Senda Abrams-skriðdreka til Úkraínu

Úkraína | 25. janúar 2023

Senda Abrams-skriðdreka til Úkraínu

Bandaríkjastjórn mun senda 31 orrustuskriðdreka af gerðinni M1 Abrams til Úkraínu. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Þjóðverjar ákváðu að senda Leopard 2A6-skriðdrekann til átakasvæðanna. 

Senda Abrams-skriðdreka til Úkraínu

Úkraína | 25. janúar 2023

Abrams-skriðdrekinn þykir einn sá besti sem framleiddur hefur verið.
Abrams-skriðdrekinn þykir einn sá besti sem framleiddur hefur verið. AFP/William West

Bandaríkjastjórn mun senda 31 orrustuskriðdreka af gerðinni M1 Abrams til Úkraínu. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Þjóðverjar ákváðu að senda Leopard 2A6-skriðdrekann til átakasvæðanna. 

Bandaríkjastjórn mun senda 31 orrustuskriðdreka af gerðinni M1 Abrams til Úkraínu. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Þjóðverjar ákváðu að senda Leopard 2A6-skriðdrekann til átakasvæðanna. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti formlega um ákvörðunina í ávarpi um kl. 17 að íslenskum tíma. Sagði hann þar að Abrams-skriðdrekinn væri sá færasti í heiminum. Biden sagði jafnframt að Bandaríkin myndu sjá um þjálfun og viðhald á skriðdrekunum, en hann þykir frekar flókinn í rekstri. Hann gengur til að mynda fyrir þotueldsneyti.

Undirbúningurinn fyrir notkun Abrams-skriðdrekanna gæti tekið nokkra mánuði, auk þess sem gert er ráð fyrir að þeir komi ekki beint frá núverandi birgðum Bandaríkjahers. 

Með öflugri orrustuskriðdrekum

Frumgerð Abrams-skriðdrekans var tekin í notkun árið 1980 og hefur hann verið uppfærður nokkrum sinnum síðan þá. Núverandi útgáfa hans var tekin í notkun um 1990. Hann er búinn annað hvort 105 mm eða 120 mm fallbyssu, sem og tveimur 7,62 mm vélbyssum og einni vélbyssu sem er 12,5mm sem foringi skriðdrekans getur skotið án þess að opna topplúgu hans.

Vél skriðdrekans er 1.500 hestöfl og sumar gerðir skriðdrekans geta farið á allt að 72 kílómetra hraða. Skriðdrekinn nýttist Bandaríkjamönnum mjög vel í Persaflóastríðinu sem og Íraksstríðinu. 

Joe Biden tilkynnir um ákvörðunina fyrr í kvöld.
Joe Biden tilkynnir um ákvörðunina fyrr í kvöld. AFP/Andrew CABALLERO-REYNOLDS

Auk Abrams-skriðdrekans ætla Bandaríkjamenn að senda 90 Stryker-brynvagna og 109 Bradley-vagna. Þjóðverjar hafa þegar tilkynnt að þeir muni senda 40 Marder-bryndreka auk Leopard 2-skriðdrekans. Áður höfðu Bretar lofað að senda 14 Challenger 2-orrustuskriðdreka, og Frakkar munu senda AMX-10 RC-léttskriðdreka. 

„Þú munt sjá hundruð brynvarinna farartækja, mjög framúrskarandi farartækja, og skriðdreka í Úkraínu. Og það sem skiptir máli, þau verða með þjálfaðar áhafnir,“ sagði háttsettur embættismaður í bandaríska varnarmálaráðuneytinu við AFP-fréttastofuna. 

mbl.is