Glódís kemur heim um jólin

Jóla jóla ... | 23. desember 2022

Glódís kemur heim um jólin

Glódís Perla Viggósdóttir landsliðskona í knattspyrnu ætlar að njóta jólanna í faðmi fjölskyldunnar á Íslandi. Hún fær stutt frí yfir hátíðarnar en nýtir það vel í laufabrauðsgerð, kökubakstur og gjafakaup. 

Glódís kemur heim um jólin

Jóla jóla ... | 23. desember 2022

Knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir fær frí um jólin.
Knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir fær frí um jólin. Ljósmynd/Aðsend

Glódís Perla Viggósdóttir landsliðskona í knattspyrnu ætlar að njóta jólanna í faðmi fjölskyldunnar á Íslandi. Hún fær stutt frí yfir hátíðarnar en nýtir það vel í laufabrauðsgerð, kökubakstur og gjafakaup. 

Glódís Perla Viggósdóttir landsliðskona í knattspyrnu ætlar að njóta jólanna í faðmi fjölskyldunnar á Íslandi. Hún fær stutt frí yfir hátíðarnar en nýtir það vel í laufabrauðsgerð, kökubakstur og gjafakaup. 

„Ég er kannski ekki beint mikið jólabarn en ég kann vel að meta jólin. Síðan ég flutti út í atvinnumennsku eru jólin eini tími ársins þar sem ég veit að ég verð alltaf í fríi og fæ góðan tíma með fjölskyldunni svo ég hlakka alltaf mikið til og reyni að njóta eins og ég get,“ segir Glódís spurð út í jólin.

„Við spilum alveg fram að jólum, 21. desember er seinasti leikur, en fáum svo um það bil tvær vikur í frí þar sem ég ætla heim til Íslands og njóta þess að vera í smá fríi. Vera með fjölskyldu og vinum, halda upp á jól og áramót og svo mun ég æfa sjálf líka sem ég hef mjög gaman af.“

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Jólalög og jólaljósin sem lýsa upp skammdegið þegar jólin nálgast.“

Hvað er ómissandi um jólin?

„Jólamaturinn heima. Pabbi er frábær kokkur og jólamaturinn hjá pabba og mömmu er það besta sem ég fæ.“

Kærustuparið Glódís og Kristófer fara til útlanda í staðinn fyrir …
Kærustuparið Glódís og Kristófer fara til útlanda í staðinn fyrir að gefa hvort öðru pakka. Ljósmynd/Aðsend

Byrjar aðfangadag á æfingu

Hafa löndin sem þú hefur búið í áhrif á hvernig þú heldur upp á jólin?

„Við fjölskyldan bjuggum í Danmörku þegar ég var krakki og þar kynntumst við dönskum jólapakkaleik sem varð svo að jólasið hjá okkur, sem mér finnst mjög gaman. Þá eru keyptir margir litlir pakkar, eitthvað mjög ódýrt, og svo er kastað teningum og við stelum pökkum fram og til baka hvert frá öðru þangað til tíminn er búinn. Ég kann reyndar ekki reglurnar því sá sem stjórnar leiknum býr þær til á staðnum og eftir skapi, sem getur farið mjög illa í keppnisskapið mitt en það er annað mál.

„Ég þarf alltaf að hugsa um að vera í góðu formi en það er líka mikilvægt að leyfa sér að njóta hátíða og matar sem manni þykir góður inn á milli. Ég byrja alltaf aðfangadag á að fara á einhvers konar æfingu og hef gert held ég síðan ég var í 5. flokki í HK og mér finnst það svona mín leið til að byrja jólin almennilega.

Við erum alltaf með möndlugraut í hádeginu þar sem ég borða alltaf langmest í minni fjölskyldu en fæ aldrei möndluna. Í kvöldmat er alltaf sveppasúpa í forrétt og nautalund í aðalrétt með alltof miklu meðlæti þar sem mamma og pabbi passa að allir fái það sem þeim finnst gott. Svo erum við amma yfirleitt búnar að gera heimagerðan jólaís og sósu með berjum í eftirrétt. Jólamaturinn er í raun aðaljólahefðin á mínu heimili og við sitjum í marga tíma við borðið og hlustum á jólalög og borðum í rólegheitunum.“

Hvað er besta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Ég og kærastinn minn gefum yfirleitt ekki hvort öðru beint jólagjöf heldur reynum við að fara til útlanda einhvern tímann í kringum jólin, sem er jólagjöfin okkar, og mér finnst það æðisleg hefð.“

En best heppnaða gjöf sem þú hefur gefið?

„Mamma og pabbi halda því fram að bestu gjafir sem ég hef gefið þeim séu föndur- og smíðagjafirnar í grunnskóla. Þær er ennþá að finna í notkun hér og þar í Furugrund 6.“

Foreldrar Glódísar elda góðan mat.
Foreldrar Glódísar elda góðan mat. Ljósmynd/Aðsend

Veisluhöld á Skagaströnd

Áttu þér uppáhaldsjólaminningu?

„Ég er ættuð frá Skagaströnd og stór hluti af fjölskylda pabba býr fyrir norðan. Við förum ekki nógu oft norður en á annan í jólum er hangikjötsboð sem við reynum að fara í ef við getum. Þetta boð byrjar eins og flest jólaboð en það líður yfirleitt ekki langur tími áður en allir, gamlir sem ungir, eru komnir með eitthvert hljóðfæri og það er sungið, trallað og dansað langt fram á nótt. Viggó langafi minn, sem lést í fyrra, 94 ára, var yfirleitt fyrstur upp með harmónikuna sína til að byrja partíið. Þetta eru mjög dýrmætar og skemmtilegar minningar.“

Jólaborðið er girnilegt heima hjá Glódísi en fjölskyldan nýtur þess …
Jólaborðið er girnilegt heima hjá Glódísi en fjölskyldan nýtur þess að borða mat á aðfangadagskvöld. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig ætlar þú að halda upp á jólin í ár?

„Eins og ég sagði kem ég frekar seint til Íslands eða líklega ekki fyrr en 22. desember svo ég reyni að plata fjölskylduna mína í að bíða með allar jólahefðir eins og laufabrauðsgerð og kökubakstur þangað til ég kem. Ef ég þekki sjálfa mig rétt mun ég líka eiga eftir að kaupa allar jólagjafir, þannig að 22. og 23. desember munu fara í að redda því. Þegar það er klárt þá er það bara að njóta jólanna með fjölskyldunni.“

Stórfjölskyldan kemur saman.
Stórfjölskyldan kemur saman. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is