Telur gervigreind boða byltingu en ekki Metaverse

Umhverfisvitund | 12. janúar 2023

Telur gervigreind boða byltingu en ekki Metaverse

„Ég var framkvæmdastjóri fram til ársins 2000. Ég veit vissulega mikið núna sem ég vissi ekki þá,“ segir Bill Gates í svari sínu til eins notenda spjallþráðar á Reddit, en í gær settist milljarðamæringurinn við tölvuna og svaraði spurningum fólks í ellefta skiptið.

Telur gervigreind boða byltingu en ekki Metaverse

Umhverfisvitund | 12. janúar 2023

Bill Gates var spurður spjörunum út í spjallþræðinum í gær.
Bill Gates var spurður spjörunum út í spjallþræðinum í gær. AFP

„Ég var framkvæmdastjóri fram til ársins 2000. Ég veit vissulega mikið núna sem ég vissi ekki þá,“ segir Bill Gates í svari sínu til eins notenda spjallþráðar á Reddit, en í gær settist milljarðamæringurinn við tölvuna og svaraði spurningum fólks í ellefta skiptið.

„Ég var framkvæmdastjóri fram til ársins 2000. Ég veit vissulega mikið núna sem ég vissi ekki þá,“ segir Bill Gates í svari sínu til eins notenda spjallþráðar á Reddit, en í gær settist milljarðamæringurinn við tölvuna og svaraði spurningum fólks í ellefta skiptið.

Var þar Gates spurður hverju hann hefði breytt, fengi hann að fara til baka til forstjóratíðar sinnar í Microsoft.

Umræddur spjallþráður á Reddit.
Umræddur spjallþráður á Reddit. Skjáskot/Reddit

Nefnir Gates þar tvennt.

„Annars vegar myndi ég breyta þeirri vinnu sem fór í að gera stýrikerfi fyrir farsíma (Android vann) og hins vegar hefði ég viljað ná sáttum í samkeppnismálsókninni mikið fyrr,“ segir hann og á þar við um mál bandaríska ríkisins gegn tæknirisanum í kringum aldamótin.

Stjórnarformaður Samsung gaf honum síma

Annar notandi spyr Gates hvernig snjallsíma hann noti. Eins og fáum kemur á óvart notar hann ekki farsíma frá erkifjendunum í Apple.

„Ég nota Samsung [Galaxy] Fold 4, sem JY Lee, stjórnarformaður Samsung, gaf mér þegar ég hitti hann í Suður-Kóreu til þess að uppfæra gamla Fold 3-símann minn.“

Hinn fyrsti Galaxy Fold sem kom út í apríl 2019. …
Hinn fyrsti Galaxy Fold sem kom út í apríl 2019. Um tíma féll síminn ekki vel í kramið hjá neytendum en svo virðist sem Bill Gates kunni að meta sinn nýja Fold 4. AFP

ChatGPT gefur „vott af því sem koma skal“

Þá heldur Bill því fram að næsta bylting í tækniheiminum sé á sviði gervigreindar. Kveður hann Meta-veröld (e. Metaverse) Marks Zuckerberg ekki neitt sérstaklega byltingarkennda meðan gervigreind sé það.

Inntur álits um hið nýja og vinsæla ChatGPT-gervigreindarforrit svarar Gates:

„Það gefur vott af því sem koma skal. Ég er hrifinn af þessari nálgun og líst vel á hversu hratt þessi nýsköpun á sér stað.“

ChatGPT hefur notið gríðarlegra vinsælda frá því það var opnað …
ChatGPT hefur notið gríðarlegra vinsælda frá því það var opnað almenningi í síðasta mánuði. Skjáskot/OpenAI

„Ég hef verið mjög heppinn“

Einn notandi spyr hvort það sé hægt að vera milljarðamæringur og með siðferðisþröskuld í lagi. Bill svarar:

„Það að vera ríkur getur auðveldlega komið þér úr jafnvægi. Hvatningin til þess að stofna ný fyrirtæki er þó að ég held góður hlutur. Jafnvel þótt skattar hækki myndi ég ekki vilja banna neinum að verða svo ríkur en það er ein skoðun. Ég hef verið mjög heppinn.“

Gates virðist ekki binda miklar vonir við Meta-veröld Marks Zuckerberg.
Gates virðist ekki binda miklar vonir við Meta-veröld Marks Zuckerberg. AFP

„Hvers vegna ertu að kaupa upp svona mikið ræktunarland? Þykir þér þetta ekkert vandamál, hversu mikið milljarðamæringum tekst að koma höndum sínum yfir?“

Gates svarar:

„Ég á minna en 1/4000 hluta af ræktunarlandi í Bandaríkjunum. Ég fjárfesti í bújörðum til þess að gera þær skilvirkari og búa til fleiri störf.

Að því sögðu er ég þeirrar skoðunar að þau ofsaríku ættu að greiða hærri skatta og gefa frá sér auð sinn til lengri tíma.“

Gates telur að loftslagsváin muni koma mest niður á fátækari …
Gates telur að loftslagsváin muni koma mest niður á fátækari löndum. AFP

„Erum við í klandri eða ofur-túrbó-klandri?“ 

Þá segist Gates hissa á að skattar hafi ekki hækkað meira en raun ber vitni í Bandaríkjunum, spurður út í stöðu efnahagsmála þar í landi. Kveðst hann þeirrar skoðunar að fjármagnstekjuskattur gæti verið jafn tekjuskatti.

„Ég veit að þetta eru erfiðir tímar fyrir margt fólk.“

Einn notandi virðist bera nokkurn ugg í brjósti vegna loftslagsvárinnar og spyr einfaldlega: „Loftslagið: Erum við í klandri eða ofur-túrbó-klandri?“

Gates svarar um hæl og segir að þótt myndin sé svört sé hann bjartsýnn. Framfarir séu farnar að eiga sér stað á meiri hraða. Lykilinn segir hann að gera umhverfisvænar vörur eins ódýrar og þær sem séu það ekki. Við munum ekki ná árangri verði „hreinni“ kosturinn alltaf dýrari.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að lífið í fátækari löndum er erfitt þessa stundina. Í sumum heimshlutum deyja yfir 10% barna áður en þau ná fimm ára aldri og yfir 30% þjást af næringarskorti sem kemur í veg fyrir að þau nái fullum líkamlegum og hugrænum þroska.

Loftslagsváin mun hægja á þeim framförum sem við erum í óða önn við að reyna að ná fram til þess að bæta lífsskilyrði um heim allan en ég held að við getum þó komið í veg fyrir voðalegar afleiðingar. Nýsköpun er að ná ágætis takti þrátt fyrir að við munum ekki ná núverandi markmiðum eða koma í veg fyrir að hækkunin nái 1,5 gráðum.“

mbl.is