Feðgar kepptu saman á kraftlyftingamóti

Heilsurækt | 2. febrúar 2023

Feðgar kepptu saman á kraftlyftingamóti

Páll Bragason æfir kraftlyftingar undir leiðsögn sonar síns Hinriks Pálssonar. Hinrik hefur verið duglegur að hvetja föður sinn áfram í hreyfingu í gegnum árin. Í fyrra fékk Hinrik föður sinn til að keppa og setti Páll þar nokkur Íslandsmet í kraftlyftingum. 

Feðgar kepptu saman á kraftlyftingamóti

Heilsurækt | 2. febrúar 2023

Hinrik Pálsson og Páll Bragason æfa saman og keppa saman.
Hinrik Pálsson og Páll Bragason æfa saman og keppa saman. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll Bragason æfir kraftlyftingar undir leiðsögn sonar síns Hinriks Pálssonar. Hinrik hefur verið duglegur að hvetja föður sinn áfram í hreyfingu í gegnum árin. Í fyrra fékk Hinrik föður sinn til að keppa og setti Páll þar nokkur Íslandsmet í kraftlyftingum. 

Páll Bragason æfir kraftlyftingar undir leiðsögn sonar síns Hinriks Pálssonar. Hinrik hefur verið duglegur að hvetja föður sinn áfram í hreyfingu í gegnum árin. Í fyrra fékk Hinrik föður sinn til að keppa og setti Páll þar nokkur Íslandsmet í kraftlyftingum. 

„Ég hef alltaf verið nokkuð duglegur að lyfta lóðum í gegnum tíðina en það var árið 2017 sem ég fór fyrst að æfa markvisst kraftlyftingar eftir að hafa verið mikið að hlaupa árin þar á undan og lent talsvert mikið í meiðslum í tengslum við það,“ segir Hinrik sem hafði alltaf verið duglegur að hreyfa sig. Hann segir það hafa legið beint við að reyna fyrir sér í keppni eftir að hann fór að æfa.

„Það er mjög virkt keppnisstarf í öllum aldursflokkum í kraftlyftingunum og margt fólk í eldri flokkum sem keppir sín á milli og ekki síst líka fyrir eigin ánægju. Stóri kosturinn við kraftlyftingarnar er að þær bæta og viðhalda vöðvamassa og styrk sem er sérlega mikilvægt fyrir alla, ekki síst þegar maður eldist. Þær styrkja einnig beinin mikið, eru frábær meiðslaforvörn og rannsóknir sína sífellt aukið mikilvægi styrktarþjálfunar fyrir góða heilsu og langlífi. Þær eru einfaldlega besta yngingarmeðal sem til er! Allir ættu að stunda einhverja styrktarþjálfun, burtséð frá því hver þeirra aðalíþrótt er, og eins þeir sem vilja halda góðri heilsu og líkamlegri getu fram á efri ár.“

Hinrik fylgist með að Páll geri bekkpressuna rétt.
Hinrik fylgist með að Páll geri bekkpressuna rétt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll segist hafa byrjað að hreyfa sig reglulega þegar mesta barnabaslinu lauk um fertugt. Oft hefur það verið Hinrik sem hefur hvatt hann áfram. Það var til að mynda Hinrik sem fékk hann til að prófa hlaup á sínum tíma. „Ég var töluvert í útivist og fjallgöngum og hafði óskaplega gaman af því. Ég var mikið í þessari rækt til þess að gera mig kláran og vera góður í fjallgöngur og útilegur á sumrin. Mér fannst gaman að fara með allt á bakinu í óbyggðum uppi á miðhálendi með allt draslið með mér. Ég fer meira í léttari ferðir núna,“ segir Páll.

Kepptu á sama móti

Hinrik segir að kraftlyftingaáhuginn hafi undið upp á sig. Hann er varaformaður Kraftlyftingasambandsins, með dómarapróf og þjálfarapróf. Hann tók líka nám í næringarþjálfun. Hinrik hefur að sjálfsögðu smitað föður sinn.

„Við pabbi, sem er 74 ára, höfum lengi brallað ýmislegt saman í útivist og hreyfingu og í fyrra náði ég að fá hann til að taka þátt í sínu fyrsta kraftlyftingamóti þegar hann tók þátt í Íslandsmótinu í bekkpressu í apríl. Hann hefur lengi verið virkur í hreyfingu og meðal annars mætt reglulega í crossfit síðastliðin 12 ár í Crossfit Reykjavík. Ég hef séð um að gera fyrir hann prógramm og segja honum til með tækni og fleira þegar kemur að keppnisgreinunum í kraftlyftingunum, það er hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Í nóvember síðastliðnum tók hann svo þátt í sínu fyrsta Íslandsmóti þar sem hann keppti í öllum greinunum og vorum við þar báðir að keppa saman. Hann stóð sig með prýði og varð Íslandsmeistari í sínum flokki. Hann er lifandi dæmi um hvernig er hægt er að halda góðri heilsu og góðum styrk á efri árum með skynsamlegum og markvissum æfingum. Þessi samvera okkar í æfingum og keppni hefur líka ekki síst gefið mikla skemmtun og gleði,“ segir Hinrik.

