„Ábyrgð okkar er mikil“

Kjaraviðræður | 25. nóvember 2022

„Ábyrgð okkar er mikil“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að kjaraviðræðurnar verði einfaldlega að taka þann tíma sem þarf því staðan sé flókin og hafi orðið enn flóknari eftir vaxtahækkun Seðlabankans í vikunni. 

„Ábyrgð okkar er mikil“

Kjaraviðræður | 25. nóvember 2022

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, að loknum fundinum með Katrínu Jakobsdóttur …
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, að loknum fundinum með Katrínu Jakobsdóttur í Stjórnarráðinu í gærmorgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að kjaraviðræðurnar verði einfaldlega að taka þann tíma sem þarf því staðan sé flókin og hafi orðið enn flóknari eftir vaxtahækkun Seðlabankans í vikunni. 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að kjaraviðræðurnar verði einfaldlega að taka þann tíma sem þarf því staðan sé flókin og hafi orðið enn flóknari eftir vaxtahækkun Seðlabankans í vikunni. 

„Staðan er erfið. Við erum búin að liggja yfir þessu af fullum heilindum og af krafti. Ég hef nú tekið þátt í kjarasamningagerð í ein nítján ár. Menn mættu sannarlega til leiks einbeittir í því að reyna að ná skammtímasamningi þannig að við gætum komið launahækkunum hratt og örugglega til okkar félagsmanna. Enda veitir ekki af vegna þeirra kostnaðarhækkana sem á okkar fólki hafa dunið. Ábyrgð okkar um að ná saman er mikil og við gerum okkur öll grein fyrir því,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is og nefnir að kjaramálin séu flókin þar sem staða fólks á vinnumarkaði sé mismunandi.

„Ég er í þessu fyrir hönd Starfgreinasambandsins og þar erum við náttúrlega að véla með lífsviðurværi þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi á berstrípuðum töxtum. Við höfum lagt áherslu á að ná inn launabreytingum sem munu koma okkar fólki til góða. Hagsmunir hópanna eru mismunandi eftir því hvar fólk er í tekjustiganum, uppi eða niðri eða í miðjunni. Mismunandi hagsmunir liggja þar að baki. Vinnan sem laut að óskum okkar, varðandi verkafólk á töxtum, gekk ágætlega. Ég var bara nokkuð bjartsýnn á að við myndun ná að fínpússa það saman en ágreiningur var hins vegar um nokkur atriði sem gerði það að verkum að viðræðum var frestað fram á þriðjudag.“

„Verkefnið fer ekki frá okkur“

Vilhjálmur bendir á að óleystur vandi hverfi ekki að sjálfu sér. „Eitt er víst að þetta verkefni fer ekki frá okkur. Eitt af því sem ég hef lært er að á endanum munum við ganga frá kjarasamningum. Þetta verður bara að fá að taka þann tíma sem þarf. Ég reyndar legg ofboðslega áherslu á að koma launahækkunum hratt til fólksins því það skiptir máli til mæta þeim álögum sem lagðar hafa verið á fólk,“ segir Vilhjálmur en á fundum að undanförnu hefur verið rætt um vaxtastöðugleika. 

Vaxtahækkun Seðlabankans í vikunni féll í grýttan jarðveg hjá SGS, …
Vaxtahækkun Seðlabankans í vikunni féll í grýttan jarðveg hjá SGS, VR og SA. Ásgeir Jónsson gegnir embætti seðlabankastjóra. mbl.is/Hákon

„Slíkar tryggingar voru meðal þess sem rætt var í gærmorgun. Við áttum jú einnig fund með forsætisráðherra og allt hangir þetta saman. Við verðum að krosslengja fingur og vona það besta. Staðan er flókin og erfið. Við þurfum ekkert að fara í grafgötur um að ákvörðun Seðlabanks olli okkur ofboðslegum vonbrigðum. Seðlabankinn sýndi þannig á spilin að þeir ætli ekki að taka þátt í þessari vegferð með okkur.“

Hefur Vilhjálmur skoðun á þeirri ákvörðun VR að slíta viðræðum við SA eins og tilkynnt var um í morgun?

 „Ég sagði á fundinum í gær að hagsmunir hópanna eru mismunandi. Það er bara eðlilegt að tekist sé á og allir verja sína félagsmenn enda er það frumskylda stéttarfélaganna. Ég sýni þessari ákvörðun VR fullan skilning,“ segir Vilhjálmur Birgisson. 

mbl.is