Félagsmenn hljóta að hugsa sig tvisvar um

Ferðamenn á Íslandi | 10. janúar 2023

Félagsmenn hljóta að hugsa sig tvisvar um

Framkvæmdastjóri SAF segir samfélagið allt tapa ef Efling fari í verkfall og að verkalýðsforystan kjósi oft að leiða hjá sér það tjón sem verkföll valda. Ferðaþjónustufyrirtæki séu ekki búin að jafna sig á fjárhagslegu áfalli sökum heimsfaraldursins og stjórn Eflingar kjósi að bæta gráu ofan í svart.

Félagsmenn hljóta að hugsa sig tvisvar um

Ferðamenn á Íslandi | 10. janúar 2023

Jóhannes segir Eflingu eingöngu stefna að því að fara í …
Jóhannes segir Eflingu eingöngu stefna að því að fara í verkfall vegna þess að stjórnin viti að það verði tjón af því. Samsett mynd

Framkvæmdastjóri SAF segir samfélagið allt tapa ef Efling fari í verkfall og að verkalýðsforystan kjósi oft að leiða hjá sér það tjón sem verkföll valda. Ferðaþjónustufyrirtæki séu ekki búin að jafna sig á fjárhagslegu áfalli sökum heimsfaraldursins og stjórn Eflingar kjósi að bæta gráu ofan í svart.

Framkvæmdastjóri SAF segir samfélagið allt tapa ef Efling fari í verkfall og að verkalýðsforystan kjósi oft að leiða hjá sér það tjón sem verkföll valda. Ferðaþjónustufyrirtæki séu ekki búin að jafna sig á fjárhagslegu áfalli sökum heimsfaraldursins og stjórn Eflingar kjósi að bæta gráu ofan í svart.

„Verkföll eru alltaf vond fyrir alla. Þau eru í rauninni versta niðurstaðan úr kjaraviðræðum. Það tapar allt samfélagið á því þegar verkföll skella á,“ segir Jóhannes Þór í samtali við mbl.is.

„Þegar þau [verkföll] eiga við í ferðaþjónustu má vera að almenningur í samfélaginu, sem er ekki daglega að nýta sér ferðaþjónustuna á veturna eins og hótel, bílaleigur eða rútur, finni því lítið fyrir því.

Skaðinn verður hins vegar fyrir allt samfélagið. Straumurinn er rofinn og verðmætin týnast sem myndu annars flæða óheft um samfélagið.“

Verulega vont fyrir alla

„Birgðakeðja ferðaþjónustunnar er víðtækari heldur en í flestum öðrum atvinnugreinum. Það er að segja þau verðmæti sem verða til hjá ferðaþjónustufyrirtækjum og í gegnum þau og þeirra starfsemi dreifast víðar um samfélagið heldur en verðmæti sem verða til í flestum öðrum atvinnugreinum,“ segir Jóhannes.

Hann segir að mikill fjöldi fólks sé ekki í beinum samskiptum við ferðamenn, sem hafi samt atvinnu og uppskeru af þeim verðmætum sem verða til, það er að segja þau verðmæti sem ferðamaðurinn skilur eftir með neyslu sinni.

Við það bætist að samfélagið hafi skatttekjur af neyslu ferðamanna og tekjum fyrirtækja sem skili sér í meiri tekjum til hins opinbera.

„Mér þykir þetta oft sett upp þannig af forsvarsmönnum verkalýðsfélaga, sem eru að keyra áróður fyrir því að það séu mikil gæði fólgin í því að fara í verkföll til að hægt sé að ná fram kjarabótum, að þeir kjósi að leiða það hjá sér allt það tjón sem þetta veldur fjölda fólks í samfélaginu,“ segir Jóhannes.

„Þetta er nokkuð tvíbent verkfæri og ég held að fólk í Eflingu hljóti þess vegna að hugsa sig tvisvar um áður en það fer út í þetta örþrifaráð sem verkfall er. Þetta er verulega vont fyrir alla.“

„Alveg ferleg staða“

Jóhannes segir að ferðaþjónustan sé alls ekki búin að jafna sig eftir heimsfaraldurinn þrátt fyrir að eftirspurn hafi verið góð síðastliðið ár.

„Við getum líkt þessu við heimilisbókhaldið. Heimili þar sem allar fyrirvinnur á heimilinu hafa verið atvinnulausar eða mjög tekjulitlar í tvö ár, að safna skuldum, safnar alls konar fjárhagslegum vanda. Við það bætist að úti í búð kostar allt meira því það er meiri verðbólga. Daglegur rekstur heimilisins kostar meira. Lánin hafa hækkað og skuldirnar safnast saman.

Svoleiðis heimili er alveg eins og fyrirtæki í ferðaþjónustu sem er búið að fara í gegnum tvö ár með mjög litlum tekjum í gegnum heimsfaraldur og safnað skuldum og öll aðföng hafa hækkað,“ segir Jóhannes.

„Svona heimilisbókhald lagast ekkert á nokkrum mánuðum. Ef að slíkt heimili fengi það svo í fangið að þurfa að glíma við annað fjárhagslegt áfall ofan í þetta áfall, þá er það ekkert auðvelt og eiginlega alveg ferleg staða.“

Jóhannes segir þetta vera stöðuna hjá hinu venjulega ferðaþjónustufyrirtæki, sem á Íslandi er fyrirtæki sem hefur undir tíu manns í vinnu. Tekjur undanfarins árs hafi bara farið í að vinna úr skuldum.

Ekki öll feit og pattaraleg

„Við skulum muna að það eru ýmis vandamál sem hverfa ekki eins og dögg fyrir sólu og við munum sennilega vera 2-3 ár í viðbót að vinna okkur út úr þeim.

Það er staðan sem Efling kýs að setja verkföll ofan í. Það er ekki svo, eins og forystufólk Eflingar hefur stundum viljað halda fram, að öll fyrirtæki í ferðaþjónustu séu feit og pattaraleg af peningum og hafi næg fjárráð til þess að koma til móts við hvaða launakröfur sem er og líka með næg fjárráð til þess að takast á við alls konar verkföll,“ segir Jóhannes.

Hann segir Eflingu eingöngu stefna að því að fara í verkfall vegna þess að stjórnin viti að það verði tjón af því.

„Það er hinn einfaldi sannleikur málsins.“

mbl.is