Hætti í bankanum og stofnaði ferðaskrifstofu

Spánn | 3. febrúar 2023

Hætti í bankanum og stofnaði ferðaskrifstofu

Björn Eysteinsson ákvað að elta drauminn þegar hann hætti í bankanum sökum aldurs og fór að starfa við áhugamál sitt, ferðalög. Hann hefur meira frelsi en áður og nýtur þess að dvelja í lengri tíma í sólinni þegar rólegra er um að vera.

Hætti í bankanum og stofnaði ferðaskrifstofu

Spánn | 3. febrúar 2023

Björn Eysteinsson ákvað að stofna ferðaskrifstofu þegar hann hætti í …
Björn Eysteinsson ákvað að stofna ferðaskrifstofu þegar hann hætti í bankanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Eysteinsson ákvað að elta drauminn þegar hann hætti í bankanum sökum aldurs og fór að starfa við áhugamál sitt, ferðalög. Hann hefur meira frelsi en áður og nýtur þess að dvelja í lengri tíma í sólinni þegar rólegra er um að vera.

Björn Eysteinsson ákvað að elta drauminn þegar hann hætti í bankanum sökum aldurs og fór að starfa við áhugamál sitt, ferðalög. Hann hefur meira frelsi en áður og nýtur þess að dvelja í lengri tíma í sólinni þegar rólegra er um að vera.

„Þegar ég hætti í Íslandsbanka fyrir tíu árum var mikið starfsþrek enn til staðar. Auk þess var ég og hef verið heilsuhraustur og mig í raun langaði til að vinna áfram frekar en að setjast í helgan stein,“ segir Björn Eysteinsson, framkvæmdastjóri og eigandi Betri ferða.

„Þar sem ferðalög hafa heillað mig alla ævi, hvort sem er innanlands eða erlendis, þá langaði mig í ferðabransann,“ segir Björn um ástæðu þess að hann fór út í ferðabransann. „Ég hafði í gegnum áhugamálið mitt, bridge, heimsótt marga tugi landa í flestum heimsálfum í bridgekeppnum og skipulagði sjálfur flest þau ferðalög og til viðbótar við öll þau ferðalög með maka og fjölskyldu fann ég fjölina í að skipuleggja ferðalög fyrir aðra.“ Fyrstu árin lagði hann áherslu á að skipuleggja og selja golfferðir til Bretlands og Spánar en þegar eiginkona hans Lilja Hilmarsdóttir fór að vinna með honum stækkaði hugmyndin og bættust þá við borgarferðir en Björn segir eiginkonu sína mikinn sérfræðing í evrópskum borgum.

Björn og Lilja kunna vel við lífið í sólinni.
Björn og Lilja kunna vel við lífið í sólinni. Ljósmynd/Aðsend

Ræður sér sjálfur

Björn er sinn eigin herra í dag og því fylgir mikið frelsi. „Vinnan í dag er allt öðruvísi en þegar ég var í bankanum, því nú ræð ég algjörlega vinnutímanum og er ekki bundinn við vinnu frá hálfníu til fimm eða lengur. Síðustu ár hef ég einbeitt mér að því að bjóða ferðir á vorin og haustin og haft sumrin og veturna meira fyrir mín áhugamál og fjölskylduna. Það er gaman að geta vandað sig í færri ferðum á hverju ári og leggja mikið á sig að gera þær vel og finna þakklætið hjá farþegunum.

Auk þess hefur golfið verið mitt áhugamál síðastliðin 20 ár og ekki slæmt að geta farið sem fararstjóri eða farþegi í nokkrar golfferðir á hverju ári. Ferðaskrifstofan er lítil, það er að segja við vinnum tvö í þessu hjónin, og sjáum um alla þætti rekstursins sjálf. Við höfum fundið gott jafnvægi í því að blanda saman vinnu og njóta efri áranna enda ráðum við því hversu margar ferðir við bjóðum á hverju ári. Ég skal samt viðurkenna að það blundar í manni að kominn sé tími til þess að hætta vinnu alfarið og fara eingöngu í að leika sér meðan heilsan leyfir,“ segir Björn.

Hjónin Lilja og Björn njóta þess að spila golf saman …
Hjónin Lilja og Björn njóta þess að spila golf saman í útlöndum. Ljósmynd/Aðsend

Algjör draumur að vera á Spáni í lengri tíma

Björn segir að þökk sé góðu lífeyriskerfi á Íslandi geti fólk notið lífsstíls sem hann segir að áður hafi þótt óhugsandi. Hann segir einnig að sumt fólk kjósi að minnka við sig vinnu eða jafnvel hætta að vinna fyrr. „Dágóður hluti „fólks á besta aldri“ vill nálgast lífið og tilveruna og njóta afraksturs erfiðis síns. Geta ferðast og skoðað nýja staði eða búa um skemmri eða lengri tíma í öðru umhverfi, til dæmis umvafinn sólargeislum á Spáni eða annars staðar. Að mörgu leyti er meira frelsi fólgið í því að leigja fremur en að kaupa hvort sem þú velur að fara á sama stað að ári eða prófa eitthvað nýtt,“ segir Björn en ferðaskrifstofa hans býður nú upp á svokallaðar Lengri betri ferðir. „Ferðir af þessum toga, það er að segja að leigja í 4-12 vikur, hafa notið mikilla vinsælda annars staðar á Norðurlöndunum um margra ára skeið,“ segir Björn.

Hafið þið hjónin prófað að dvelja í lengri tíma á Spáni?

„Við Lilja höfum prufað að dvelja í fjórar til sex vikur í leiguhúsnæði fyrir sunnan Alicante og mælum svo sannarlega með svo langri dvöl eða lengur, því við vorum fljót að aðlagast rólegheitum með gönguferðum á Costa Blanca-ströndinni. Hver ströndin af annarri með tilbreytingu til gönguferða og golfi tvisvar til þrisvar í viku auk heimsókna til þekktra borga í örstuttri akstursfjarlægð hver með sinn sjarma. Algjörlega dásamlegt.“

Af hverju ekki bara að flytja alveg?

„Eins og fjölmörgum öðrum þá hugnast okkur Lilju ekki að kaupa íbúð á Spáni eða í Suður-Evrópu. Við viljum frekar leigja íbúðir eða hús á þessum stöðum og dvelja í einn til tvo mánuði í senn, kannski tvisvar á ári, ýmist á sama staðnum eða breyta til frá einu ári til annars. Það hentar öðrum að kaupa íbúð erlendis og dvelja lengur á sama stað á hverju ári eða jafnvel flytja alfarið, en auðvitað flýgur hver eins og hann er fiðraður í þessu eins og öðru í lífinu,“ segir Björn, sem veit hvernig á að njóta lífsins.

Björn og Lilja eru dugleg að flakka um heiminn.
Björn og Lilja eru dugleg að flakka um heiminn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is