Blandaður smitsjúkdómafaraldur áhyggjuefni

Kórónuveiran Covid-19 | 29. desember 2022

Blandaður smitsjúkdómafaraldur áhyggjuefni

Fjöldi smitsjúkdóma sem lagst hafa hart á samfélagið undanfarið er áhyggjuefni, að mati Guðrúnar Aspelund sóttvarnalæknis. Það skapar verulegt álag á heilbrigðiskerfið. 

Blandaður smitsjúkdómafaraldur áhyggjuefni

Kórónuveiran Covid-19 | 29. desember 2022

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir mbl.is/Hallur Már

Fjöldi smitsjúkdóma sem lagst hafa hart á samfélagið undanfarið er áhyggjuefni, að mati Guðrúnar Aspelund sóttvarnalæknis. Það skapar verulegt álag á heilbrigðiskerfið. 

Fjöldi smitsjúkdóma sem lagst hafa hart á samfélagið undanfarið er áhyggjuefni, að mati Guðrúnar Aspelund sóttvarnalæknis. Það skapar verulegt álag á heilbrigðiskerfið. 

„Inflúensan kom fyrr en oft. Við vitum ekki hvort það þýði að ástandið vari lengur, eða hvort við náum fyrr toppi og náum þessu aftur niður. Það er því mikið um inflúensu, töluvert um Covid ennþá og aukin útbreiðsla RS-veiru. Svo eru aðrar öndunarfærasýkingar sem hafa verið að leggjast ofan á þetta, hinar og þessar veirur.“

Í þessari viku voru margir lagðir inn og því verulegt álag á Landspítala, en einnig á sjúkrahúsið á Akureyri og sjúkrahúsin á Suðurlandi og Vesturlandi. Aukið álag hefur áhrif á alla þjónustu. 

Hættuleg samsetning veiru- og bakteríusýkinga 

Spurð hvort það sé hættulegt fyrir heilbrigðan einstakling að smitast af blöndu mismunandi veirusýkinga segir Guðrún:

„Hver og ein sýking skapar ákveðna hættu, sérstaklega fyrir fólk með undirliggjandi sjúkdóma, ónæmisbælt fólk, börn og eldra fólk. Í kjölfar veirusýkinga koma stundum bakteríusýkingar, sú samsetning getur verið hættuleg hverjum sem er.“

Það sé viðbúið að þessi bylgja ólíkra smitsjúdóma vari í einhverjar vikur í viðbót og því full ástæða til að fara sérstaklega varlega á meðan. 

Ekki er of seint að fara í bólusetningu gegn Covid-19 eða inflúensu. „Við mælum sérstaklega með því fyrir eldra fólk.“

Samanlögðu áhrifin talsvert mikil

„Ástandið er öðruvísi núna en undanfarin tvö ár. Áður var auðvitað mikið um Covid-19, en þá var minna um aðrar sýkingar vegna takmarkana. Nú erum við að fá þetta allt saman og samanlögðu áhrifin af þessu eru talsvert mikil.“ 

Guðrún bendir á að spítalinn verði að meta hvort hann ráði við álagið. Þessi bylgja af inflúensu er ólík Covid-bylgju afbrigðisins Ómíkrón, síðasta vetur, sem varð til þess að neyðarstigi var lýst yfir á Landspítalanum.

„Það er erfitt að bera saman ástandið núna, við ástandið þegar Covid-faraldurinn stóð sem hæst. Núna erum við ekki að kljást við nýja veiru eða óþekkt afbrigði.“

Stærri hluti þjóðarinnar móttækilegur

Sú kenning hefur víða verið borin á borð, að vegna samkomutakmarkana hafi ekki tekist að mynda hjarðónæmi við hinum ýmsu veirum. Þær hafi legið í dvala og skelli nú á samfélaginu allar í einu, en nú séum við síður í stakk búin til að takast á við þær. 

Spurð hvort hún taki undir þessa kenningu svarar Guðrún að það séu skiptar skoðanir um þetta. 

„Við sjáum að það var tímabil þar sem það kom ekki inflúensa og var minna um aðrar sýkingar. Hópur barna varð hvorki útsettur fyrir RS-veirunni né inflúensu og því má segja að stærri hluti þjóðarinnar sé móttækilegur og auðveldara fyrir veirurnar að fara á milli.“ 

Þá bætir hún við að ekki sé um séríslenskt vandamál að ræða. Fleiri lönd standi frammi fyrir sama vanda. 

Guðrún telur ekkert benda til þess að Covid-sýkingar eða bóluefni hafi þau áhrif að við séum með veikara ónæmiskerfi í dag en við vorum áður með.

mbl.is