Byrjaði í sjálfboðaliðastarfi og var fátæk á þessum tíma

Framakonur | 28. janúar 2023

Byrjaði í sjálfboðaliðastarfi og var fátæk á þessum tíma

Heiðrún Klara Johansen, eigandi HundaAkademíunnar, fann sína hillu í lífinu þegar hún eignaðist sinn fyrsta hund rúmlega tvítug. Í dag er hún hundaþjálfari og hundaatferlisfræðingur en þjálfar fyrst og fremst fólk. Það er aldrei of seint að kenna gömlum hundi að sitja en annað getur átt við um hundaeigendur.

Byrjaði í sjálfboðaliðastarfi og var fátæk á þessum tíma

Framakonur | 28. janúar 2023

Heiðrún Klara Johansen, eigandi HundaAkademíunnar.
Heiðrún Klara Johansen, eigandi HundaAkademíunnar. Ljósmynd/Samsett

Heiðrún Klara Johansen, eigandi HundaAkademíunnar, fann sína hillu í lífinu þegar hún eignaðist sinn fyrsta hund rúmlega tvítug. Í dag er hún hundaþjálfari og hundaatferlisfræðingur en þjálfar fyrst og fremst fólk. Það er aldrei of seint að kenna gömlum hundi að sitja en annað getur átt við um hundaeigendur.

Heiðrún Klara Johansen, eigandi HundaAkademíunnar, fann sína hillu í lífinu þegar hún eignaðist sinn fyrsta hund rúmlega tvítug. Í dag er hún hundaþjálfari og hundaatferlisfræðingur en þjálfar fyrst og fremst fólk. Það er aldrei of seint að kenna gömlum hundi að sitja en annað getur átt við um hundaeigendur.

„Ég er úr sveit þannig að dýr hafa alltaf verið náin mér,“ segir Heiðrún Klara um dýraáhugann. Hún flutti 14 ára til Svíþjóðar með móður sinni og fór á hestabraut í landbúnaðarfjölbrautaskóla. Sænsku hestarnir heilluðu Heiðrúnu Klöru ekki og eftir útskrift úr skólanum fór hún á vit ævintýranna í Noregi.

„Ég vann við að mjólka geitur uppi í fjöllum í Noregi. Það var mjög skemmtilegt starf sem átti bara að vera sumarstarf í eitt sumar en ég var þar í eitt og hálft ár. Þar fékk ég minn fyrsta hund. Ég fór á eitt námskeið og var mjög fljót að læra allt sem þjálfarinn gat kennt mér,“ segir Heiðrún Klara sem fann að hún vildi læra meira. Þegar hún lítur til baka sér hún að fyrsti hundaþjálfarinn vissi í rauninni ekki mikið um hundaþjálfun og notaði gamlar aðferðir við kennslu.

Hundar þurfa líka að fara í skóla.
Hundar þurfa líka að fara í skóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svaf ekki vel fyrr en hún tók ákvörðun

„Þegar ég fór aftur til Óslóar fann ég hundaskóla og hugsaði að þetta væri eitthvað spennandi. Þar opnuðust augu mín og ég bara labbaði upp að þeim og spurði hvernig ég gæti lært þetta. Ég fórnaði vinnunni minni fyrir að vinna með þeim í sjálfboðaliðastarfi og var mjög fátæk á þessum tíma.“

Heiðrún Klara flutti heim til Íslands í kringum 2006 og 2007 og segir að það hafi alltaf blundað í sér sú þrá að fara í hundaþjálfaranám. Hún fór að lokum á fund með Íslandsbanka nokkrum árum seinna og taldi bankann á að veita sér lán fyrir náminu enda ekki um hefðbundið nám að ræða og aðrir tímar í efnahagslífinu en í dag.

„Ég var sterklega að íhuga að fara í næringarfræði og einkaþjálfaranám. Ég hafði mjög mikinn áhuga á því á þessum tíma. Þá hafði ég sett hundaþjálfarann á hilluna af því að námið var í útlöndum og miklu meira vesen. Á þessum tíma vaknaði ég hverja einustu nótt í svitakasti vegna þess að ég hélt að ég væri að gleyma einhverju. Ég vissi ekkert hverju ég var að gleyma en þetta gerðist ítrekað þangað til ég átti þennan fund með Íslandsbanka og ákvað að fara í námið. Ég átti að fara í þetta nám, það var bara fyrirframákveðið. Þegar ég var ekki að hugsa um það var eins og ég væri að gleyma einhverju,“ segir Heiðrún Klara og bendir hundaatferlisfræðingum framtíðarinnar á að fara á líffræðibraut eða taka áfanga sem undirbúa nemendur fyrir sálfræðinám. 

Aðspurð segir Heiðrún Klara að námsvalið hafi líklega komið einhverjum undarlega fyrir sjónir.

„Námið tók um eitt ár og var kennt í lotum. Þegar ég var að klára námið var ég byrjuð að halda námskeið. Á þeim tíma voru ekki margir með námskeið. Ég kom fersk inn á markaðinn með jákvæða styrkingu og nýjar áherslur. Hundaþjálfaranámið var bara grunnur. Ég fór líka í framhaldsnám og lærði að verða hundaatferlisfræðingur sem er mín sérstaða. Mér fannst það meira spennandi nám. Þá var ég komin í að vinna með vandamál, með stress og kvíða,“ segir Heiðrún Klara.

