Upplifir sama aðfangadag aftur og aftur

Jóla jóla ... | 24. desember 2022

Upplifir sama aðfangadag aftur og aftur

Pálmi Freyr Hauksson, leikstjóri og handritshöfundur, hefur undanfarin ár beðið um mjög langar bækur í jólagjöf. Hann á enn eftir að klára bókina frá því í fyrra og segist jafnvel þurfa á sálfræðitíma að halda í jólagjöf í ár vegna bókarinnar. 

Upplifir sama aðfangadag aftur og aftur

Jóla jóla ... | 24. desember 2022

mbl.is/Hákon Pálsson

Pálmi Freyr Hauksson, leikstjóri og handritshöfundur, hefur undanfarin ár beðið um mjög langar bækur í jólagjöf. Hann á enn eftir að klára bókina frá því í fyrra og segist jafnvel þurfa á sálfræðitíma að halda í jólagjöf í ár vegna bókarinnar. 

Pálmi Freyr Hauksson, leikstjóri og handritshöfundur, hefur undanfarin ár beðið um mjög langar bækur í jólagjöf. Hann á enn eftir að klára bókina frá því í fyrra og segist jafnvel þurfa á sálfræðitíma að halda í jólagjöf í ár vegna bókarinnar. 

Hátíðleikinn er bestur. Allir virðast vera í aðeins betra skapi og það er afsökun til að gera sér glaðan dag í mesta skammdeginu. Allir segja gleðileg jól, faðmast og kyssast á förnum vegi,“ segir Pálmi þegar hann er spurður hvað honum finnist best við jólin. Hann segir gott hvernig allir reyna að hunsa myrkrið sem umlykur alla með gjöfum og ljósum.

Hvernig er Þorláksmessa hjá þér?

„Hún er frekar mismunandi. Engin sérstök hefð. Stundum kaupi ég tíu gjafir á Þorláksmessu. Önnur árin engar. Ég er grænmetisæta þannig að ég slepp við að borða skötu sem er bara frábært. Þorláksmessa er stórhátíðardagur fyrir okkur grænmetisæturnar því þá fögnum við því að þurfa ekki að borða skötu.“

mbl.is/Hákon Pálsson

Allt eftir föstum reglum á jólunum

„Ég var svakalega mikið jólabarn. Það var allt frábært við jólin. Maður fékk pakka og þurfti ekki að fara í skólann. Það var aðalstemningin. Að fá frí. Ég þoldi aldrei skólann. En í seinni tíð eru áherslurnar kannski aðeins breyttar hjá manni. Ég varð reyndar aftur svolítið jólabarn fyrir nokkrum árum þegar ég setti upp spunasýningu á hverjum jólum með vinum mínum í spunaleikhópnum Svaninum. Ár hvert fylltum við Tjarnarbíó af fólki og lékum, sungum, dönsuðum og framkvæmdum jólakraftaverk. Mér þótti alltaf mjög vænt um þær sýningar og þær komu manni í jólagírinn.“

Ertu með einhverjar jólahefðir heima hjá þér?

„Já, í raun er aðfangadagur svo formfastur að hann er smá eins og gjörningur eftir Ragnar Kjartansson sem er búinn að vera í gangi frá því ég fæddist. Sama kvöldið endurtekur sig aftur og aftur. Við fjölskyldan borðum sama matinn klukkan sex þegar bjöllurnar hringja. Opnum pakkana eitt af öðru í eins langan tíma og mögulegt er. Þar sem við erum mannafælur þá förum við í tvo kirkjugarða upp úr miðnætti þegar enginn er á stjái.“

Hvaða jól eru eftirminnilegustu jól sem þú hefur átt?

„Þau eru öll nákvæmlega eins. Það er erfitt að greina þau í sundur. Ef við breytum til þá mundum við líklega fara í einhverskonar rof. Ég man þó að ég fékk einu sinni reiðhjól í gjöf sem barn. Algjör draumur.“

Pálmi Freyr Hauksson er svo íhaldssamur að hann upplifir sama …
Pálmi Freyr Hauksson er svo íhaldssamur að hann upplifir sama aðfangadagskvöld aftur og aftur. Þau eru alltaf eins mbl.is/Hákon Pálsson

Er það sjálfselska að gleðja aðra?

Er betra að gefa en að þiggja?

„Sko, ég veit að ég á að segja gefa. Þessi spurning er auðvitað einhverskonar siðblindupróf til að komast að því hvaða nöttarar segja þiggja. En maður verður auðvitað að leyfa fólki að vera gott við sig og gefa manni fallegar gjafir. Jú, auðvitað er betra að gefa og gleðja aðra. En er það ekki hin sanna siðblinda? Að gleðja annað fólk bara til þess að gleðja sig? Hvað er meiri sjálfselska en það? Smá jólahugvekja.“

Í hvað langar þig í jólagjöf í ár?

„Síðastliðin ár hef ég beðið um einhverja ákveðna langa og erfiða bók í jólagjöf. Bók sem ég er alltaf að fresta að lesa. Þetta hafa verið bækur eins og Stríð og friður eftir Tolstoy eða Glæpur og Refsing eftir Dostojevskí. Þetta finnst mér vera skemmtileg hefð sem ég bjó til. Hins vegar bað ég um svo óendanlega langa og leiðinlega bók í fyrra. Hún heitir Infinite Jest eftir David Foster Wallace. Þessi bók finnst mér svo óendanlega leiðinleg að ég er ekki einu sinni hálfnaður með hana. Ég er ekki einu sinni hálfnaður með helminginn af henni. En þó ég lesi aðrar bækur þá skapar hún flöskuháls í flæði bóka sem ég les. Því mér finnst eins og ég þurfi að klára hana. Og ég er lesblindur þannig að það er ekkert djók að reyna að komast í gegnum hana. Þannig að mig langar í tíma hjá sálfræðingi sem getur fengið mig til að sjá að ég þarf ekki að klára þessu leiðinlegu bók. Ég verð ekkert verri manneskja ef ég gefst upp. Nú er bara vona að fjölskylda eða vinir giski á þetta svar og láti í pakka.“

Það sem honum fannst best við jólin í gamla daga …
Það sem honum fannst best við jólin í gamla daga var að fá frí í skólanum. mbl.is/Hákon Pálsson

Hvað er skrítnasta jólagjöf sem þú hefur fengið?

„Bróðir minn gaf mér alltaf frábærar gjafir þegar við vorum yngri. Nema eitt árið gaf hann mér inniskó. Ég skildi bara ekki hver pælingin var að gefa unglingi inniskó. Ég var hissa. Á ég að leika mér í inniskónum mínum annan í jólum? Hver er pælingin? En það kom í ljós að þetta var frábær gjöf og ég nota þessa inniskó enn þann dag í dag. Skrítnasta gjöfin sem ég hef gefið er örugglega þegar ég gaf bróður mínum Manchester United-veggklukku. Ég veit ekki hvaða gleði var hægt að fá úr þeirri gjöf.“

mbl.is