„Ég hætti að borða kjöt fyrir átta árum“

Jóla jóla ... | 26. desember 2022

„Ég hætti að borða kjöt fyrir átta árum“

Erna Norðdahl hætti alfarið að borða dýraafurðir fyrir nokkrum árum. Í fyrra hélt hún jól í fyrsta skipti heima hjá sér með fjölskyldu sinni og var meðlætið allt vegan. Kræsingarnar voru svo góðar að amma hennar sem skilur lítið í kjötleysinu tók ekki eftir breytingunum. 

„Ég hætti að borða kjöt fyrir átta árum“

Jóla jóla ... | 26. desember 2022

Erna Norðdahl.
Erna Norðdahl. mbl.is/Árni Sæberg

Erna Norðdahl hætti alfarið að borða dýraafurðir fyrir nokkrum árum. Í fyrra hélt hún jól í fyrsta skipti heima hjá sér með fjölskyldu sinni og var meðlætið allt vegan. Kræsingarnar voru svo góðar að amma hennar sem skilur lítið í kjötleysinu tók ekki eftir breytingunum. 

Erna Norðdahl hætti alfarið að borða dýraafurðir fyrir nokkrum árum. Í fyrra hélt hún jól í fyrsta skipti heima hjá sér með fjölskyldu sinni og var meðlætið allt vegan. Kræsingarnar voru svo góðar að amma hennar sem skilur lítið í kjötleysinu tók ekki eftir breytingunum. 

„Ég hætti að borða kjöt fyrir átta árum. Ári seinna flutti ég svo til Hollands og þar var fiskurinn ekkert spes þannig að ég hætti að borða hann. Næsta skref var bara að taka út mjólkurvörurnar, svo ég hef verið vegan í svona fjögur eða fimm ár. En ég hef aldrei verið mikið fyrir kjöt og hugsaði reglulega um að hætta að borða það. Sú hugsun varð tíðari svo ég lét bara vaða einn daginn. Ég hef alltaf átt ketti og hunda og tilhugsunin um að borða dýr varð alltaf minna aðlaðandi með árunum,“ segir Erna um ástæðu þess að hún varð vegan.

„Hugmyndafræðin að lifa lífinu með því leiðarljósi að valda sem minnstum skaða finnst mér mjög heillandi. Þó svo að það sé nánast ómögulegt að fara í gegnum lífið án þess að valda einhverri lífveru skaða þá snýst þetta í raun um að takmarka það eins og maður getur. Til dæmis með því að hætta að borga einhverjum til að drepa dýr svo hægt sé að gæla við bragðlaukana í tíu mínútur. Veganmatur hefur farið með bragðlaukana mína í nýjar víddir og hef ég smakkað ótrúlega mikið nýtt á þessari vegferð í lífinu, ný krydd og kryddsamsetningar sem mig óraði ekki fyrir.“

Gulrótarlax í staðinn fyrir lax

Erna var aldrei mikil kjötkona og því hafa jólin ekki breyst mikið þótt mataræðið hafi breyst.

„Ég saknaði mest reykta laxins með graflaxsósu en svo fann ég veganuppskrift á netinu og hef verið að prófa mig áfram í því. Síðustu jól kom Jömm með graflax á markað, það breytti leiknum og einfaldaði mér lífið. Það er líka meira vegan í boði á jólahlaðborðum út um allan bæ. Það er í rauninni hægt að veganæsa allt ef viljinn er fyrir hendi. Veganistu-systur hafa einnig veitt mér mikinn innblástur í eldamennsku og leikið stórt hlutverk í veganbyltingunni á Íslandi. Ég held áfram að gúffa í mig piparkökum og mandarínum í desember svo ég hef ekki upplifað neinar skerðingar á lífsgæðum í kringum jólin eftir að ég varð vegan.

Ég var alltaf meira fyrir sósurnar og meðlætið á jólunum og það hefur ekkert breyst. Neatloaf frá Junkyard fullnægir öllum mínum þörfum. Margir átta sig ekki á því að það er kryddið sem gerir hefðbundið kjöt bragðgott. Það eru fáir sem borða kjöt án þess að krydda það.“

Hvernig er jólahald hjá þér?

„Við fjölskyldan héldum okkar fyrstu jól heima í fyrra. En fyrir það þá var ég með stórfjölskyldunni á jólunum. Ég og mamma veganæsuðum allt meðlætið í sameiningu í gegnum árin svo það var allt vegan á jólunum nema hamborgarhryggurinn fyrir kjötæturnar. Amma mín tók ekki einu sinni eftir því og hún fussar og sveiar ennþá yfir þeirri staðreynd að ég borða ekki kjöt.