Heiðrún Klara Johansen er hundaþjálfari og hundaatferlisfræðingur.
Heiðrún Klara Johansen er hundaþjálfari og hundaatferlisfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erfiðara að kenna gömlum hundaeiganda

„Ég segi oft í gríni að ég þjálfa enga hunda en ég þjálfa fólk. Ég kenni fólki að kenna hundunum sínum. Þetta gengur mjög mikið út á að kenna fólki að skilja hundana sína. Þegar eigandi skilur hundinn sinn og þarfir hans þá leysist oft slatti af vandamálum af sjálfu sér. Ég get lagað geltvandamál um 50 eða 60 prósent bara með því að passa að hundurinn fái það sem hann þarf,“ segir Heiðrún Klara og nefnir sem dæmi að hundar glími jafnvel við svefnvandamál.

– Er hægt að kenna gömlum hundi að sitja?

„Ég hef heyrt það þúsund sinnum. Það er ekkert mál að kenna gömlum hundi að sitja það er hins vegar erfiðara að kenna gömlum hundaeiganda að kenna hundinum sínum að sitja. Þegar hundurinn hefur verið á heimilinu í nokkur ár þá er hvatinn til að breyta venjum okkar lítill. Það þarf kannski ekki að laga öll vandamál. Vandamál er bara það sem þér finnst vera vandamál eða umhverfinu í kringum þig eða nágrönnum eða eitthvað,“ segir hún.

Hvernig hund átt þú?

„Í mörg ár var ég Border Collie-manneskja, Þeir eru eins og rallbíll; frábærir ef maður kann að keyra þá. Ef maður kann ekki að keyra keyrir maður út af. Það er hægt að stýra orkunni. Ef maður kennir hundinum að slaka á og hætta í vinnunni eru þeir frábærir. Ef þeir hafa ekki lært þetta eru þeir alltof krefjandi fyrir flesta. Ég er reyndar ekki með Border Collie núna, ég er með litla Jack Russell-tík sem er allt öðruvísi krefjandi hundur. Hún er þrjóskari en allt annað. Ég var vön Border Collie, sem er smalahundur sem er ræktaður í að hlýða og hlusta á mig en þessi er meira svona: „Ég geri bara það sem mér sýnist, ég kem á eftir.“ Við getum ekki verið eins mikið í lausagöngu og með Border Collie. Ég þarf að nota langlínu á hana þegar við erum að labba einhvers staðar úti í móum. Ef hún finnur lykt einhvers staðar í margra kílómetra fjarlægð er hún farin. Þetta er minkahundur, þeir hafa verið ræktaðir til þess að veiða smádýr, þetta er eðlilegt í þeirra atferli,“ segir Heiðrún Klara.

Hundurinn nátengdur manninum

Samband manns og hunds hefur þróast í gegnum þúsundir ára en Heiðrún Klara segir að það hafi verið hundurinn sem tók ákvörðun um að fylgja manninum. Hæfileikinn til þess að skilja manninn er nokkuð sem hundarnir byrjuðu líklega að þróa með sér þegar þeir voru úlfar. „Hundurinn les í svipbrigði og tákn mjög mikið. Þeir eru fljótari að skilja handahreyfingar en orð. Í þjálfun kennum við hundum handahreyfingar fyrst áður en við setjum orð á æfinguna af því þeir eru fljótari að fatta það. Þeir verða mjög tengdir okkur þannig að þeir finna vanlíðan hjá okkur. Ef við erum stressuð geta þeir orðið stressaðir,“ segir Heiðrún Klara og bætir við:

„Þegar þú ert í nánd við dýr, horfir í augun á þeim og klappar þeim framleiðir þú ástarhormónið oxýtósín þannig að þér líður vel. Að fá hund inn í prófatörn hjá stressuðum nemendum minnkar streituna í líkamanum,“ segir Heiðrún Klara til að nefna dæmi. Það er hægt að hjálpa öllum. Rétt eins börn fara í leikskóla og skóla er gott fyrir hunda að fara í hundaskóla.

„Þegar mikið er um að vera getur hann ekki hlustað. Ég myndi segja að það að fara í skóla væri mjög mikilvægt,“ segir Heiðrún Klara sem býður einnig upp á krílahvolpatíma fyrir hvolpa milli níu og sextán vikna. Það er virkilega mikilvægt fyrir smáhundana að koma snemma til okkar svo þeir verði ekki hræddir og byrji að gelta þegar þeir nálgast kynþroska sem er svo snemma eða um fimm til sex mánaða.“

– Hefur þú þurft að segja upp nemanda?

„Ef þeir mæta og eru til í að læra er hægt að hjálpa öllum. Það geta hins vegar ekki allir hundar verið í hópi. Þegar við sjáum að hundurinn þrífst ekki í hópi tökum við hann í einkakennslu. Ef eigandinn er til í að læra þá er allt hægt,“ segir hundaþjálfarinn og hundaatferlisþjálfarinn Heiðrún Klara, sem hefur verið með Hundaakademíuna í að nálgast tólf ár. Núna með um 8 þjálfara í vinnu sem taka að sér að kenna námskeið, svo það er margt í boði hjá okkur.“

Heiðrún á Jack Russell-tík.
Heiðrún á Jack Russell-tík. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is