Messaði í fokheldri kirkju á jólunum

Jóla jóla ... | 25. desember 2022

Messaði í fokheldri kirkju á jólunum

Fyrir 20 árum tók Guðmundur Karl Brynjarsson við nýstofnaðri Lindasókn í Kópavogi sem hennar fyrsti sóknarprestur. Fyrstu árin fóru allar messur safnaðarins fram í Lindaskóla og síðar Salaskóla. Sex árum síðar, árið 2008, var Lindakirkja risin en kirkjuskipið rétt fokhelt. Þá fékk Guðmundur þá klikkuðu hugmynd að halda jólamessurnar í fokheldri kirkjunni, en aftansöngurinn klukkan sex þann aðfangadag er ein besta jólaminning Guðmundar. 

Messaði í fokheldri kirkju á jólunum

Jóla jóla ... | 25. desember 2022

Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju.
Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir 20 árum tók Guðmundur Karl Brynjarsson við nýstofnaðri Lindasókn í Kópavogi sem hennar fyrsti sóknarprestur. Fyrstu árin fóru allar messur safnaðarins fram í Lindaskóla og síðar Salaskóla. Sex árum síðar, árið 2008, var Lindakirkja risin en kirkjuskipið rétt fokhelt. Þá fékk Guðmundur þá klikkuðu hugmynd að halda jólamessurnar í fokheldri kirkjunni, en aftansöngurinn klukkan sex þann aðfangadag er ein besta jólaminning Guðmundar. 

Fyrir 20 árum tók Guðmundur Karl Brynjarsson við nýstofnaðri Lindasókn í Kópavogi sem hennar fyrsti sóknarprestur. Fyrstu árin fóru allar messur safnaðarins fram í Lindaskóla og síðar Salaskóla. Sex árum síðar, árið 2008, var Lindakirkja risin en kirkjuskipið rétt fokhelt. Þá fékk Guðmundur þá klikkuðu hugmynd að halda jólamessurnar í fokheldri kirkjunni, en aftansöngurinn klukkan sex þann aðfangadag er ein besta jólaminning Guðmundar. 

„Mér finnst jákvætt í skammdeginu að lýsa upp myrkrið, hafa gaman og njóta lífsins á þessum dimmasta tíma ársins. Fyrr á tímum snerist aðventan meira um meinlæti, að fólk héldi í við sig í neyslu, en það var kannski ekki síst til þess að eiga eitthvað til þess að bíta og brenna yfir hátíðarnar. En við erum almennt ekki í þeirri stöðu lengur og tökum forsmekkinn á jólin jafnvel löngu áður en aðventan hefst. Mér finnst það bara gott að fólk gefi sér tíma til að vera með sínum nánustu og fjölskyldunni og gleðjist með þessum hætti. Ég hef gaman af ljósunum og gleðinni í kringum jólin og á þeim tíma leyfi ég mér að ímynda mér að jörðin smitist smá af þessari himnesku dýrð, sem ljómaði kringum hirðana forðum,“ segir Guðmundur. Hann segir mikið um að vera í kirkjunni á aðventunni og helst ber að nefna jólatónleikana 11. desember þar sem kór Lindakirkju, undir stjórn Óskars Einarssonar, kemur fram.

Ekki gefast upp á að vænta hamingju

Guðmundur, sem hefur starfað sem prestur síðan 1996, segist aðallega finna fyrir gleðinni í kringum jólin í sínu starfi en margt fólk sem kvíðir jólunum leitar til kirkjunnar. „Það er fólk sem finnur alls ekki fyrir þessari gleði lengur, kannski vegna erfiðra jólaminninga úr æsku eða það er söknuðurinn eftir því sem var og kemur sjáanlega ekki aftur. Það er svo mikilvægt að gefast aldrei upp á að vænta hamingjunnar og gleðinnar. Hún getur verið á öðru formi en þegar okkur fannst við vera hamingjusömust.“

Það lá alls ekki beint við að verða prestur segir Guðmundur Karl. Þeir vegir sem hann fetaði og það sem hann upplifði sem ungur maður varð þó til þess að hann fór í guðfræði. Reynsla hans hefur hjálpað honum að takast á við erfið verkefni sem fylgja starfinu.

„Sem barn var ég trúaður en alls ekki sem unglingur, eiginlega þveröfugt. Það var ákveðið rugl á mér á þeim árum. Þegar ég áttaði mig á að ég var að missa tökin á eigin lífi leitaði ég í trúna og bænina og það breytti öllu. Á þeim tíma efaðist ég um tilvist guðs og bað þess vegna. „Ef þú ert til hjálpaðu mér þá,“ sagði ég. Í dag efast ekki um tilvist guðs en ég efast oft um sjálfan mig. En það er aftur og aftur þetta stefnumót sem maður þarf að eiga við guð, sem af einhverjum ástæðum hefur ekki gefist upp á mér ennþá.“

Kirkjan er fólkið en ekki bygging

Áður en Guðmundur varð prestur við Lindasókn var hann prestur úti á landi. „Það er í rauninni miklu meira álag í helgihaldinu á hátíðum hjá prestum sem þjóna í mörgum sóknum úti á landi en hjá okkur sem þjónum í stóru prestaköllum á höfuðborgarsvæðinu. Við erum þrjú prestarnir í Lindakirkju og getum skipt á milli okkar verkum. Þegar ég var prestur á Skagaströnd messaði ég tvisvar á aðfangadag, á jóladag, annan í jólum og gamlársdag. Maður var með þetta allt einn.“

