Gekk oft yfir á næsta bæ til að spila félagsvist

Jóla jóla ... | 22. desember 2022

Gekk oft yfir á næsta bæ til að spila félagsvist

Þorsteinn Roy Jóhannsson, ljósmyndari og landsliðsmaður í utanvegahlaupum, segist vera frekar hógvær þegar kemur að jólaskrauti og -undirbúningi en leggur áherslu á að njóta hátíðanna með vinum og fjölskyldu. Þetta kemur fram í Jólablaði Nettó: 

Gekk oft yfir á næsta bæ til að spila félagsvist

Jóla jóla ... | 22. desember 2022

Þorsteinn Roy Jóhannsson, ljósmyndari og landsliðsmaður í utanvegahlaupum.
Þorsteinn Roy Jóhannsson, ljósmyndari og landsliðsmaður í utanvegahlaupum.

Þorsteinn Roy Jóhannsson, ljósmyndari og landsliðsmaður í utanvegahlaupum, segist vera frekar hógvær þegar kemur að jólaskrauti og -undirbúningi en leggur áherslu á að njóta hátíðanna með vinum og fjölskyldu. Þetta kemur fram í Jólablaði Nettó: 

Þorsteinn Roy Jóhannsson, ljósmyndari og landsliðsmaður í utanvegahlaupum, segist vera frekar hógvær þegar kemur að jólaskrauti og -undirbúningi en leggur áherslu á að njóta hátíðanna með vinum og fjölskyldu. Þetta kemur fram í Jólablaði Nettó: 

Þorsteinn Roy Jóhannsson er tiltölulega nýkominn heim eftir að hafa keppt með íslenska landsliðinu í utanvegahlaupum í Chiang Mai í Taílandi í byrjun nóvember.

„Hlaupið var 80 km langt með tæplega 5.000 metra hækkun. Það var mjög krefjandi vegna mikils hita en brautin var ótrúlega skemmtileg. Hlaupið var um fjallendar uppsveitir Chiang Mai og fengum við að sjá ótrúlega fallegan hluta Taílands í brautinni. Ég kláraði hlaupið á 9 klukkustundum og 42 mínútum, sem ég er mjög stoltur af,“ segir Þorsteinn Roy. „Hins vegar veit ég að ég á nóg inni fyrir næstu áskoranir og er strax farinn að hlakka til að keppa á stóra sviðinu á ný. Það er eitthvað svo ótrúlega gefandi við það að gefa sig allan í svona verkefni. Það krefst margra mánaða undirbúnings og keppnisdagurinn sjálfur er í rauninni bara lítill hluti af ferlinu. Þess vegna er um að gera að njóta þess að hlaupa, hugsa vel um sig og æfa vel með góðum vinum. Sá vinnur sem skemmtir sér best!“

Samverustundir í skammdeginu

Aðspurður út í jólaundirbúninginn segir Þorsteinn Roy hann vera nokkuð hófstilltan. „Við setjum upp jólaseríur og ljós til þess að lýsa upp skammdegið, bökum smá og reynum að hafa það notalegt. Ég á dóttur sem verður tveggja ára snemma á nýju ári og það er virkilega gaman að gera eitthvað jólalegt með henni. Við fjölskyldan bökuðum hollar piparkökur saman um daginn sem slógu rækilega í gegn, bæði baksturinn og kökurnar sjálfar.“

Samveran er Þorsteini Roy mikilvægust. „Mér finnst skipta mestu máli að njóta með vinum og fjölskyldu. Jólatíminn er alltaf ljós og skemmtilegur punktur í skammdeginu í desember og mér finnst þetta mjög notalegur tími þrátt fyrir stutta daga og mikið myrkur. Það er góður andi í samfélaginu og allir að reyna að láta sér líða vel og gera eitthvað skemmtilegt.“

Spilakvöld og piparkökur

Þótt Þorsteinn Roy vilji helst ekki vera of vanafastur finnst honum jólin vera hátíð hefðanna.

„Um jólin mega allir halda fast í sínar hefðir fyrir mér; það er gaman að kynnast þeim sem flestum. Hefðir, sérstaklega jólahefðir, vekja mikla nostalgíu og ég tengi alveg við að fá mér sopa af jólaöli sem kveikir einhverja góða jólaminningu frá því að ég var barn. Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að fá heimagert laufabrauð með smjöri og sopa af jólaöli einhvern tímann yfir hátíðirnar.“

Þorsteinn Roy ólst upp í Svínafelli í Öræfum og fjölskylda hans var alltaf með heimagert London-lamb í jólamatinn.

