„Ég vildi upplifa þetta fyrir sjálfa mig“

Íslendingar í útlöndum | 7. febrúar 2023

„Ég vildi upplifa þetta fyrir sjálfa mig“

Langhlauparinn Íris Dóra Snorradóttir hefur vakið athygli í hlaupaheiminum síðastliðna mánuði, en þó svo hún sé nýtt nafn í hlaupaheiminum hefur hún lifað og hrærst í íþróttum frá unga aldri. Íris var sjö ára gömul þegar hún byrjaði að æfa fótbolta og stefndi hátt í íþróttinni, en eftir að hún lagði fótboltaskóna á hilluna fann hún ástríðuna í hlaupunum. 

„Ég vildi upplifa þetta fyrir sjálfa mig“

Íslendingar í útlöndum | 7. febrúar 2023

Íris Dóra Snorradóttir æfir hlaup með FH undir styrkri leiðsögn …
Íris Dóra Snorradóttir æfir hlaup með FH undir styrkri leiðsögn Sigurðar Péturs Sigmundssonar. Ljósmynd/Aðsend

Langhlauparinn Íris Dóra Snorradóttir hefur vakið athygli í hlaupaheiminum síðastliðna mánuði, en þó svo hún sé nýtt nafn í hlaupaheiminum hefur hún lifað og hrærst í íþróttum frá unga aldri. Íris var sjö ára gömul þegar hún byrjaði að æfa fótbolta og stefndi hátt í íþróttinni, en eftir að hún lagði fótboltaskóna á hilluna fann hún ástríðuna í hlaupunum. 

Langhlauparinn Íris Dóra Snorradóttir hefur vakið athygli í hlaupaheiminum síðastliðna mánuði, en þó svo hún sé nýtt nafn í hlaupaheiminum hefur hún lifað og hrærst í íþróttum frá unga aldri. Íris var sjö ára gömul þegar hún byrjaði að æfa fótbolta og stefndi hátt í íþróttinni, en eftir að hún lagði fótboltaskóna á hilluna fann hún ástríðuna í hlaupunum. 

Síðasta haust fór Íris í landsliðsferð til Noregs þar sem hún keppti í víðvangshlaupum. Það er margt spennandi framundan hjá Írisi, meðal annars æfingaferð með FH til Mekku afrekshlaupara, Kenía.

Fótboltinn góður undirbúningur fyrir hlaupin

Íris er uppalinn HK-ingur og spilaði með HK/Víking í fyrstu deild og með Fylki og Aftureldingu í úrvalsdeild. 

„Ég byrjaði að æfa fótbolta sjö ára gömul og þá var ekki aftur snúið. Ég ætlaði alltaf að komast langt í fótboltanum og vildi spila fyrir landsliðið þegar ég yrði eldri. Fótboltinn var alltaf númer eitt, en margar af vinkonum mínum í skólanum æfðu líka þannig að þetta var félagslegt og skemmtilegt,“ segir Íris.

„Ég er mikil keppnismanneskja en er þó alltaf að keppa við sjálfa mig og vil að sjálfsögðu að öðrum í kringum mig gangi vel. Mér gekk mjög vel í fótboltanum, sinnti honum vel og var dugleg að hlaupa sjálf með, sérstaklega síðustu árin sem ég æfði. Ég hélt hlaupunum síðan áfram eftir að ég hætti í boltanum,“ bætir hún við. 

„Ég tók þátt í ýmsum götuhlaupum og var að lenda …
„Ég tók þátt í ýmsum götuhlaupum og var að lenda í verðlaunasætum. Því lá beinast við að æfa hlaup og ég er mjög ánægð með það.“ Ljósmynd/Aðsend

Elti drauminn til Los Angeles

Íris er meðal annars menntaður íþróttafræðingur, en hún útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017. Þá lauk hún einnig einkaþjálfaragráðu frá National Personal Training Institute (NPTI) í Los Angeles árið 2020. 

„Ég vildi læra einkaþjálfarann og hafði auk þess lengi langað að fara til Kaliforníu. Þegar ég sá að það væri einkaþjálfaraskóli í Kaliforníu dreif ég mig þangað og var úti í hálft ár. Ég náði því rétt áður en heimsfaraldurinn skall á,“ segir Íris. 