Guðmundur var reyndar líka einn þegar hann hóf störf sem prestur í Lindakirkju árið 2002. „Þegar ég byrjaði í Lindakirkju þá var náttúrlega kirkjan bara fólkið, það var ekkert hús til staðar. Ég var bara með gsm-síma og bjó í Breiðholtinu, engin skrifstofa eða neitt. Fljótlega var bætt úr því með tilkomu lítils húss sem sett var niður á lóð kirkjunnar. Lindakirkja reis ekki fyrr en ég var búinn að vinna í Lindasókn í sex ár,“ segir Guðmundur

„Við vorum fyrst með allar messur, þar með talið jólamessurnar, í matsalnum í Lindaskóla. Þá var barnamessa, eða það sem við höfum kallað jólastund fjölskyldunnar, klukkan fjögur og aftansöngur klukkan sex. Aðaljólamessan fyrstu árin var jólastund fjölskyldunnar og hún er enn gríðarvinsæl. Við höfum alltaf lagt mikið upp úr vandaðri fjölskyldudagskrá á þeim stundum. Það hentar mörgum að koma klukkan fjögur með börnin. Á sínum tíma, þegar við vorum í skólahúsnæðinu, voru þrefalt fleiri sem mættu á jólastund fjölskyldunnar en í aftansönginn klukkan sex. En það var skiljanlegt. Fólki fannst kannski ekki hátíðlegt að mæta í matsalinn í skólanum á jólunum,“ segir Guðmundur.

Tvenn síðustu jól var ekki hægt að halda jólastund fjölskyldunnar í kirkjunni en þá framleiddi Lindakirkja, í samstarfi við Þorleif Einarsson leikara og Risamyndir, vinsæla jólaþætti sem eru aðgengilegir á netinu.

„Þegar Lindakirkja var byggð árið 2008 var byrjað á því að klára safnaðarheimili og skrifstofur en kirkjuskip, kjallari og turn gert fokhelt. Ég beit það samt í mig að við yrðum að halda jólamessuna þarna þótt það væri allt svona hrátt. Það féll í grýttan jarðveg hjá sumum fyrst í stað enda skiljanlegt því þar var bara kuldi og ber steinninn. Góður vinur minn, sem er flinkur ljósamaður, lýsti kirkjuna glæsilega upp að innan og svo var hún hituð upp með hitablásurum. Krossinn, sem er kominn upp á turninn núna, var bara boltaður í gólfið vinstra megin við altarið og stórt jólatré og jata og allt hvað eina hægra megin. Þetta var bara geggjað. Ég var orðinn vanur frekar slappri mætinu í aftansönginn og beið inni á skrifstofu fram að messu. Ég gerði mér því enga grein fyrir því hversu margt fólk var komið fyrr en ég sneri mér að söfnuðinum fyrir framan altarið. Þá blasti við mér stútfull kirkja af fólki. Ég varð klökkur og kom ekki upp orði fyrst í stað,“ segir Guðmundur og að þessi upplifun hafi verið einn af hápunktum í sinni þjónustu sem prestur.

Hið efnislega skiptir því ekki öllu?

„Nei, nei. Við erum ekki enn búin að klára kirkjuna. Við eigum enn eftir að ganga frá loftinu inni í kirkju, lóðinni, turninum og fleiru. Í mörg ár vorum við með 12 eða 14 gerðir af stólum í kirkjunni. Við höfum tekið þetta eftir efnum og aðstæðum. Þetta hefur verið dýrmæt og lærdómsrík ganga og bara skemmtilegt að fá ekki allt upp í hendurnar eins og virtist fram að hruni. Þegar við vorum með allar þessar týpur af stólum kom eldri kona eitt sinn til mín eftir að hafa séð þá í fyrsta skipti og sagði: „Ég myndi óska þess að þið væruð alltaf með þetta svona. Svona er nú lífið, það er ekki allt fullkomið,“ sagði hún. Við höfum reynt að vera nægjusöm í Lindakirkju og gert okkur far um að endurnýta hluti. Til dæmis sóma gömlu kirkjubekkirnir úr Keflavíkurkirkju, sem við fengum gefins, sér vel hjá okkur og altarið í kapellu kirkjunnar er gamalt smíðaborð frá því kirkjan var á byggingarstigi, svo eitthvað sé nefnt.

Er dekraður heima fyrir

Guðmundur Karl er mikið jólabarn og fann fyrir ákveðnum trega þegar börnin hans eltust upp úr barnslegu jólagleðinni. Allt hefur sinn tíma og nú er hann orðinn afi. „Ég elska ljós, skraut, jólasveina og allt þetta dót. Í rauninni upplifir maður jólin sterkar sem barn og í gegnum börnin sín. En nú á ég tveggja ára afastelpu sem er strax farin að gefa jólunum gaum.“

Það er lambahryggur í matinn heima hjá Guðmundi og fjölskyldu á aðfangadagskvöld. Hann segir hrygginn aldrei klikka. Steikin fær að malla í ofninum á vægum hita allan daginn. Hann og konan hans eru bæði upptekin í kirkjunni á aðfangadag þar sem hún syngur í kirkjukórnum.

„Það verður að segjast að ég tek ekki mikinn þátt í heimilisstörfunum á aðfangadag. Ég er yfirleitt kominn niður í kirkju upp úr hádegi og kem ekki heim fyrr en hálfátta. Ég stend í gættinni eftir aftansönginn og óska fólki gleðilegra jóla og það tekur rúman hálftíma. Konan mín er þá löngu komin heim og allt er orðið klárt. Maður er svolítið dekurbarn á aðfangadag,“ segir Guðmundur, sem hlakkar til jólanna og ekki síst aftansöngsins þar sem hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar fær að njóta sín. „Að mínu mati skapar hátíðartónið þessa ekta gamaldags íslensku jólastemningu – svipað og grænar Orabaunir í dós,“ segir Guðmundur að lokum.

mbl.is