Komust ekki í klósettþrif vegna veðurs

Ferðamenn á Íslandi | 2. janúar 2023

Komust ekki í klósettþrif vegna veðurs

Þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði segir skýringuna á óþrifalegum salernum við Jökulsárlón vera þá að fyrirtæki sem sér um þrifin hafi ekki getað sent fólk á staðinn vegna veðurs. Þá hafi aðrir ekki getað hlaupið í skarðið, af sömu ástæðu.

Komust ekki í klósettþrif vegna veðurs

Ferðamenn á Íslandi | 2. janúar 2023

Steinunn segir salernin við Jökulsárlón ekki viðunandi og ekki annað …
Steinunn segir salernin við Jökulsárlón ekki viðunandi og ekki annað þeim fjölda ferðamanna sem heimsækja svæðið. mbl.is/Ásdís

Þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði segir skýringuna á óþrifalegum salernum við Jökulsárlón vera þá að fyrirtæki sem sér um þrifin hafi ekki getað sent fólk á staðinn vegna veðurs. Þá hafi aðrir ekki getað hlaupið í skarðið, af sömu ástæðu.

Þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði segir skýringuna á óþrifalegum salernum við Jökulsárlón vera þá að fyrirtæki sem sér um þrifin hafi ekki getað sent fólk á staðinn vegna veðurs. Þá hafi aðrir ekki getað hlaupið í skarðið, af sömu ástæðu.

„Við lentum í því sama og ferðaþjónustan um jólin. Það var ófært og fyrirtæki sem þrífur alla jafna fyrir okkur, og gerir það mjög vel, komst ekki á svæðið. Við vorum líka í vandræðum við að koma starfsfólki á svæðið sem leiddi líka óhjákvæmilega til þess að það komu dagar þar sem engin var þjónustan og við hörmum það,“ segir Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, í samtali við mbl.is.

Engin þjóðgarðssalerni við Gullfoss og Geysi

Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna, gagnrýndi salernisaðstöðuna í samtali við Morgunblaðið í dag. Hann sagði salernisaðgengi ferðamanna oft mæta afgangi í uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar og tilgreindi sérstaklega að salerni á vegum þjóðgarðsins við Jökulsárlón, hefðu verið til vandræða bæði sökum óþrifnaðar og slæmrar einangrunar. Sagði hann ferðamenn þó hafa neyðst til að nota þau fyrir helgi þar sem salernum á kaffihúsinu við Jökulsárlón hafi verið lokað vegna sprunginna pípulagna.

Sagði hann salernin við Gullfoss og Geysi vera mun betur hirt. Steinunn segist hins vegar nokkuð viss um að salernin þar séu öll í húsnæði sem tilheyri einkaaðilum. Engin þjóðgarðssalerni séu á svæðinu, líkt og Friðrik heldur fram.

Salernin anna ekki fjölda gesta

Steinunn segir starfsfólkið á Breiðamerkursandi hafa staðið sig gríðarlega vel við að halda salernunum þjóðgarðsins opnum. Aðstaðan sé hins óviðunandi og löngu sprungin.

„Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þau eru ekki viðunandi og anna á engan hátt þeim fjölda gesta sem koma á svæðið, en þetta er það sem við sitjum uppi með eins og staðan er núna. Það er verið að vinna í að skipuleggja frekari uppbyggingu á svæðinu, en eins og gefur að skilja þá er það gríðarlega stór og mikill pakki að skipuleggja svona mikilvægt svæði, bæði mikilvægt fyrir náttúruna og ferðaþjónustuna. Við viljum gera það vel og þess vegna tekur það smá tíma. Inni í þeirri framtíðarskipulagningu er að sjálfsögðu lausn á salernismálum á svæðinu.“

Fyrir liggur meðal annars umsókn í innviðasjóði um fyrsta áfanga í uppbyggingu salerna á svæðinu, en úthlutað verður úr sjóðnum í vor, að sögn Steinunnar.

Lagnir geti gefið sig í kulda

Þá vill hún koma starfsfólki kaffihússins við Jökulsárlón til varnar, en það hafi einnig staðið sig vel í að halda sínum salernum opnum. Í svona kulda geti lagnir hins vegar gefið sig og ekki sé hlaupið að því að fá iðnaðarmenn á svæðið. Þá sé ekki hægt að grafa fyrir lögnum eins og staðan er.

„Við erum svolítið bundin út af veðrinu,“ segir Steinunn.

mbl.is