …
Lík rússnesks hermann skammt frá þorpinu sem Jón heimsótti. Hermaðurinn hefur fengið skot í höfuðið. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Þegar við nálgumst stífluna bendir Svat okkur á lík rússnesks hermanns. Hermaðurinn er með skotsár á höfði, ennið innfallið og annað augað hefur losnað úr augntóftinni. Hermaðurinn hefur líklega fallið í bardögum fyrir nokkrum dögum, segir Svat okkur. Hann stendur yfir líkinu og þrumar: „Hvern fjandann varstu að gera hér á úkraínsku landi. Hver bauð þér hingað? Þú hefur nú hlotið makleg málagjöld.“

Klasasprengjuárás

Þegar við erum í stíflunni hefst skotárás. Rússar eru að skjóta klasasprengjum á þorpið. Það heyrist stór sprenging og síðan, eins og hermenn hafa sagt okkur, eftir 12 sekúndur margar smásprengingar þegar klasarnir nálgast jörðina. Við hlaupum ásamt Svat neðst í stífluna og fleygjum okkur til jarðar. Árásin er greinilega nálægt okkur því Svat, sem yfirleitt lætur sprengingar ekki hafa áhrif á sig, leitar skjóls með okkur neðst í stíflunni. „Við höldum ótrauð áfram, er það ekki?“ spyr Oksana. „Auðvitað, við erum jú Úkraínumenn“, segir Svat og brosir. 

Svat gefur okkur fyrirmæli um hvert skal halda eftir klasasprengjuárás …
Svat gefur okkur fyrirmæli um hvert skal halda eftir klasasprengjuárás Rússa. Við fleygðum okkur til jarðar í stíflubotninum þegar árásin hófst. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Það sem hefur vakið athygli mína margoft á átakasvæðum í Úkraínu er skopskyn og yfirvegun hermanna. Það hlýtur að vera sérstök tilfinning að vita af því að hinum megin víglínunnar er hópur manna sem af ákefð er að reyna að drepa þig nótt sem nýtan dag með alls kyns drápsvopnum. Það þarf stáltaugar, trúfestu og skopskyn til að komast í gegnum sérhvern dag. Herprestur í Soledar sagði okkur að það væru engir guðleysingjar í fremstu víglínu. Trúin gefi mönnum styrk og von um að lifa af, að það hver deyi og hver lifi sé ekki fullkomlega handahófskennt. Trúin sé tilraun til að ná stjórn á eigin örlögum og sætta sig við sitt hlutskipti.

Hluti af hersveitinni sem við fórum með til þorpsins. Við …
Hluti af hersveitinni sem við fórum með til þorpsins. Við leituðum skjóls í byggingunni að baki þegar Rússar gerðu klasasprengjuárás. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Það sem úkraínski herinn hefur fyrst og fremst umfram þann rússneska er baráttuþrek. Úkraínumenn vita fyrir hverju þeir eru að berjast – fyrir fjölskyldu, heimahaga, tilverurétti, frelsi, þjóð og ríki. Rússar berjast fyrir landþjófnað, sem skýrir mikinn skort á baráttuþreki og liðhlaup í rússneska hernum.

Leitað skjóls í skotgröfum

Við hlaupum yfir stífluna eftir sprengjuárásina. Liðsforingi á svæðinu tekur á móti okkur við enda hennar og leiðir okkur strax í skotgröf skammt frá. Við erum nú um 300 metra frá aðaltorgi þorpsins. Klasasprengjuárásirnar halda áfram á þorpið og við bíðum átekta ásamt 10 manna hersveit. Þegar hlé hefur verið á sprengjuárásum í um 10 mínútur förum við úr skotgröfunum og stefnum til þorpsins. Sprengjuárás hefst  á ný. Við snúum aftur með hraði í skotgröfina og heyrum klasana springa skammt frá okkur. Hermennirnir eru þögulir, kveikja í sígarettum og bíða átekta, augnaráð þeirra einbeitt. Þeir þurfa að færa þeim hermönnum sem verjast í þorpinu skotfæri og vistir.

Lík tveggja rússneskra hermanna á torginu í þorpinu. Úkraínumenn náðu …
Lík tveggja rússneskra hermanna á torginu í þorpinu. Úkraínumenn náðu þorpinu á sitt vald fyrir nokkrum dögum, en Rússar eru að reyna að ná því á sitt vald aftur. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Það hafa ekki verið sprengjuárásir í dágóða stund og Svat segir að nú munum við leggja af stað. Það verður að vera 10 metra bil á milli manna til að minnka líkur á að mikið mannfall verði ef sprengjur skyldu falla nálægt okkur. Þetta er rökrétt, en sú staðreynd að þú ert í raun einn á ferð og berskjaldaður vekur ótta. Þú ert á opnu svæði einn þíns liðs og hefur engan sálfræðilegan styrk eða líkamlega vernd af því að vera í hópi. Ef eitthvað gerist, sprengjuárás, þá ert þú sá eini sem berð ábyrgð á viðbrögðum þínum. Ein af ástæðum þess að herir fyrr á tímum börðust í línulegum fylkingum, með hermenn þétt hver að öðrum, var einmitt sálfræðilegur styrkur. Þú finnur fyrir miklum ónotum þegar þú ert einn á ferð.

Svat stendur við lík rússneskra hermanna og þrumar: „Það er …
Svat stendur við lík rússneskra hermanna og þrumar: „Það er þvílíkt hatur og þvílík reiði hjörtum okkar. Þetta er okkar land og á því munuð þið landþjófar aldrei lifa.“ mbl.is/Oksana Jóhannesson
mbl.is