„Við munum þrauka“

Úkraína | 25. nóvember 2022

„Við munum þrauka“

Úkraínska forsetafrúin Olena Selenska segir í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að landar hennar muni þreyja þorrann þrátt fyrir vetrarkulda í ítrekuðu rafmagnsleysi af völdum flugskeytaárása Rússa.

„Við munum þrauka“

Úkraína | 25. nóvember 2022

Olena Selenska kveður þjóð sína þreyja þorrann í styrjöldinni. Sigur …
Olena Selenska kveður þjóð sína þreyja þorrann í styrjöldinni. Sigur í hennar augum sé að geta snúið aftur til eðlilegs lífs. AFP/Andre Pain

Úkraínska forsetafrúin Olena Selenska segir í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að landar hennar muni þreyja þorrann þrátt fyrir vetrarkulda í ítrekuðu rafmagnsleysi af völdum flugskeytaárása Rússa.

Úkraínska forsetafrúin Olena Selenska segir í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að landar hennar muni þreyja þorrann þrátt fyrir vetrarkulda í ítrekuðu rafmagnsleysi af völdum flugskeytaárása Rússa.

„Við höfum mætt ótal áskorunum, séð fjölda fórnarlamba og ólýsanlega eyðileggingu svo rafmagnsleysið er ekki það sem hrjáir okkur mest,“ segir forsetafrúin og bendir á nýlega skoðanakönnun sem leiddi í ljós að 90 prósent íbúa landsins kváðust sætta sig við rafmagnstruflanir í tvö til þrjú ár svo lengi sem aðild fengist að Evrópusambandinu.

Úkraínskur skriðdreki á ferð í austurhluta landsins í gær.
Úkraínskur skriðdreki á ferð í austurhluta landsins í gær. AFP/Anatolii Stepanov

„Það er auðvelt að hlaupa maraþon þegar þú veist hve margir kílómetrar það er,“ heldur hún áfram, hins vegar viti Úkraínumenn ekki hvaða vegalengd liggur fram undan og sú óvissa sé krefjandi í vetrarkuldanum. Stríðið muni herða þjóðina.

„Munum ekki leggja niður vopn“

Hún rifjar upp fyrstu dagana eftir innrásina og ávörp manns hennar, Selenskís forseta, til þjóðar sinnar sem hann hvatti til dáða. „Ég er hérna. Við munum ekki leggja niður vopn okkar,“ vitnar hún í forsetann sem við sama tækifæri greindi frá því að Rússar hefðu útnefnt hann skotmark númer eitt og fjölskyldu hans skotmark númer tvö.

Segist Selenska sakna samverustunda fjölskyldunnar en af öryggisástæðum er forsetinn í byrgi í embættisbústað sínum og kona hans í öðru byrgi í nágrenninu með börnin. Talandi um börn nefnir Selenska þjáningar úkraínskra barna og fordæmir það sem hún kallar „hungurleika“ Rússa.

Flækingskettir éta á lóð fjölbýlishúss í Lyman í Donetsk-héraðinu í …
Flækingskettir éta á lóð fjölbýlishúss í Lyman í Donetsk-héraðinu í gær. AFP/Anatolii Stepanov

Hún hefur sjálf verið iðin við að ræða við erlenda þjóðarleiðtoga, halda ræður og fyrirlestra. Fór hún þess til dæmis á leit við Bandaríkjaþing að það stæði fyrir vopnasendingum til Úkraínu. „Þetta var ekki pólitík, þetta var það sem ég varð að segja,“ svarar hún spurningu BBC um hvort forsetafrú, sem hafi ekkert opinbert pólitískt vald, hafi farið yfir strikið.

„Við skiljum öll að án sigurs verður enginn friður. Það væri þá falskur friður sem ekki yrði langlífur. Sigur í hennar augum er að geta snúið aftur til eðlilegs lífs. „Það er eins og við séum með allt „á pásu“ núna. En við þraukum,“ segir Olena Selenska að lokum.

BBC

mbl.is