Engin jól nema hafa þrjú jólatré

Jóla jóla ... | 23. desember 2022

Engin jól nema hafa þrjú jólatré

Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur er hokin af reynslu þegar kemur að jólatrjám. Á hverju ári setur hún upp þrjú jólatré, eitt í forstofunni, eitt þriggja metra hátt í stofunni og þar sem er borðstofa og eldhús leynist annað minna en engu síðra. Öll jólatrén eru skreytt af mikilli natni með skrauti sem Yrsa hefur safnað í gegnum árin á ferðalögum sínum erlendis. 

Engin jól nema hafa þrjú jólatré

Jóla jóla ... | 23. desember 2022

Yrsa Sigurðardóttir verkfræðingur og rithöfundur er alltaf með þrjú jólatré.
Yrsa Sigurðardóttir verkfræðingur og rithöfundur er alltaf með þrjú jólatré. mbl.is/Árni Sæberg

Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur er hokin af reynslu þegar kemur að jólatrjám. Á hverju ári setur hún upp þrjú jólatré, eitt í forstofunni, eitt þriggja metra hátt í stofunni og þar sem er borðstofa og eldhús leynist annað minna en engu síðra. Öll jólatrén eru skreytt af mikilli natni með skrauti sem Yrsa hefur safnað í gegnum árin á ferðalögum sínum erlendis. 

Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur er hokin af reynslu þegar kemur að jólatrjám. Á hverju ári setur hún upp þrjú jólatré, eitt í forstofunni, eitt þriggja metra hátt í stofunni og þar sem er borðstofa og eldhús leynist annað minna en engu síðra. Öll jólatrén eru skreytt af mikilli natni með skrauti sem Yrsa hefur safnað í gegnum árin á ferðalögum sínum erlendis. 

Yrsa er mikið jólabarn. Hún býr í fallegu húsi á Seltjarnarnesi og hefur safnað jólaskrauti í mörg ár. Þegar hún er spurð að því hvenær hún byrjaði að safna jólaskrauti segir hún að það hafi líklega gerst árið sem hún gafst upp á jólaseríum.

„Ég hef líklega byrjað af alvöru árið sem ég gafst upp á ljósaseríuáráttunni sem ég var haldin um tíma. Ég man ekki hversu margar perur voru á trénu árið sem ég gafst upp á því en þær skiptu þúsundum. Nógu margar til að grilla tréð og gera það að verkum að við urðum að setja það upp fjarri glugganum í stofunni sem snýr út að sjó. Við óttuðumst að sjófarendur teldu tréð vera vita. Eftir það sneri ég mér að því að ofhlaða tréð með skrauti en það eru líklega liðin ein tíu ár síðan.“

Hvernig myndirðu lýsa stílnum?

„More is more.“

Hvaðan kemur jólaskrautið?

„Ég hef safnað því árum saman en megnið er keypt erlendis. Ég ferðast mikið og ryksuga upp kúlur í jóladeildum verslana um leið og þær opna. Svo hef ég verslað slatta á netinu.“

Er eitthvað skraut í meira uppáhaldi en annað?

„Ein jólakúla er í algjöru uppáhaldi en það er höfuðkúpa sem er alsett similíusteinum.“

Hvíta jólatréð með bleika skrautinu er sérstaklega skemmtilegt. Hvaðan kom innblásturinn?

„Ég man ekki hvaðan innblásturinn kom en líklega hef ég séð mynd á netinu og hrifist af þessari litasamsetningu. En þegar ég ákvað að vera með bleikt skraut eingöngu á hvíta trénu þá fór ég á fullt að safna bleiku skrauti og það kom á óvart hve víða það fékkst. Það er raunar aðeins meira vesen því ryksuguaðferðin nýtist ekki í þeim kaupum, meira svona ein kúla til hér og önnur þar. En þetta hafðist að lokum. Nú er ég að safna kúlum í geimþema sem gengur hægt en sígandi þó.“

Hefurðu hugmynd um fjöldann af jólaskrauti á trjánum?

„Nei því miður. Ég hef gert tilraun til að telja en ruglast alltaf þar sem það er heljarinnar vinna að taka skrautið niður og ekki gert á einum dagparti. Það versta við þetta allt saman er hve jólakúlur pakkast illa og taka mikið pláss. Háaloftið okkar er smekkfullt af kössum með kúlum. En við hjónin stefnum að því að byggja okkur bílskúr sem maðurinn minn heldur að hann geti haft bílinn í á veturna. Það mun ekki ganga upp því ég ætla að fylla þennan bílskúr af jólakúlum.“

Hvert er leyndarmálið við vel skreytt tré?

„Að stíga reglulega frá og horfa yfir það til að koma auga á eyður. Einnig myndi ég mæla með því að forðast þungar kúlur úr leir, sérstaklega ef um lifandi tré er að ræða. Greinarnar munu síga, hvað sem tautar og raular, en ef þungar kúlur hanga á enda þeirra mun tréð líta út fyrir að vera dapurt og hágrátandi, sem er mjög ójólalegt.“

Hvenær seturðu jólatrén upp?

„Í byrjun desember þegar vel stendur á. Stundum kemst ég ekki í það fyrr en seinna og þá líður mér eins og ég setji upp síðustu kúluna til þess eins að taka svo niður þá fyrstu.“

Hvernig skreytirðu heimilið að öðru leyti fyrir jólin?

„Trén eru eiginlega uppistaðan í skreytingunum. Ég er með tvo aðventukransa og svona einstaka grip hér og þar.“

Ertu mikið jólabarn?

„Já ég er það. Ég er almennt mikil stemningsmanneskja og jólin eru toppurinn í stemningsdagatali ársins.“

Hvað er það besta við jólin?

„Hátíðarstundir með fjölskyldunni yfir góðum mat (og þar með mat sem einhver annar en ég eldaði) standa upp úr.“

Heldurðu fast í hefðir?

„Já. Allt jólahald er í föstum skorðum. Skata með vinahjónum okkar á Þorláksmessu og klukkutíma sturta í framhaldinu. Aðfangadagskvöld hjá foreldrum mínum og aðfangadagskvöld taka tvö á jóladag. Þá er barnabarnið okkar hjá okkur og þá fyrst opnum við pakkana. Svo er hangikjötsveisla annan í jólum og svo afgangar í matinn fram að áramótum þegar við höldum áramótaveislu og nýir afgangar verða til.“

Þú ert afkastamikill rithöfundur með nýja bók um hver jól. Nærðu sjálf að lesa mikið um jólin?

„Já, það er enginn tími betri til lestrar en yfir hátíðarnar og alltaf jafngaman að sjá hvaða titlar leynast meðal gjafanna undir trénu.“

mbl.is