„Mér finnst það mjög jólalegt út af hefðinni einni saman. En núna finnst mér gaman að breyta til og prófa alls konar nýtt. Það sem er á boðstólum skiptir mig ekki öllu máli; ég hef aldrei fengið vondan mat á jólunum. Jólamaturinn stendur alltaf fyrir sínu, með öllu sínu meðlæti.“ 

Hann hélt mikið upp á spilakvöldin í sveitinni.

„Ég man eftir því þegar ég var yngri. Þá gengum við oft yfir á næsta bæ til að spila félagsvist. Þessi spilakvöld entust oftast langt fram á nótt og það var mikið hlegið. Það er gaman að rifja upp svona minningar af því að nú gerir maður þetta ekki lengur, búandi í Reykjavík. Það er reyndar spurning hvort maður ætti ekki bara að taka upp á þessu hérna fyrir sunnan? Ef nágrannar mínir lesa þetta, mega þeir endilega bjóða yfir í spilakvöld og piparkökur!“

Þorsteinn Roy bætir við að honum finnist ánægjulegt að upplifa jólin með augum dóttur sinnar.

„Síðustu jól voru fyrstu jól dóttur minnar og það var mjög gaman að fylgjast með hennar upplifun af öllu þessu hátíðarstússi. Ég held að það verði enn þá skemmtilegra í ár þar sem hún er orðin árinu eldri og skilur mun meira hvað er að gerast.“ 

Hreyfing, slökun og næring

Þorsteini Roy finnst hann slaka best á í kjölfar æfingar.

„Það er alltaf best að slaka á þegar maður er búinn að hreyfa sig eða gera eitthvað yfir daginn. Mér finnst nauðsynlegt að hreyfa mig í jólafríinu og að nýta þessa frídaga í eitthvað skemmtilegt. Ef veðrið er gott er tilvalið að skella sér í fjallgöngu eða gott fjallahlaup, til dæmis. Ég reikna fastlega með því að vera duglegur að æfa inn á milli rólegheitastunda í jólafríinu. Það gerir afslöppunina mun betri.“

Honum finnst gaman að elda og gera tilraunir í eldhúsinu.

„Ég hef gaman af því að elda eftir nýjum uppskriftum og einnig að sleppa uppskriftinni og blanda alls konar dóti saman og sjá hvort það bragðist ekki bara ágætlega. Ég væri að ljúga ef ég segði ykkur að það hefði alltaf heppnast vel!“

Þorsteinn Roy gerir hins vegar reglulega heimagert múslí eftir uppskrift meistarakokksins Frederik Bille Brahe.

„Uppskriftin hentar jafnvel um jólin sem og í sumarfríinu en ég mæli með að skera niður mandarínur og jafnvel mylja eina piparköku yfir múslíið í jógúrtskálinni til þess að setja smá jólabrag á þetta.“ 

Heimagert múslí að hætti Þorsteins.
Heimagert múslí að hætti Þorsteins.

Hráefni

150 g heslihnetur

150 g möndlur

140 g graskersfræ

140 g sólblómafræ

140 g sesamfræ

400 g grófir hafrar 

10 g salt

125 g ólífuolía (hágæðaolía)

250 g hunang

1 vanillustöng

Góðgætið tilbúið til neyslu.
Góðgætið tilbúið til neyslu.

Aðferð

Best er að blanda þurrefnunum saman í stórri skál. Skálin ætti að vera hálffull svo það sé nóg pláss fyrir næstu skref. Ég sker hneturnar niður til þess að hafa bitana aðeins minni. Hunang og ólífuolía eru sett í stóran pott. Fræin eru skröpuð úr vanillustönginni og bæði fræjum og stöng er bætt út í pottinn. Leyfið innihaldinu að hitna það mikið að það myndast froða og umfangið tvöfaldist eða þrefaldist. 

Hellið úr pottinum yfir þurrefnin í skálinni og hrærið vel með sleif. Hellið úr skálinni á ofnplötu (ofnplötur) og bakið við 150° til 170°C. Hrærið í múslíinu á 10 mínútna fresti og bakið þangað til það fær fallegan, gylltan lit. Takið múslíið út og leyfið því að kólna.

Aðalatriðið er að leyfa múslíinu að bakast hægt og rólega svo hneturnar brenni ekki og verði beiskar. Það má skipta út hnetum að vild, mér finnst til dæmis mjög gott að bæta við pekanhnetum.

mbl.is