Möguleikar flugvallarins miklir

Ferðamenn á Íslandi | 11. janúar 2023

Möguleikar flugvallarins miklir

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti Flugstöð Leifs Eiríkssonar og kynnti sér starfsemi flugvallarins í vikunni.

Möguleikar flugvallarins miklir

Ferðamenn á Íslandi | 11. janúar 2023

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir íslenskt hagkerfi njóta góðs …
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir íslenskt hagkerfi njóta góðs af bættum innviðum og öflugum flugvelli. Á mynd má sjá Lilju ásamt forsvarsmönnum Isavia. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti Flugstöð Leifs Eiríkssonar og kynnti sér starfsemi flugvallarins í vikunni.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti Flugstöð Leifs Eiríkssonar og kynnti sér starfsemi flugvallarins í vikunni.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að hún fundaði með forsvarsmönnum Isavia og kynnti sér stækkunarframkvæmdir á flugvellinum sem snúa meðal annars að nýju farangursflokkunarkerfi, nýjum komusal með farangursmóttöku fyrir farþega, nýju veitingasvæði auk stærri komuverslun Fríhafnarinnar ásamt nýju landgöngum og hliðum.

Öflugir innviðir númer eitt, tvö og þrjú

„Það er mín sýn fyrir hagkerfið okkar að við njótum auðvitað þessarar landfræðilegu legu okkar og því eigum við að halda áfram að rannsaka hvernig við aukum velsæld á Íslandi, þ.e.a.s. möguleika flugvallarins,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Spurð út í fjölgun ferðamanna til Íslands segir hún það vera númer eitt, tvö og þrjú að það þurfi öfluga innviði hér á landi sem geta tekið á móti þessum aukna fjölda.

„Því er spáð að hingað komi á næsta ári um 2,3 til 2,5 milljónir ferðamanna. En það byggir á því hvort þeir geta bókað gistingu, en sumstaðar á Íslandi er það mjög erfitt.

Ég sé fyrir mér að við munum halda áfram að vaxa sem ferðamannaland, en við þurfum að gera það á sjálfbæran hátt og við verðum að sjá til þess að innviðirnir geta tekið á móti þessum fjölda.“

Milljónir ferðamanna ferðast í gegnum Keflavíkurflugvöll ár hvert.
Milljónir ferðamanna ferðast í gegnum Keflavíkurflugvöll ár hvert. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðaþjónustan kröftug atvinnugrein

„En hafandi sagt það þá er það svo að helmingur nýrra starfa sem hafa verið búin til í íslenska hagkerfinu á síðustu tíu árum eru í ferðaþjónustunni. Við höfum byggt upp gjaldeyrisforðann á þessum auknu gjaldeyristekjum sem hafa komið í gegnum ferðaþjónustuna.

Þjónustustig allstaðar, allt í kringum landið, er búið að stóraukast út af þessari kröftugu atvinnugrein sem hefur komið inn, og það er auðvitað hlutverk stjórnvalda að tryggja samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar til framtíðar.“

Flugvöllurinn gegnir stóru hlutverki í því samhengi. „Það eru rík tækifæri sem felast í þessari landfræðilegu legu okkar. Í fyrsta lagi hleypur allur heimurinn hratt í að reyna að finna nýja orkugjafa, m.a. í því skyni að tryggja að við séum ekki háð jarðefnieldsneytinu.

Icelandair treystir því t.a.m. að innanlandsfloti félagsins verði allur knúinn áfram á rafeldsneyti fyrir árið 2030. Næst verður það millilandsflugið, en það mun þýða að Ísland mun verða mjög ákjósanlegur staður fyrir milliflug.

Þannig að ég tel að flugstöðin, Isavia og þessir innviðir sem tengjast því eru lykilatriði í að tryggja samkeppnishæfni og að auka hagsæld og velsæld á Íslandi. Það eru ótrúleg tækifæri í þessu.“

Sjálfbærni lykilatriði

Lilja segir að ekki sé hægt að hugsa framangreint mál í kjörtímabilum heldur þarf að hugsa það í áratugum.

„Lykilatriðið er sjálfbærni. Það má ekki vera þannig að það reynir of mikið á þanþol innviða. Það þarf að vera gangur í þessu. Það má ekki fara fram með risa stökki, heldur þarf að vera þéttur gangur í þessu. En þetta er mjög spennandi og ferðaþjónustan tengir þetta enn frekar.

Við sjáum það t.d. varðandi nýtingu á flugvellinum, að fraktflutningar eru að breytast. Vegna þess að þeir flugvellir sem hafa verið fremstir í röð í fraktflutningum, t.a.m. Amsterdam, Kaupmannahöfn og nokkrir aðrir í Þýskalandi, eiga ekki nein landsvæði. Þannig að þeir eru að minnka fraktflutninga á meðan að hluti af okkar flugvelli er ónýttur út af tengifluginu.“

Ísland hefur alla burði til þess að hér séu þjóðartekjur mjög góðar til framtíðar út af t.a.m. landfræðilegri legu landsins að sögn hennar. Þá nefnir hún orkuauðlindirnar sem Ísland býr að og hátt menntunarstig þjóðarinnar, en allt þetta fer saman.

Að lokum nefnir hún að brátt verður kynnt ferðamálastefna ríkisins til ársins 2030, en hún segir þróun innviða vera risastór þáttur í því. „Þetta verður allt kynnt á næstu vikum.“

mbl.is