Flest meðlæti er í grunninn vegan nema þegar notaðar eru mjólkurvörur, egg eða hunang. Hægt er að nota veganútgáfu af þessu öllu. Mér fannst hefðbundið waldorf-salat mjög gott svo ég notaði bara sýrðan rjóma frá Oatly og þeyttan veganrjóma í staðinn fyrir mjólkurvörurnar og þá var það komið. Ég hef samt verið dugleg að prufa allskonar kjötlíki í aðalrétt. Ég ólst upp við margréttað jólahald en í fyrra ákvað ég bara að hafa aðalrétt, gulrótarlax með graflaxsósu og svo eftirrétt. Það er oftast einhverskonar ís í eftirrétt því börnin fá að velja það. En ef maðurinn minn fengi að ráða þá væri pizza á jólunum og alla daga alltaf. Kannski mun ég hafa mínípizzur í forrétt í ár svo allir fái eitthvað sem þeim finnst gott.“

Umhverfissjónarmið voru ekki ástæða þess að Erna varð upphaflega vegan en hún segir þau áhrif vissulega jákvæð. Þegar kemur að jólum og gjöfum yfirhöfuð reynir hún að hugsa um umhverfið.

„Ég er persónulega hrifnari af upplifunum sem gjöfum eða bókum. Einnig finnst mér að það ætti að vera eðlilegra að gefa notaðar gjafir í góðu standi. Þetta eyðslukapphlaup kapítalismans er komið út fyrir öll velsæmismörk. Það þarf enginn að fá allt nýtt alltaf. Annars hef ég heyrt að jólasveinarnir hafi eitthvað verið að kíkja í Góða hirðinn síðustu ár og séu orðnir frekar umhverfisvænir. “

Gerir móður sína stolta

Erna og sambýlismaður hennar, Trausti Már Baldvinsson, eiga saman börnin Perlu og Frosta sem eru þriggja og tveggja ára. Börnin hafa hleypt nýju lífi í jólin.

„Ég myndi segja að ég hafi fundið jólabarnið í mér á ný eftir að hafa legið í dvala síðan á unglingsárunum. Jólin eru miklu skemmtilegri með þeim, við erum á fullu að búa til okkar eigin jólahefðir og það finnst mér mjög gaman. Ég er líka byrjuð að skreyta meira heima hjá mér. Ég hafði aldrei pælt sérstaklega í jólaskreytingum áður en ég eignaðist börn því móðir mín er jólaofstækismaður og sá um þann hluta út í ystu æsar. Núna er ég að gera móður mína mjög stolta ásamt því að gleðja börnin mín með frekari jólaskreytingum.“

Þegar kom að mataræði barnanna segir Erna að það hafi legið beint við að gefa þeim veganmat, að minnsta kosti heima fyrir.

„Börn borða yfirleitt þann mat sem foreldrar þeirra borða, það gerist oftast ómeðvitað. Fyrst voru þau á leikskóla sem var einungis með veganmat en núna eru þau á hefðbundnum leikskóla. Ég ákvað að henda þeim bara beint í djúpu laugina og sjá hvað þau myndu borða þegar þau byrjuðu.

Það kom fljótt í ljós að þau vildu ekki kjöt en fannst fiskurinn góður svo þau eru vegan í leikskólanum en borða fisk. Þegar við förum í afmæli og veislur þá leyfi ég þeim bara að borða það sem þau vilja. Ég sem nútíma vinnandi kona og móðir að klára háskólanám ásamt því að reka heimili og standa þriðju vaktina hef ekki orku né tíma í að henda í veganköku fyrir barnaafmæli sem börnin eru að mæta í. Ég er samt mjög heppin með mína nánustu fjölskyldu og þau eru alltaf með nóg af veganmat í öllum matarboðum og veislum. Þegar börnin mín hafa aldur og þroska til, þá mun ég útskýra fyrir þeim af hverju það séu ekki dýraafurðir í boði á okkar heimili og munu aldrei verða á boðstólum. Þau munu alltaf hafa frelsi til að borða það sem þau vilja annars staðar því ég tel að boð og bönn skili engum árangri, það á að fræða en ekki hræða,“ segir Erna.

