Heiðarlegra að hækka vexti strax

Vextir á Íslandi | 7. desember 2022

Heiðarlegra að hækka vexti strax

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir það hafa verið heiðarlegra að hækka stýrivexti strax, fremur en að bíða þangað til kjaraviðræðum lyki. 

Heiðarlegra að hækka vexti strax

Vextir á Íslandi | 7. desember 2022

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Hákon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir það hafa verið heiðarlegra að hækka stýrivexti strax, fremur en að bíða þangað til kjaraviðræðum lyki. 

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir það hafa verið heiðarlegra að hækka stýrivexti strax, fremur en að bíða þangað til kjaraviðræðum lyki. 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og LÍV, sagði í lok nóvember að vaxtahækkun Seðlabankans upp á 0,25 prósentustig hefði rutt út þeirri vinnu sem hefði verið unn­in við samn­inga­borðið á milli VR og SGS ann­ars veg­ar og Samtaka atvinnulífsins (SA) hins veg­ar.

„Þetta eru þrír aðilar sem fara með hagstjórnina, Seðlabankinn, ríkisvaldið og vinnumarkaðurinn. Við viljum vitaskuld vinna með vinnumarkaðnum en á sama tíma getum við ekki frestað aðgerðum eins og við teljum rétt að gera,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is.

„Að baki svona vaxtaákvörðun eins og þeirri síðustu liggur margra mánaða vinna. Útgáfa Peningamála samhliða birtingu á efnahagsspám,“ segir Ásgeir og bendir á að hann ráði ekki vöxtum einn heldur sé það peningastefnunefnd sem taki ákvörðun um hækkun stýrivaxta.

Geta ekki hlýtt hagsmunahópum

„Núna er það þannig að það hittist svona á að þessi fundur er á sama tíma og þeir voru að semja. Ég taldi það sjálfur vera heiðarlegra að hækka vexti strax þannig þeir vissu að hverju þeir gengju heldur en að koma aftan að þeim,“ segir Ásgeir en næsti vaxtaákvörðunarfundur er í febrúar.

„Við sjáum til hvernig þetta þróast, hvort verðbólga sé ekki örugglega á leiðinni niður. Við bindum vonir við að það sem við höfum gert sé nóg,“ segir hann. 

„Við verðum að halda okkur við þá ferla sem við erum með og eiga að tryggja faglegar ákvarðanir. Við getum ekki hlýtt hagsmunaaðilum. Það þýðir ekki að við séum á móti samningum en við getum ekki gefið eftir sjálfstæði bankans.“

Aukin einkaneysla ástæða hækkana 

Ásgeir sagði eftir þarsíðustu tilkynningu um hækkun stýrivaxta að boltinn væri nú hjá vinnumarkaðnum. Þrátt fyrir það hækkaði Seðlabankann stýrivexti áður en skrifað var undir nokkra af þeim stóru kjarasamningum sem unnið var að.

„Við vorum að sjá aukna einkaneyslu. Við töldum okkur þurfa að bregðast við því. Ég lít á það þannig núna að vinnumarkaðurinn hafi tekið við boltanum að einhverju leyti. Þeir hafa samið, það gekk tiltölulega skjótt fyrir sig,“ segir Ásgeir um samning SGS og SA.

„Þetta er meiri hækkun heldur en Seðlabankinn hefði viljað sjá en ég hef alveg skilning á því að fólk vilji bæta sér upp þessa miklu verðbólgu sem hefur gengið yfir. En það hvílir síðan á okkur að tryggja að þessar hækkanir skili einhverjum kaupmætti. Við höfum næsta ár til þess að ná verðbólgunni niður og sýna vinnumarkaðnum fram á árangur,“ segir Ásgeir.

„Við getum ekki fengið samtímis lægri verðbólgu og lægri vexti, það kemur síðar. Núna er forgangsmálið að ná verðbólgunni niður. Ég veit að þessi tæki bíta, það er ekkert gamanmál að gera þetta, en til þess að ná verðbólgunni niður verðum við að sjá aðhald.“

Meiri launahækkanir en gert var ráð fyrir

Ásgeir segir Seðlabankann ekki hafa metið nýjan kjarasamning SGS og SA að fullu en í honum séu töluvert meiri launahækkanir en gert hafði verið ráð fyrir.

„Það sem einkennir þennan samning er tvennt. Í fyrsta lagi að það kemur tiltölulega mikil greiðsla út strax. Það er gott fyrir fólk að fá peninga strax í hendurnar í verðbólgu. Annað er að þetta er stuttur samningur sem endurspeglar þá óvissu sem er þegar til staðar í svo mörgu.“

Hann heldur áfram: „Þessi uppsveifla núna er sérstök í íslensku samhengi því íslensk heimili eru ekki að slá lán fyrir þessari neyslu.

Við höfum hækkað vexti tiltölulega skarpt. Við vorum fyrsti vestræni seðlabankinn til þess að hækka vexti og við erum búin að hækka þá tíu sinnum. Við erum að vonast til þess að við sjáum verulegan árangur af þessum aðgerðum þegar kemur fram á næsta ár.“

mbl.is