Æðislegt að fá jólaskrautið frá Íslandi

Jóla jóla ... | 26. desember 2022

Æðislegt að fá jólaskrautið frá Íslandi

Það er jólastemning í margar vikur á heimili hjónanna Sæunnar Ingu Margeirsdóttur og Ívars Júlíussonar á Spáni. Fjölskyldan elskar góða veðrið en heldur fast í íslenskar hefðir á jólunum og stillir á íslenskan tíma á aðfangadagskvöld.

Æðislegt að fá jólaskrautið frá Íslandi

Jóla jóla ... | 26. desember 2022

Sæunn Inga Margeirsdóttir, Ívar Júlíussin og dæturnar Viktoría Ósk og …
Sæunn Inga Margeirsdóttir, Ívar Júlíussin og dæturnar Viktoría Ósk og Gunnþórunn Elsa halda upp á íslensk jól á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Það er jólastemning í margar vikur á heimili hjónanna Sæunnar Ingu Margeirsdóttur og Ívars Júlíussonar á Spáni. Fjölskyldan elskar góða veðrið en heldur fast í íslenskar hefðir á jólunum og stillir á íslenskan tíma á aðfangadagskvöld.

Það er jólastemning í margar vikur á heimili hjónanna Sæunnar Ingu Margeirsdóttur og Ívars Júlíussonar á Spáni. Fjölskyldan elskar góða veðrið en heldur fast í íslenskar hefðir á jólunum og stillir á íslenskan tíma á aðfangadagskvöld.

Sæunn og Ívar búa í bænum Campoamor sem er stutt frá Torrevieja sem margir Íslendingar þekkja vel. „Við hjónin og stelpurnar okkar fluttum út í janúar 2019, þá voru stelpurnar okkar Viktoría Ósk og Gunnþórunn Elsa á tólfta og níunda ári. Við höfum alltaf verið Spánarsjúk, veðrið spilar mikið inn í það að sjálfsögðu og við ákváðum bara að hendast út í þetta ævintýri. Við ætluðum að prófa bara í tvö ár en við erum hér enn og ekkert á leiðinni heim. Stelpurnar eru í spænskum skóla, gengur vel og eiga góða vini þannig að þetta er allt orðið svo heimilislegt hjá okkur og allir ánægðir,“ segir Sæunn um búferlaflutningana.

Jólaskreytingarnar eru öðruvísi á Spáni.
Jólaskreytingarnar eru öðruvísi á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Sæunn hefur alltaf verið mikið jólabarn og það hefur ekkert breyst þó hún búi í sól en ekki í kulda og myrkri. Öll fjölskyldan tekur þátt í gleðinni með henni.

„Ég hef alltaf elskað jólin og auðvitað smitast það í stelpurnar okkar, maðurinn minn hristir nú stundum hausinn yfir þessu öllu saman en hefur mjög gaman af þessum tíma. Mamma og pabbi skreyttu mikið þegar ég var ung og gera enn þannig að ég á ekki langt að sækja þessa jóladýrkun. Á jólunum hjá mömmu og pabba var alltaf rækjukokteill í forrétt og hamborgarhryggur og það fylgir mér áfram. Það er alltaf það sama á hverju ári og má ekki breyta,“ segir Sæunn.

Skreytti í lok október

„Ég er farin að skreyta allt í huganum í september og við skreytum yfirleitt alltaf í byrjun nóvember. Í ár skreyttum við 21. október af því að maðurinn minn fór á sjóinn í vikunni á eftir og kemur heim 24. nóvember,“ segir Sæunn og segir alltof seint að byrja að skreyta í lok nóvember eða korter í jól eins og hún orðar það, það sé einfaldlega of seint. „Ég byrja um viku fyrr að undirbúa því ég þarf að þvo allt fyrir jólin; dúka, sængurföt, handklæðin, peysurnar, kjólana, náttfötin og fleira. Maður á að njóta eins lengi og hægt er. Að hafa öll þessi jólaljós, fallega skrautið í kringum sig, þetta er besta tilfinning í heimi. Eina sem við bíðum með er jólatréð. Það fer samt upp í nóvember þegar maðurinn minn kemur heim. Við bíðum ekki fram í desember með það, það verður að fara upp sem fyrst.“

Fjölskyldan byrjar að skreyta snemma.
Fjölskyldan byrjar að skreyta snemma. Ljósmynd/Aðsend

Í gegnum tíðina hefur Sæunn eignast gott safn af jólaskrauti. Hún segir skemmtilegt að kaupa nýtt á Spáni en það var ómissandi að skreyta með gamla skrautinu á nýja heimilinu á Spáni í fyrra.

„Við keyptum allt hér fyrst, jólaskrautið okkar var í kössum heima á Íslandi en í fyrra náðum við í það allt saman. Maður lifandi hvað það var æðislegt, allt þetta persónulega jólaskraut sem manni þykir svo vænt um. Þetta voru tvær heilar ferðatöskur af innijólaskrauti sem bættist við allt sem við áttum fyrir hér. Við eigum mikið en aldrei nóg segi ég alltaf. Jólaskrautið hérna er mjög svipað og á Íslandi, kannski meira úrval reyndar því Kínabúðirnar eru með svo svakalega mikið og það er ekki hægt að ganga þaðan út án þess að vera með jólaskraut í poka.“

Sæunn blandar saman jólaskrauti frá Íslandi og Spáni.
Sæunn blandar saman jólaskrauti frá Íslandi og Spáni. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldan nýtir aðdraganda jólanna vel og jólin snúast ekki bara um skreytingar heldur líka um gæðastundir. Eitt af því sem Sæunni finnst ómissandi er samverudagatal.