Auðvelt að gera girnilegt meðlæti

„Mig langaði að sýna að það er mjög auðvelt að gera allt meðlæti yfir hátíðirnar vegan. Það er eflaust hausverkur fyrir marga þegar stórfjölskyldur koma saman. Þó það séu ekki allir vegan þá eru sumir með mjólkur- og eggjaofnæmi,“ segir Erna um uppskriftirnar sem hún gerði.

„Rauðkálið er gert frá grunni og er það móðir mín sem á heiðurinn af þeirri uppskrift. Ég uppgötvaði bara að borða rauðkál á jólunum fyrir svona þremur árum og ég er sjúk í það núna. Einnig er ég mikil sósukona eins og flestir Íslendingar og lykilinn að góðri máltíð tel ég vera góða sósu og krydd. Brúnu sósuna hef ég verið að nostra við í gegnum árin og tel mig hafa fundið fullkomna lendingu fyrir bragðlauka heimilismanna. Hún hentar í raun vel með öllum jólamat. Hvítlaukssósuna hef ég elskað í fjöldamörg ár og mér finnst hún ómissandi með fersku salati, bökuðu grænmeti og öllu grænmeti yfirhöfuð. Gulrótarlaxinn er veganútgáfan af reyktum laxi. Þá eru gulrætur notaðar í staðinn fyrir laxinn og þetta er skuggalega líkt, margir segja betra og engin slímug áferð eins og fylgir laxinum. Að lokum ákvað ég að gera uppskrift að sætkartöflumús sem ég kynntist hjá tengdamóður minni ein jólin. Þegar ég smakkaði hana fyrst þá sá ég guð og hef gengið á guðsvegum síðan. Enginn nautnaseggur má láta þessa uppskrift framhjá sér fara.“

Rauðkál 

1 rauðkálshaus, saxaður
1 tsk. kanill
1 msk. anís (má sleppa)
1 negulnagli
1 grænt epli, saxað
1 dl rauðvínsedik
½ bolli rauðvín
1 bolli krækiberja- eða sólberjasaft
2 dl sykur
1 dl vatn
1 tsk. salt

Aðferð: Setið allt í pott og sjóðið í eina í 1
til 1½ klukkustund. Galdurinn er að setja
minna fremur en meira af kryddum.

Hvítlaukssósa

1 dós af sýrðum rjóma frá Oatly
2 hvítlauksrif
1 msk. Grill Mates Montreal Steakkrydd
1 msk. agavesíróp (eða annað síróp)

Aðferð: Öllu blandað saman í skál og best
að hafa hana kalda.

Sveppasósa

Hráfefni

2 til 3 öskjur af sveppum
Smjörlíki eða olía
1 laukur
1 hvítlauksrif
1 l hafrarjómi
2 sveppateningar
1 grænmetisteningur

Aðferð: Steikið fyrst sveppina,
hvítlaukinn og laukinn í smjörlíki eða olíu. Að því loknu eru
öðru bætt við. Hægt er að
mauka sósuna með töfrasprota.

Gulrótarlax

10 stórar gulrætur
4 msk. liquid smokemerinering
3 msk. olía
1 msk. sojasósa
1 tsk. salt
Smá pipar
Pínulítið af sítrónusafa
Dass af fersku dilli

Aðferð: Flysjið gulræturnar í
langar ræmur með flysjara eða
ostaskera. Gufusjóðið þær í 15
mínútur. Setja gulræturnar í eldfast mót og hellið öllu yfir þær og
blandið vel saman. Bakið að lokum í 15-20 mín. við 180 gráður.
Berið fram á brauði með graflaxsósu frá Ora sem er vegan.

Sætkartöflumús með pekanhnetum

3 stórar sætar kartöflur
30 til 50 g af sykri (fer eftir smekk)
75 g af smjörlíki
1 dl haframjólk
1 tsk. vanilludropar
Aðferð Kartöflurnar soðnar og svo stappaðar með töfrasprota (eða settar í hrærivél)
og restin sett ofan í og svo settar í eldfast
mót.
Pekanhnetuábreiða
200 g púðursykur
200 g pekanhnetur
40 g hveiti
75 g brætt smjörlíki

Aðferð: Hneturnar eru skornar eða muldar
og þeim blandað við sykurinn og hveitið.
Bræddu smjörinu er svo blandað saman
hægt og rólega. Smyrjið blöndunni ofan á
músina og setjið inn í ofn á 180-200 gráður
og látið hitna í gegn.
Takið músina út þegar hnetugumsið er
byrjað að karamellast vel og er orðið stökkt

mbl.is