„Þetta var frábær tími úti í Los Angeles, en ég þroskaðist mikið, kynntist frábæru fólki og upplifði nýja og skemmtilega hluti. Einkaþjálfaranámið var í þrjá mánuði, en hina þrjá mánuðina var ég bara að njóta, ferðast um og fá heimsóknir frá Íslandi. Ég fór meðvitað ein í ferðina því ég vildi upplifa þetta fyrir sjálfa mig,“ segir Íris.

Tók fyrsta heilmaraþonið í Kaliforníu

Íris var dugleg að hlaupa í sólinni í Kaliforníu og tók meðal annars þátt í sínu fyrsta heilmaraþoni þar. „Þarna var ég ekki alveg með það á hreinu hvernig ég ætti að undirbúa mig almennilega fyrir heilt maraþon. Ég nærði mig til dæmis ekkert í hlaupinu og æfði ekki rétt fyrir það. Ég var á góðum tíma fyrstu 30 kílómetrana, en eftir það stífnaði ég öll upp og þurfti að labba part af hlaupinu eftir það, þar klúðraðist hlaupið. En í dag veit ég betur og á það eftir að taka heilt maraþon almennilega,“ útskýrir hún. 

Á meðan Íris var úti nýtti hún tímann vel og kláraði þá tvo áfanga sem hún átti eftir í meistaranámi sínu við Bifröst. „Það var nám í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun, en ég útskrifaðist þaðan sumarið eftir að ég kom aftur heim til Íslands,“ segir Íris. 

Íris tók þátt í sínu fyrsta heilmaraþoni í Kaliforníu.
Íris tók þátt í sínu fyrsta heilmaraþoni í Kaliforníu. Ljósmynd/Aðsend

Miklar bætingar með hlaupahópnum

Íris byrjaði í hlaupahóp FH undir leiðsögn Sigurðar Péturs Sigmundssonar, en hún segist fljótt hafa upplifað bætingar og aukin hraða í hlaupunum. „Frá árinu 2020 hafa orðið gríðarlegar framfarir hjá mér í öllum vegalengdum. Núna í sumar bætti ég meðal annars tímann minn í hálfmaraþoni um 12 mínútur og hljóp á 1:21:01, en árið áður hljóp ég á tímanum 1:32:57. Það urðu einnig töluverðar bætingar hjá mér bæði í 10 og 5 kílómetrunum. Hjá Sigurði er hópurinn á hraðaæfingum tvisvar í viku og síðan er hver og einn með sitt prógram fyrir utan það,“ útskýrir hún.

Í apríl mun Íris fara, ásamt öðrum hlaupurum úr hlaupahóp FH, í æfingaferð til Kenýa. „Það verður dýrmæt reynsla og ég er mjög spennt fyrir því. Ég er viss um að þetta verði mjög góð reynsla fyrir okkur öll í hópnum, en ég er líka viss um að hlaupagetan eigi eftir að aukast til muna og að þessi reynsla muni nýtast til góðs,“ segir Íris. 

„Á síðasta ári fékk ég það tækifæri að fara með …
„Á síðasta ári fékk ég það tækifæri að fara með landsliðinu í hlaupum til Noregs að keppa í víðvangshlaupum. Það var mjög góð reynsla fyrir mig og ferðin góð. Hlaupið var 9 kílómetrar, eða sex hringir þar sem hver hringur var 1,5 kílómeter. Það væri gaman að fá enn frekari tækifæri með landsliðinu í hlaupum.“ Ljósmynd/Aðsend

Mikil hvatning og ákveðin viðurkenning

Í byrjun árs var Íris ein af sjö konum sem tilnefndar voru sem langhlaupari ársins 2022. „Það er ótrúlega mikil hvatning fyrir mig og framhaldið hjá mér í hlaupunum. Þetta er ákveðin viðurkenning fyrir það sem ég er búin að gera og hvetjandi fyrir mig og vonandi aðra líka. Mér finnst ótrúlega gaman að keppa í hlaupakeppnum þannig að í ár ætla ég að reyna að taka þátt í sem flestum af þeim sem mér finnst spennandi,“ segir Íris. 

„Ég hef aðallega verið að keppa á innanhúsmótum á braut, í götuhlaupum á sumrin og utanvegarhlaupum inn á milli, en síðan prófaði ég að taka þátt í víðvangshlaupum á síðasta ári. Þannig að það er mikil fjölbreytni í þessu,“ bætir hún við. 

Hægt er að kjósa Írisi sem langhlaupara ársins hér fyrir 8. febrúar. 

mbl.is