Páll á nokkur Íslandsmet í kraftlyftingum.
Páll á nokkur Íslandsmet í kraftlyftingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur gengið þokkalega miðað við aldur og ástand. Ég hef verið að æfa prógramm frá honum, hann hefur haft auga með mér. Hann hefur verið að reyna að slípa þetta til. Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja,“ segir Páll hógvær.

„Hann plataði mig á tvö mót í fyrra. Það var ákaflega einfalt og gott fyrir mig af því ég var einn að keppa í mínum flokki. Þannig að það dugði að ná stönginni á loft til þess að fá gull. Mér skilst að ég hafi sett nokkur Íslandsmet. Þetta var í flokki 70 ára og eldri og ég keppti í 93 kílóa flokki. Ég er rúmlega 83 kíló þannig að ég náði ekki í 83 kílóa flokkinn. Það breytti engu, það hefur enginn verið að keppa í þessum flokkum hvort eð er. Það var til Íslandsmet í bekkpressu sem var 50 kíló en ég lyfti 65. Í nóvember var Íslandsmót í lyftingum þar sem var keppt í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Ég held að ég hafi sett Íslandsmet í hverri lyftu þar. Þetta var óttalega lítilfjörlegt miðað við það sem aðrir voru að lyfta,“ segir Páll en blaðamanni finnst nú reyndar mikið til árangursins koma.

Páll segist hafa verið heppinn að því leytinu til að hann hafi ekki átt í vandræðum með liði eða önnur líkamleg vandamál. „Við höfum það frá virtum sjúkraþjálfurum að hóflegar lyftingar séu ákaflega góðar fyrir gamlingja til viðhalda og styrkja stoðkerfið. Ef rétt er að málum staðið þá hægja þær á hrörnun og öldrun án þess að menn séu í einhverju keppnisstandi,“ segir Páll.

Hinrik fylgist vel með föður sínum og hefur verið að …
Hinrik fylgist vel með föður sínum og hefur verið að taka mataræðið hjá honum í gegn líka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að nærast vel

Hinrik leggur mikla áherslu á að nærast rétt og segir þann þátt í þjálfun oft lykilinn að bættum árangri og heilsu fólks. „Næring er mjög mikilvægur þáttur þegar kemur að íþróttum og ekki síst kraftlyftingum og öðrum styrktargreinum. Meðal þess sem er mikilvægt þar er að borða nóg af próteini í hverri máltíð til að styðja við uppbyggingu á vöðvastyrk og eins að borða nægilegt magn af kolvetnum fyrir og eftir æfingar til að hafa næga orku og styðja við endurheimt. Einnig er mikilvægt að borða reglulega yfir daginn vel samsettar og hollar máltíðar í hæfilegu magni. Svo er góður svefn eitt mikilvægasta verkfærið fyrir endurheimt og uppbyggingu,“ segir hann.

Máli sínu til stuðnings bendir Páll á að Hinrik hafi verið að reyna að laga mataræðið hjá sér. Þarf Páll meðal annars að passa að borða nógu mikið. „Ég hef haft það til hliðsjónar og er oft veikur á svellinu en þetta hefur verið til bóta. Það eru prótein og kolvetni og svo þarf maður að fá bætiefni eins og vítamín. Þetta þarf að vera nokkuð breið blanda. Kjöt, fiskur og egg eru ofarlega. Maður borðar minna af sætari mat og fær sér ávöxt á hverjum degi. Fisk og kjöt ekki sjaldnar en annan hvern dag sem aðalmáltíð.“

Feðgarnir eru samrýndir.
Feðgarnir eru samrýndir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjálfunin er hliðarverkefni

„Þjálfunin er fyrst og fremst hliðarverkefni meðfram mínu daglega starfi í Íslandsbanka en hver veit hvað síðar gæti orðið, að maður færi sig meira yfir í þjálfun. Til að ná árangri er mjög hæfilegt að stunda styrktaræfingar þrisvar í viku. Ég myndi ráðleggja sem flestum að leita til góðra þjálfara varðandi nánari útfærslu. Sjálfur æfi ég kraftlyftingarnar þrisvar í viku og hver æfing er um 2-3 klukkustundir. Þær æfingar samanstanda af upphitun og svo gjarnan einhver af keppnisgreinunum æfð og svo ýmsar viðbótaræfingar gerðar þar á eftir. Að auki stunda ég ýmsa aðra hreyfingu eins og útivist, göngur og hjól, skíði og fleira en það er mikilvægt að viðhalda almennu þoli og svo er líka gott að huga að liðleika, sem er eitthvað sem ég lengi vel vanrækti talsvert en er að vinna í að bæta,“ segir Hinrik.

Það stendur ekki á markmiðunum hjá Hinriki og þau snúast ekki bara um að bæta heilsu föður síns og hvetja hann áfram. „Markmið mín til lengri tíma eru að hafa gaman, viðhalda góðri heilsu og styrk og verða eins góður og ég mögulega get í kraftlyftingunum. Vonandi mun það svo fleyta mér eins hátt og mögulegt er í keppnum hér heima og erlendis en ég stefni á þátttöku á EM öldunga í Ungverjalandi í mars og HM í bekkpressu í S-Afríku í maí, ásamt því að keppa innanlands,“ segir Hinrik að lokum.

mbl.is