„Við ákváðum fyrir nokkrum árum að gera samverudagatal frá 1. til 24. desember. Það sló í gegn og gerum við það enn þó að stelpurnar séu orðnar 12 og 15 ára. Í því er allskonar í því sem við gerum saman. Við bökum, föndrum, horfum á jólamynd, teiknum jólamyndir, gefum öndunum brauð, förum í göngutúr að skoða jólaljós, njótum á ströndinni, bara allt sem okkur dettur í hug. Það er alltaf spennandi að vita á morgnana hver samvera dagsins er. Mér þykir mjög vænt um þessa hefð hjá okkur í desember.

Stelpurnar fá auðvitað súkkulaðidagatöl líka og síðustu tvö ár förðunardagatöl. Við fjölskyldan bökum oft yfir þennan tíma, ekkert betra en smákökur og heitt kakó með rjóma þó maður búi á Spáni. Okkur finnst æði að horfa á jólamyndir saman og við spilum mikið, það er svo kósí að spila í jólaljósum. Við elskum að mála piparkökur og gerum alltaf piparkökuhús. Á Þorláksmessu horfum við alltaf á Christmas Vacation með Nóa konfekt og smákökur.“

Ljósmynd/Aðsend
Það er notalegt á kvöldin.
Það er notalegt á kvöldin. Ljósmynd/Aðsend

Halda íslensk jól á Spáni

„Við höldum í allt þetta íslenska og höldum íslensk jól. Maðurinn minn kemur alltaf með ferðatösku til Spánar fyrir jólin, hamborgarhrygg, Nóa Síríus-konfekt, malt- og appelsínblöndu til að hafa á aðfangadag. Við erum reyndar búin að finna góða blöndu hér en íslensk jólablanda á aðfangadag verður að vera. Við erum með flatkökur og hangikjöt og ég fékk meira að segja skötu og rúgbrauð í fyrra á Þorláksmessu og ætla að fá mér aftur í ár. Ég er að vísu ein í því partíi, heimilisfólkið mitt situr svolítið frá mér þá. Við eigum öll jólanáttföt sem eru mikið notuð, um leið og það er búið að skreyta þá fara þau strax í notkun. Við til dæmis förum eftir íslensku klukkunni á aðfangadag, hlustum á útvarpið þegar jólin eru hringd inn, knúsumst gleðileg jól og setjumst svo niður og borðum.

Það er öðruvísi að halda jól hér því það snjóar ekki og maður er frekar léttklæddur yfir daginn, ekkert frost. Við værum alveg til í snjó frá 23. til 26. desember, sérstaklega stelpurnar. Í fyrra keyrðum við í fimm klukkutíma upp á skíðasvæði uppi í fjöllum. Þar gátum við borðað snjó og rennt okkur, það var mikil jólastemning og geggjað gaman. Svo saknar maður að sjálfsögðu fjölskyldunnar sinnar heima á Íslandi yfir þennan tíma, jólin eru svo mikil fjölskyldusamvera en tæknin er sem betur fer góð,“ segir Sæunn um jólin á Spáni.

Ljósmynd/Aðsend

Hafið þið tekið upp jólahefðir Spánverja?

„Hérna er 6. janúar þeirra aðaldagur, Dia De Los Reyes, þá koma kóngarnir þrír með gjafir og það er mjög hátíðlegt. Við höldum í þá hefð þeirra, borðum góðan mat og höfum það kósí. Við ákváðum að gera það strax því dætur okkar eru í spænskum skóla og auðvitað ekki talað um annað. Við höfum líka alltaf sótt jólaskrúðgönguna sem er deginum fyrir, mjög skemmtilegt hjá þeim.“

Það er jólalegt á veröndinni.
Það er jólalegt á veröndinni. Ljósmynd/Aðsend

Finnst þér að fólk megi njóta lengur í stað þess að einblína á nokkra daga fyrir og eftir aðfangadag?

„Já, það finnst mér, af hverju gera allt í einu? Mér finnst miklu sniðugra að skreyta til dæmis fyrr. Maður slakar einhvern veginn á við að dúlla sér í bakstri og háma í sig piparkökur í allri jóladásemdinni. Það má ekki gleyma að hafa gaman og njóta alls, þannig eiga jólin að vera.“

Er eitthvað betra en jólaleg vinsæng?
Er eitthvað betra en jólaleg vinsæng? Ljósmynd/Aðsend

Er alltaf hægt að kaupa meira jólaskraut og skreyta meira?

„Ég veit ekki hvort ég þori að segja það en já, ég kaupi alltaf fullt á hverju ári þó svo að ég eigi mikið meira en nóg. Ég missi mig bara þegar ég sé jólaskrautið koma í búðirnar hérna, ræð ekki við mig. Ég get alltaf fundið pláss fyrir meira jólaskraut. Ég er til dæmis alltaf búin að kaupa jólaklósettpappír fyrir desember þannig að já, ég held að heimilið sé gjörsamlega allt skreytt en ég get alltaf bætt við á hverju ári,“ segir Sæunn sem er löngu búin að skreyta fyrir jólin í ár.

mbl.is